Spennuþrungin geimferð

Eftir hrakfarir Apollo 13. má NASA ekki við frekari áföllum og því er álagið mikið á geimfarana um borð í Apollo 14. Ekki minnkar það þegar Stuart Roosa mistekst næstum að tengja stjórnfar og tunglferju saman, þegar radarinn virkar ekki níu kílómetrum yfir tunglinu og eins þegar Antares lendir í jaðri á litlum gíg.

Stuart Roosa er lýsandi dæmi um hvernig æfingin skapar meistarann: Í 19 langa mánuði hefur hann æft samtengingu milli stjórnfars Apollos og tunglferjunnar í flughermi og sú aðgerð er honum smám saman svo í blóð og merg runnin að hann hefur sett met í lítilli eldsneytisnotkun. Í öllu falli á jörðinni.


Roosa vonast til að geta endurtekið afrekið úti í geimnum og ríflega fjórum og hálfum tíma eftir geimskot frá Flórída er útlitið gott: Sunnudaginn þann 31. janúar 1971 kl. 19.41 liggur stjórnfar Apollo 14., Kitty Hawk, frábærlega til að tengjast við Antares sem er þá að finna við þriðja þrep geimflaugarinnar. Í gegnum gluggann getur Alan Shepard flugstjóri séð tunglferjuna beint fyrir framan sig og hughreystandi segir hann við Roosa: „Nú setur þú nýtt met.“

 

En þegar farartækin eiga að tengjast gerist ekki neitt. Meðan Kitty Hawk og Antares rekur hvort frá öðru telur Roosa að Kitty Hawk hafi verið á of litlum hraða til að geta framkvæmt tenginguna – því verður hann að bakka og reyna aftur á meiri hraða þrátt fyrir að það muni kosta auka eldsneyti. „Þar fór sú metatilraun,“ muldrar hann leiður meðan hann leggur til atlögu á ný.

 

Samtengingin tekst heldur ekki í þetta sinn og þegar Roosa hefur gert þrjár misheppnaðar tilraunir einum og hálfum tíma seinna hafa hann og félagar hans tveir fyrir löngu gleymt öllu um að slá ný met. Ennþá einu sinni, áður en leiðangurinn er kominn almennilega af stað, lítur út fyrir að aflýsa þurfi honum. Án samtengingar verður engin lending sem yrði reiðarslag fyrir NASA, enda hefur orðspor þeirra beðið nokkurn hnekki í hrakfallaferð Apollos 13. í apríl 1970.


„Hey, Stuart, þetta er Geno,“ heyrist í stjórnandanum Gene Cernan í talstöðinni frá stjórnstöð í Houston. „Við hérna niðri fengum eina hugmynd.“ Skömmu síðar gerir Roosa sjöttu tilraunina og fylgir nákvæmlega eftir leiðbeiningum Cernans. En þetta virðist ekki vera hans dagur. „Það gerðist ekkert,“ segir Shepard þegar farartækin tvö koma saman. „Ekkert?“ spyr Roosa áhyggjufullur. En á næstu sekúndu heyra geimfararnir loksins röð af smellum frá tengibúnaðinum. Kitty Hawk og Antares eru reiðubúin til að halda saman áfram til tunglsins – og áhöfnin getur aftur slappað af eftir full viðburðaríkan fyrsta vinnudag í geimnum.

 

Mitchell gerir tilraunir með fjarskynjun

 

Jafn óvanir og þeir eru þyngdarleysinu eiga geimfararnir erfitt með að festa svefn. Stuart Roosa saknar þess að geta ekki lagt höfuðið á koddann og meðan hann reynir eirðarlaus að finna svefnstellingu uppgötvar hann ljósgeisla frá Mitchell. Kannski hefur hann kveikt á lukt sinni þar sem eitthvað hefur komið upp á, hugsar Roosa með sér.

 

En Ed Mitchell hefur allt aðrar ástæður til að halda sér vakandi. Hann er að framkvæma leynilega tilraun sem hvorki félagar hans eða NASA eiga nokkurn þátt í: Er mögulegt að senda hugsanir fleiri þúsund kílómetra í gegnum geiminn til jarðar? Í skini luktarinnar skoðar Mitchell blað alsett tilfallandi tölum. Hann velur eina tölu og einbeitir sér sem mest hann má við að flytja hana með fjarhrifum til fjögurra „samsærismanna“, sem bíða reiðubúnir í Flórída. Nokkrum sinnum endurtekur hann þetta rétt eins og ráðgert hafði verið á hverjum degi meðan á ferðinni stendur, bæði til og frá tunglinu.

