Göngutúr heldur heilanum heilbrigðum

Reglulegar gönguferðir halda heilanum ungum og hjálpa jafnvel til við að laga skemmdar frumur. Þetta kemur fram í nýrri rannsókn og getur skipt sköpum í baráttunni gegn vitglöpum og Alzheimer.

Maðurinn- Heilinn

Lestími: 3 mínútur

 

Það að góður göngutúr sé holl líkamsrækt ætti ekki að koma neinum á óvart.

 

Í gegn um söguna hafa gönguferðir einnig gagnast sem góð hugleiðsluæfing.

 

Gríski heimspekingurinn Aristóteles nefndi meira að segja skólann sinn „Peripatetic skólann“ (gríska orðið peripatein – að ganga um), því oftast voru djúpar hugsanir mótaðar í gönguferð um Aþenu.

 

Og nú sýnir rannsókn að gönguferðir örva ekki aðeins hugsanir.

 

Reglulegar gönguferðir halda bæði heilanum skörpum og aðstoða við að laga skemmdar frumur.

 

Heilinn visnar án hreyfingar

 

Í rannsókninni kemur fram að sérhver hreyfing er betri fyrir heilann en engin hreyfing. Það sem kom þó mest á óvart var e.t.v. að gönguferðir örva heilann betur en reglubundnar æfingar eins og t.d. dans.

 

Lestu einnig:

Tæplega 250 manns 60 ára og eldri tóku þátt í rannsókninni. Flestir höfðu ekki hreyft sig mikið en vísindamennirnir breyttu því fljótt.

 

Þriðjungi var falið að ganga 40 mínútur þrisvar í viku, hinn æfði dans þrisvar í viku, en síðasti hópurinn var samanburðarhópur.

 

Bæði fyrir og eftir rannsóknina, sem stóð yfir í sex mánuði, var heilsufar og minni eldra fólksins rannsakað, og háþróaður heilaskanni skannaði heilsu og getu svokallaðs hvíts heilamassa (heilahvítu) hjá  fólkinu.

 

Sex mánuðum seinna hafði gönguferðahópurinn bætt sig hvað mest á minnisprófinu, rétt eins og heilahvíta þeirra hafði framleitt fjölda nýrra fruma.

 

Taugabrautirnar í heilanum urðu stærri og  skemmdir á frumunum höfðu minnkað – og í sumum tilfellum alveg horfið.

 

Vísindamennirnir notuðu háþróaðan segulómskoðun til að bera saman heilahvítu þátttakenda í upphafi tilraunarinnar og aftur sex mánuðum seinna.

© Shutterstock

Minni dansaranna og heilahvítan urðu einnig betri eftir reglulegar dansæfingar, en ekki alveg eins mikið og hjá gönguhópnum.

 

Viðmiðunarhópurinn, sem hélt áfram kyrrsetu sinni, hafði hins vegar farið aftur á öllum sviðum..

 

Skortur á hvítum heilamassa veldur vitglöpum

 

Hvíti massi heilans – heilahvítan – táknar fitulagið sem umlykur flestar taugabrautir heilans. Fitan ver bæði taugarnar og hjálpar þeim að senda rafmerki milli mismunandi heilastöðva.

 

Með aldrinum framleiðir heilinn færri fitufrumur til að viðhalda heilahvítunni og þetta hægir á heilanum og skerðir minni.

 

Nýja rannsóknin sýndi hins vegar fram á að heilinn getur auðveldlega búið til nýjar frumur fyrir hvíta heilamassann ef líkamanum er haldið við – og þá sérstaklega með röskum gönguferðum.

 

Sendiboði og verndari heilans

Heilahvítan liggur sem verndandi fitulag í kring um taugakerfi heilans. Á myndinni er það ljósbrúnt en í þverskurði heilbrigðra heila er það hvítt.

Heilahvítan hjálpar taugafrumum að senda rafmerki milli heilastöðva. Hér er skannmynd af taugaboðum sem fara um taugabrautir í heilahvítunni.

Þetta eru virkilega góðar fréttir fyrir alla en sérstaklega ánægjulegar í baráttunni gegn heilasjúkdómum á borð við vitglöp og Alzheimer.

Vísindamennirnir grunar nefnilega að skortur á nýjum frumum og skemmdir á heilahvítunni séu ein helsta orsök margra öldrunarsjúkdóma.

 

Birt 10.08.2021

 

SOREN STEENSIG

 

Lestu einnig:

(Visited 1.509 times, 1 visits today)

Tengdar Greinar

FULLUR AÐGANGUR AÐ VEFNUM Í 14 DAGA FYRIR 0 KRÓNUR

PRÓFAÐU 14 DAGA FYRIR 0 KRÓNUR