Covid: Fylgstu með nýjum fréttum

Lifandi vísindi flytja þér nýjustu fréttir af framvindu og allra nýjustu rannsóknum á nýju kórónuveirunni SARS-CoV-2 og COVID-19

ÞAÐ NÝJASTA UM KÓRÓNUVEIRUNA

Flensusmitum fækkaði um 98% í faraldrinum

 

Fimmtudagur 4. febrúar 2021

Meira en 100 milljónir hafa smitast af kórónuveirunni en faraldurinn hefur komið í veg fyrir að miklu fleiri fengju venjulega inflúensu.

 

Í nýjustu skýrslu heilbrigðisyfirvalda ESB er fækkun inflúensutilvika talin vera 98% í samanburði við sama tímabil ári fyrr og í BNA nemur fækkunin heilum 99%.

 

Í venjulegu árferði veikjast um 5-10% alls fólks af inflúensu eða um 400-800 milljónir. Um 5 milljónir þarf árlega að leggja inn á sjúkrahús vegna veikindanna og um 500.000 látast.

 

Þessi mikla fækkun leiðir af sér að allt að 790 milljónir fá EKKI inflúensu á hinu árlega flensutímabili.

 

Skýringarnar eru þær að reglur um grímunotkun, fjarlægð og handþvott sem innleiddar voru til að hindra útbreiðslu Covid-19, draga líka úr dreifingu hefðbundinnar inflúensu.

Ný uppgötvun: Sérstakt lyf dregur úr dánartíðni meðal sykursjúkra

 

Fimmtudagur 28. janúar 2021

 

Bandarískir vísindamenn hjá Alabamaháskóla skoðuðu afdrif Covid-sjúklinga með sykursýki en sjúkdómurinn eykur hættuna á alvarlegum veikindum og dauða.

 

Niðurstöðurnar komu nokkuð á óvart og sýndu marktækt lægri dánartíðni hjá þeim sem fengu lyfið metformin en meðal þeirra sem fengu önnur lyf.

 

Nákvæmlega tiltekið var dánartíðnin 11% hjá þeim sem fengu metformin en 24% hjá þeim sem fengu önnur lyf. Aðrir þættir, svo sem kyn, aldur, kynþáttur, þyngd eða undirliggjandi sjúkdómar á borð við of háan blóðþrýstings reyndust ekki skipta máli í samhenginu.

 

Vísindamennirnir segja áhrifin geta stafað af bólgueyðandi og blóðþynnandi áhrifum lyfsins. Til að raunverulega megi draga slíkar ályktanir þarf þó frekari rannsóknir.

Útreikningar: Þess vegna eru meira smitandi afbrigðin hættulegri en þau banvænni

 

Miðvikudag 27. janúar 2021

 

Veirur stökkbreytast og verða þá stundum meira smitandi eða banvænni.

 

Verst er auðvitað ef veiran verður bæði meira smitandi og banvænni.

 

Nýju kórónuveiruafbrigðin sem kennd eru við England, Rúmeníu og Suður-Afríku eru almennt meira smitandi og það veldur miklum vanda þar eð ef fleiri smitast leiðir það á endanum til fleiri andláta.

 

En það er hægt að nota stærðfræðina til að reikna út hve margir munu deyja eftir t.d. einn mánuð ef smithæfni og drápshæfni veirunnar eykst.

 

Dæmi:

Ef 10.000 smitast á tilteknum degi munu þeir innan 6 daga smita út frá sér þar eð þeir taka að smita aðra eftir 4-6 daga.

 

Þetta þýðir að á einum mánuði berst smit í 5 umferðum. Það gerist sem sagt 5 sinnum á tímabilinu að smitaðir smita út frá sér.