 

Flugstjórinn brestur í grát

 

Ef Mitchell hefði fjórum dögum síðar getað leyst vandamálin með hugarflutningum einum saman þá hefði hann gert það, því á meðan Stuart Roosa er einn á braut um tunglið í Kitty Hawk eru hann og Shepard snemma morguns föstudaginn 5. febrúar í miklum nauðum um borð í Antares sem nálgast tunglið: Lendingarradarinn virkar ekki. Í níu kílómetra hæð ætti hann að hafa tekið að fóðra þá með gögnum um fjarlægðina til yfirborðsins en ekkert gerist. Öryggisreglur banna þeim að lenda nema því aðeins að radarinn virki og Mitchell hvetur hann áfram: „Koma svo, radar, koma svo.“

 

Í tæpra sjö kílómetra hæð berast enn engin boð og meðan Mitchell þrýstir á rofana messar hann óþolinmóður: „Come on.“ Í þriggja kílómetra hæð hrekkur radarinn loks í gang og skilaboðin taka að streyma inn. Félagarnir tveir varpa öndinni léttar enda mátti hér engu muna.

 

Geimfararnir fljúga lágt yfir Cone-gígnum og Shepard lendir Antares mjúklega á Fra Mauro-hásléttunni. Réttum fimm tímum seinna stígur hann út á tunglið með viðeigandi en ekkert sérlega eftirminnilegum ummælum: „Þetta hefur verið löng ferð, en nú erum við komnir.“ Maðurinn sem tíu árum áður var fyrstur Bandaríkjamanna til að komast út í geim er heillaður af umhverfinu. Þrátt fyrir að landslagið sé þakið örum eftir ármilljóna árekstra loftsteina finnst honum það stórkostlega tignarlegt í nakinni auðn sinni. Þegar Shepard hallar sér aftur og horfir upp í svartan himininn uppgötvar hann hvítbláa jörðina í fjarska og þá er sem allar tilfinningahömlur losni. Léttirinn yfir vel heppnaðri lendingu, heillandi sýnin af jörðinni, uppfylling drauma hans – allt er þetta svo yfirþyrmandi að hann getur ekki haldið aftur af sér og brestur í grát á tunglinu.

 

Stritað með vagn í drætti

 

„Heyrðir þú þetta?“ hvíslar Shepard til Mitchells. Eftir fyrri af tveimur fyrirhuguðum tunglgöngum hafa geimfararnir loks náð sér í svolítinn blund en óþekkt skerandi hljóð hefur gert þá báða glaðvakandi. „Andskotakornið, já, ég heyrði það vel,“ svarar Mitchell. „Þú heldur vonandi ekki að þetta bölvaða tæki sé að velta um koll?“ spyr Shepard órólegur. Mennirnir tveir kíkja áhyggjufullir út um gluggann en róast strax þegar þeir sjá að Antares stendur traustum fótum á yfirborðinu. Farartækið hvílir í jaðri á gíg og hallar lítillega. Það hefur skrikað svolítið til í tunglmölinni en ekkert bendir til að það sé við það að velta.

 

Eftir þessar hrellingar tekst geimförunum ekki að festa svefn á ný og klukkan tvö um nóttina yfirgefa þeir Antares í glóandi morgunsólinni og hefja síðari tunglgöngu sína. Meðan verkefni gærdagsins hafði einkum falist í að koma mælitækjum fyrir þá er jarðfræðin núna í brennidepli og til stendur að ná til Cone-gígsins í ríflega kílómetra fjarlægð frá lendingarstaðnum.

 

Meðferðis í, til þessa, lengstu tunglgöngu sögunnar hafa geimfararnir kort með loftmyndum af þeim kennileitum sem þeir fara framhjá á leiðinni, en í raun er lítið hægt að reiða sig á kortið. Í einsleitu eyðimerkurlandslaginu þar sem hver sandaldan tekur við af annarri og risavaxin björg torvelda útsýnið hvað eftir annað er nánast ógjörningur að meta fjarlægðir eða yfirhöfuð að ná áttum.

 

Fljótlega verður þessi gönguför að endalausu striti því ekki einungis eiga Shepard og Mitchell örðugt með að komast rétta leið; tveggja hjóla dráttarvagninn sem þeir draga eftir sér er til mikilla vandræða. Ýmist festist hann eða hoppar og skoppar á ójöfnu undirlaginu þannig að mælitæki og verkfæri detta af og að lokum ákveða geimfararnir að taka hvor undir sinn enda og lyfta vagninum upp. „Vinstri, hægri, vinstri, hægri,“ fyrirskipar Shepard glaðlega meðan hann og Mitchell dragnast með vagninn yfir enn eitt hæðardragið.

 

„Hér sitja tveir náungar sem höfðu reiknað með að þið þyrftuð á endanum að bera vagninn,“ heyrist glaðhlakkalega frá flugstjórninni í Houston. Fyrir leiðangurinn höfðu tveir samstarfsmenn spáð fyrir um að Shepard og Mithcell myndu ekki ná til gígsins með vagninn í eftirdragi og hafa jafnvel veðjað einni flösku af írsku viskíi um hvort sú yrði raunin. En Shepard og Mitchell eru ekki fúsir að gefast upp, jafnvel ekki þótt svitinn bogi af þeim og þeir séu við það að örmagnast.

