Falsfrétt: Nixon lýsir yfir sorg sinn eftir misheppnaða lendingu á tunglinu

Fyrir lendinguna á tunglinu 20. júlí 1969 var Nixon Bandaríkjaforseti búinn að undirbúa tvær ræður, allt eftir hver yrðu örlög lendingarfars Apollos 11., Neils Armstrong og Buzz Aldrin. Annarri ræðunni var sjónvarpað um allan heim. Hin – mistakaræðan – var hvorki birt né sýnd. Fyrr en núna.

Tækni

Lestími: 5 mínútur

„Viti maður ekki betur, er maður reiðubúinn að gleypa við mjög miklu – algerlega gagnrýnislaust.“

 

Sá sem segir þetta er Magnus Bjerg, sem unnið hefur að falsfréttamyndinni „In Event of Moon Disaster“, sem framleidd er hjá MIT, Massachusetts Institute of Technology.

 

Hópurinn sem stendur að gerð myndbandsins vill sýna „hvernig ný tækni getur sveigt, hliðrað og hjúpað veruleikann í kringum okkur og rannsakað áhrif altækra ranghverfinga og falsfréttatækni í samfélaginu“.

 

Í þessari sögufrægu ræðu útskýrir fyrrverandi Bandaríkjaforseti, Richard Nixon, hvernig fyrsta lending manna á tunglinu fór úrskeiðis. En myndir og hljóð eru fölsuð. Þetta sýnir hvers gervigreind er megnug. Og ræðan er þess vegna einnig fölsuð.

 

Spurningin er bara: Ertu fær um að sjá það?

 

Þanning má greina djúpfölsun

 

Djúpfalsaða Nixon-myndbandið byggist á gervigreind og svonefndri „deep learning“-tækni. Í sem stystu máli merkir þetta að tölva hefur greint andlitsdrætti og svipbreytingar leikara til fulls. Að því loknu er settur nýr munnur á andlit Nixons.

 

Í samvinnu við leiklesara tókst MIT-hópnum að skapa gerviræðu sem féll nákvæmlega að nýjum og stýrðum munnhreyfingum Nixons.

 

„Í okkar huga er tilgangurinn að sýna hvað þessi tækni er fær um, þannig að við getum byrjað að ræða viðbrögð okkar þegar við sjáum daginn fyrir kosningar myndband af stjórnmálamanni sem er t.d. að tala af megnri kynþáttafyrirlitningu. Við vitum nú þegar að ljósmyndir geta hafa farið í gegnum Photoshop. Nú er kominn tími til að búa okkur undir svipaða varkárni gagnvart lifandi myndum,“ segir Magnus Bjerg.

 

Hann telur að djúpfalsandir séu orðnar svo vel gerðar að erfitt geti verið að sjá í gegnum þær.

 

En sértu í vafa um hvort myndband kynni að vera djúpfalsað, geturðu beint athyglinni að útjöðrum andlitsins. Líta andlitsínurnar eðlega út? Er húðliturinn jafn? Hvernig hegða skuggar við kragann sér? Er blikið í augunum óeðliega dauft? Eru tennurnar undarlegar eða má kannski greina þar pixla?

Kölski leynist í litlum atriðum

 

Hollenska fyrirtækið Sensity hefur skapað algoritma sem fer yfir innihald djúpfalsana. Algoritminn hefur verið mataður á mörg þúsund klukkustunda myndefni, bæði sönnum og fölsuðum myndskeiðum, og hefur síðan það verkefni að finna muninn.

 

Að sögn Henrys Ajder, yfirmanns upplýsingaógna hjá Sensity, þarf að kafa alveg niður í minnstu smáatriði til að afhjúpa djúpfalsanir.

 

„Margar djúpfalsanir eru svo vel gerðar að mannsaugað greinir þær ekki og gallarnir eru þar af leiðandi á dílastiginu, sem sagt fólgnir í þeim „pixelum“ sem byggja myndina. Algoritminn okkar hefur verið þjálfaður til að finna díla sem ekki eiga heima í myndinni, litla hópa af dílum sem annaðhvort eru of ljósir eða of dökkir (í samanburði við umhverfið, ritstj.)“ segir Henry Ajder.

 

Í desember 2018 fann Sensity á netinu meira en 14.000 myndskeið, sem voru flokkuð sem djúpfalsanir.

 

Magnus Bjerg segir Sensity líka hafa skoðað „In Event of Moon Disaster“ niður í kjölinn. Og algoritma fyrirtækisins tókst að sýna fram á myndskeiðið væri djúpfölsun.

Andlitafölsun útbreidd

 

Tæknin hefur fram að þessu m.a. verið notuð í klámiðnaði og á pólitíska sviðinu, en hana má nota miklu víðar, segir Magnus Bjerg.

 

„Djúpfölsun getur sparað kvikmyndaiðnaðinum stórfé. Það hefur verið gerð kvikmynd þar sem James Dean (dáinn 1955) fór með hlutverk. Og í heimildamyndum er hægt að nota aðferðina til að veita fólki nafnleynd, eins og t.d. gilti um homma og lesbíur sem fram komu í úkraínsku heimildamyndinni ‚Welcome to Chechnya‘.“

 

Meðal almennings urðu djúpfalsanir fyrir alvöru þekktar 2017 þegar notandi á Reddit tók að hlaða upp klámfengnum myndskeiðum. Skömmu síðar gátu notendur þar fundið myndskeið þar sem andlitum þekktra söngkvenna á borðið Taylor Swift og Kate Perry hafði verið skeytt inn í klámmyndir.

 

Google og Facebook hafa varið háum fjárhæðum í að finna og fjarlægja slík myndbönd áður en þau nái að valda skaða.

 

Og af svipuðum ástæðum er Magnus Bjerg, ásamt öðrum í MIT-hópnum, tregur til að útskýra í smáatriðum hvernig Nixon-myndbandið var gert. En í samhenginu hefur hann þetta að segja:

 

„Við fundum fyrir stolti, en það var líka talsvert áfall að sjá hversu gott myndbandið varð. Það er þó viss huggun að þetta tók okkur heila þrjá mánuði. Það segir okkur að við höfum enn tíma til að bregðast við, þótt það verði á hinn bóginn sífellt fljótlegra og ódýrara að gera slík myndbönd – og þau verða líka æ betri.“

Ótrúlegt myndband með Obama

28.02.21
 
 
 
(Visited 990 times, 1 visits today)

Pin It on Pinterest

Share This

Fá þér
áskrift?

Við erum með fullt blað af spennandi greinum einsog þeim sem þú ert búin/n að vera að lesa og meira til.