 

Hjá WHO er álitið að dánartíðni af völdum Covid-19 sé á bilinu 0,3-1%. Ef smitstuðullinn er 1,1 (hver smitberi smitar að meðaltali 1,1) og dánartíðnin 0,8% lítur reikningsdæmið svona út:

 

(Fjöldi upphaflegra smita x smitstuðullinn ^5 x 0,8%)

 

Samkvæmt formúlunni deyja 129 þeirra sem hafa smitast eftir einn mánuð.

 

Bólusetningahlé geta leitt af sér nýjar stökkbreytingar

 

Föstudagur 22. janúar 2021

 

Skortur á bóluefni hefur orðið til þess í mörgum ríkjum að menn fylgja leiðbeiningum framleiðenda ekki alveg nákvæmlega og það gæti leitt af sér að nýjar og hættulegar stökkbreytingar á veirunni komi fram.

 

Þau bóluefni sem nú eru tiltæk á að gefa í tveimur skömmtum með þriggja vikna millibili en til að geta byrjað að bólusetja sem allra flesta velja heilbrigðisyfirvöld, t.d. í Bretlandi að nýta þá skammta sem berast þannig að sem flestir fái fyrri sprautuna.

 

Þegar allt bóluefnið er notað í fyrri sprautuna leiðir það til þess að enginn fái seinni sprautuna eftir þrjár vikur sem þó er forsenda þess að bóluefnið virki.

 

Þessi aðferðafræði getur reynst mjög hættuleg. Þeirrar skoðunar er t.d. veirufræðingurinn Paul Bieniasz hjá Rockefellerháskóla í BNA. Hann telur hálfbólusett fólk verða eins konar gangandi veiruverksmiðjur. Fólkið geti sjálft verið einkennalaust en þó veitt veirunni kjöraðstæður til að stökkbreytast í ný afbrigði sem núverandi bóluefni ráði ekki við.

 

Ótti veirufræðingsins fær stuðning í rannsókn sem læknar gerðu á sjúklingi með langvarandi – og á endanum banvæna – Covidsýkingu. Læknarnir sáu að veiran stökkbreyttist á ógnarhraða í sjúklingnum.

Vísindamenn: Vítamínskortur tengist alvarlegum veikindum

 

Fimmtudagur 14. janúar 2021

 

Í danskri rannsókn hefur komið í ljós að sjúklingar sem dóu úr Covid-19 höfðu í sér minna k-vítamín en aðrir. Þessi niðurstaða kemur í kjölfar svipaðrar hollenskrar rannsóknar sem benti í sömu átt í ágúst 2020.

 

Dönsku vísindamennirnir rannsökuðu 138 innlagða Covidsjúklinga og 140 heilbrigða sem samanburðarhóp. Niðurstöðurnar sýndu marktækt minna k-vítamín í sjúklingunum en í samanburðarhópnum. Þeir 43 sjúklingar sem að lokum dóu úr sjúkdómnum höfðu enn minna k-vítamín en aðrir.

 

Enn er óvíst hvers vegna samhengi finnst milli k-vítamíns og alvarleika Covid-19. Dönsku og hollensku læknarnir benda þó á að k-vítamín kunni að eiga þátt í að styrkja einhverjar af þeim trefjum sem veiran ræðst á í lungnavefnum.

 

Vísindamennirnir leggja áherslu á að óvíst sé hvort k-vítamínskortur var til staðar áður en sjúklingarnir veiktust eða hvort Covid-19 kynni að valda þessum skorti. Þeir hvetja því ekki til þess að fólk taki aukaskammta af k-vítamíni. Of mikið magn getur nefnilega verið skaðlegt.

 

K-vítamín er að finna í grænmeti, svo sem spínati, grænkáli, spergilkáli, klettasalati o.fl.

 

Danska rannsóknin hefur enn ekki verið ritrýnd.

9 af 10 lifa af: Stofnfrumur lækna alvarleg tilvik

 

Þriðjudagur 12. janúar 2021

 

Stofnfrumur úr naflastreng geta dregið úr hættunni á að deyja vegna laskaðrar öndunargetu meðal illa haldinna Covidsjúklinga.