 

Í þröngum geimbúningnum krefst sérhvert skref mikillar áreynslu en fremur en að snúa við æja mennirnir oft meðan þeir skima eftir þekktum kennileitum í landslaginu. Séð frá bröttum hæðarhrygg líkist Antares litlu leikfangi í fjarska og eftir því sem mennirnir fjarlægjast farartæki sitt meira verða þeir sannfærðari um að nálgast áfangastaðinn.

 

En þegar geimfararnir eru skömmu síðar komnir á toppinn og sjá enn ekki til hins 300 metra stóra Cone-gígs eru vonbrigðin mikil. „Við erum enn ekki komnir að gígbarmnum,“ tilkynnir Shepard í talstöðina. „Við höfum ekki hugmynd um hvar við erum staddir,“ bætir Mitchell við.
Í Houston heyra menn hvernig geimfararnir mása og blása af þreytu og þegar púls Shepards er kominn upp í 150 – u.þ.b. helmingi meira en í hvíldarpúls – fyrirskipa læknar í stjórnstöðinni að mennirnir taki sér hvíld. Nokkru síðar er Shepard reiðubúinn að gefa verkefnið upp á bátinn en Mitchell andmælir. „Þetta er allt til einskis ef við náum ekki þangað.“

 

Eftir frekari göngu yfir svæði þar sem björg á stærð við bíla liggja á víð og dreif þykist Mitchell skyndilega bera kennsl á kennileiti af kortinu. „Al, þetta stóra bjarg er miklu stærra en öll hin – við ættum að geta séð gíginn þaðan,“ segir hann og bendir á bjargið og gíginn á kortinu. En tíminn er að renna út og með tilkynningunni „Okei, Ed and Al,“ setur Houston endanlega lokapunkt á leiðangurinn.

 

Ríflega fjórum tímum eftir að þeir yfirgáfu Antares snúa geimfararnir til baka hlaðnir ómetanlegum sýnishornum af tunglinu. Áður en Shepard fer um borð í tunglferjuna stillir hann sér upp framan við sjónvarpsmyndavél – hann vill koma áhorfendum á jörðu niðri á óvart. „Í vinstri hönd er ég með litla hvíta kúlu sem fjölmargir Bandaríkjamenn þekkja,“ eru upphafsorð hans á sýningunni. Með golfkylfu – sem er umbreytt jarðfræðimælitæki – reynir hann að slá boltann með hægri hönd en bæði fyrsta og annað golfhöggið á tunglinu misheppnast. Í þriðja sinn hittir Shepard vel á kúluna og boltinn þeytist upp mót myrkum himninum fleiri hundruð metra vegna þess hve þyngdaraflið er lítið.

 

Áhöfnin vinnur heilan kassa af viskíi

 

Þegar mennirnir þrír eru aftur samankomnir í Kitty Hawk og setja stefnuna á ný til jarðar lítur Mitchell í síðasta sinn á tunglið. Hann veit sem er að hann mun aldrei koma þangað aftur en í staðinn fyrir eftirsjá fyllist hann af innri friðsæld sem ágerist þegar á líður heimferðina. Þegar hann sér bláu plánetuna í niðamyrkri geimsins nálgast, finnst honum sem hann hafi fundið sinn sess í stórkostlegum alheimi þar sem ekkert er hendingum háð.

 

Og gleði Mitchells minnkar ekki eftir heimkomuna því þegar geimfararnir eru í tveggja vikna sóttkví fær áhöfnin óvænta gjöf. Út frá ljósmyndum þeim sem Shepard og Mitchell tóku á tunglinu hefur jarðfræðingum tekist að kortleggja leið þeirra. Greiningar sýna að mennirnir hafa staðið í einungis 20 metra fjarlægð frá Cone-gígnum – svo nærri að leiðangurinn má teljast frábærlega vel heppnaður. Shepard og Mitchell hafa þegar sent eina viskíflösku til samstarfsfélaga sinna sem höfðu veðjað á að þeir myndu ekki ná til Cone-gígsins. Nú fær áhöfnin á Apollo 14 hins vegar heilann kassa af viskíi með vinsamlegri kveðju frá jarðfræðingunum sem segja dularfullir: „Þið höfðuð ekki villst og þið vissuð það ekki.“

 

Geimfararnir í Apollo 14 lögðu að baki um 3 kílómetra á annarri tunglgöngu sinni. En tæpu hálfu ári síðar fara sporgöngumenn þeirra mun meiri vegalengdir. Með í för hafa þeir nefnilega heimsins fyrsta tunglbíl sem þeir geta ekið með 17 km hraða á klst. Þannig búnir geta þeir haldið akandi í fyrsta leiðangurinn upp í fjöllin á tunglinu.

 
 
(Visited 30 times, 1 visits today)

Pin It on Pinterest

Share This

Fá þér
áskrift?

Við erum með fullt blað af spennandi greinum einsog þeim sem þú ert búin/n að vera að lesa og meira til.