Heill her af vitvélum rannsakar geiminn

Það mun ekki líða langur tími til þar til hvers kyns tæki, búin gervigreind, fljúga, svífa, ganga og grafa á framandi himinhnöttum og hafa samtímis innbyrðis tjáskipti hvert við annað. Þetta segja eðlisfræðingarnir Wolfgang Fink og félagar hans hjá Tæknistofnun Kaliforníu í Pasadena, sem komið hafa upp prófunarbrautum til tilrauna með gervigreindarþjarka.

Nú eru framandi hnettir kannaðir með litlum bílum eða beint úr lendingarfarinu og öllu fjarstýrt frá jörðu. Þessi fjarstýrðu tæki fylgja fyrirframákveðnum brautum og skipunum en geta t.d. ekki staðnæmst og tekið mynd upp á eigin spýtur ef eitthvað áhugavert ber fyrir sjónir. Jafnframt er fjarstýringin frá jörðu allt of tímafrek. Það getur t.d. tekið meira en klukkustund að boð berist frá jörðu til Títans, tungls Satúrnusar.
Wolfgang Fink telur lausnina þá að smíða vitvélar sem geti tekið ákvarðanir upp á eigin spýtur. Títan má t.d. rannsaka með þremur mismunandi gerðum farartækja sem fær væru um að taka sjálfstæðar ákvarðanir: Á braut um tunglið væri gervihnöttur sem fylgdist með ofan frá. Gervihnötturinn velur áhugavert svæði og sendir boð til loftskips um að svífa þangað. Á staðnum metur loftskipið hvaða staði skuli rannsaka og sendir tunglbíl þangað.

Til að reyna hugmyndina hafa vísindamennirnir smíðað lítið loftskip sem svífur yfir prófunarbrautunum. Þannig gefst þeim tækifæri til að rannsaka hæfni tækjabúnaðarins til að senda boð til lítilla farartækja á jörðu niðri. Tilraunin er opin vísindamönnum um allan heim og þeir taka þátt í æfingum gegnum netið.

Subtitle:
Old ID:
1063
880
(Visited 34 times, 1 visits today)

Pin It on Pinterest

Share This

Fá þér
áskrift?

Við erum með fullt blað af spennandi greinum einsog þeim sem þú ert búin/n að vera að lesa og meira til.