 

Í lítilli tilraun með 24 veiklaða sjúklinga á tveimur sjúkrahúsum í Flórída tókst vísindamönnum frá Miamiháskóla að bjarga 91% af þessum sjúklingum með því að sprauta 200 milljón stofnfrumum í hvern og einn. Í samanburðarhópnum lifðu aðeins 43%.

 

Jafnframt voru þeir sjúklingar sem fengu stofnfrumur fljótari að ná sér en aðrir sem veiktust alvarlega af Covid.

 

Stofnfrumur úr naflastreng eru þekktar fyrir að draga úr bólgum og koma reglu á ónæmiskerfið. Vísindamennirnir telja að stofnfrumurnar hafi hindrað svonefndan cýtókínstorm í Covidsjúklingunum en það fyrirbrigði lýsir sér í því að ónæmiskerfið bregst allt of harkalega við með offramleiðslu hormóna.

 

Dr. Camillo Ricordi yfirmaður frumugræðslumiðstöðvar Miamiháskóla upplýsir að í einum naflastreng sé nóg af stofnfrumum til að meðhöndla 10.000 sjúklinga.

 

Næsta skref verður að útvíkka rannsóknina og skoða áhrifin á sjúklinga sem enn eru ekki hættulega veikir en eiga mjög alvarleg veikindi á hættu.

Pfizer og BioNtech-bóluefni virkar gegn enska afbrigðinu

 

Föstudagur 8. janúar 2021

 

Lyfjafyrirtækin Pfizer og BioNtech upplýsa að enska veiruafbrigðið N5O1Y valdi ekki vandræðum í tengslum við bóluefnið.

 

Afbrigðið hefur breiðst hratt út frá Bretlandi til Norðurlandanna og er allt að 70% meira smitandi en eldri afbrigði.

 

Bóluefnið hefur fengið bráðabirgðaviðurkenningu ESB og Reuters hafði eftirfarandi eftir einum yfirmanna Pfizer:

 

„Við höfum prófað 16 mismunandi stökkbreytt afbrigði og ekkert þeirra hefur marktæk áhrif á virkni bóluefnisins. Það eru góðar fréttir.“

 

Þetta slær þó ekki á áhyggjur manna af stökkbreytingu sem fannst í Suður-Afríku og kallast E484K sem nú þarf að rannsaka nánar með tilliti til virkni bóluefnisins.

Kopar drepur veiruna á einni mínútu

 

Miðvikudagur 6. janúar

 

Það þarf ekki annað en að snerta hurðarhún, handrið eða lyftuhnapp til að smitast af Covid-19. Á slíkum yfirborðsflötum sem margt fólk snertir daglega, getur veiran lifað í langan tíma og þetta getur t.d. valdið hópsýkingu á sjúkrahúsi eða elliheimili.

 

Þessari smitleið mætti þó loka með því að nota kopar í staðinn fyrir plast eða stál í handföng, höldur og hnappa. Ný rannsókn leiðir í ljós að kórónuveiran verður óvirk eftir eina mínútu á kopar en líftími hennar á plasti eða tré getur verið margar klukkustundir eða jafnvel margir dagar.

 

Sýklaeyðandi eiginleikar kopars, silfurs og gulls eru vel þekktir en það kemur á óvart að kopar skuli hafa svo afgerandi áhrif á einmitt kórónuveiruna. Uppgötvunin hefur tæpast neina afgerandi þýðingu varðandi faraldurinn sem nú gengur yfir en gæti haft áhrif á efnisval í framtíðarbyggingar og endurbætur á húsum.

(Visited 2.586 times, 1 visits today)

Pin It on Pinterest

Share This

Fá þér
áskrift?

Við erum með fullt blað af spennandi greinum einsog þeim sem þú ert búin/n að vera að lesa og meira til.