Göng tengja Istanbúl saman

Tækni

Istanbúl í Tyrklandi er tvískipt borg. Bosporussund skiptir henni þannig að annar borgarhlutinn er í Evrópu en hinn í Asíu.

 

Nú eiga á hinn bóginn ný járnbrautargöng að skapa fljótvirka tengingu milli borgarhlutanna.

 

Alls verða jarðgöngin 11,2 km og gerð með þrennu móti. Boruð göng verða 9,8 km, botngöng undir sundinu sjálfu verða 1,4 km og við þetta bætist svo að á nokkrum stöðum þarf að grafa stutta gangnahluta.

 

Eitt erfiðasta verkefni verkfræðinganna verður að tengja saman boruðu göngin, sem verða sívalningslaga, og hin ferköntuðu botngöng.

 

Ef tímaáætlunin stenst, verður komið gat á milli Evrópu og Asíu á næsta ári og árið 2010 eiga fyrstu lestirnar að fara í gegn. Lestirnar eiga að fara undir Bosporussund á 100 km hraða og flytja alls 75.000 farþega á hverjum klukkutíma.

 

Alls er kostnaðurinn áætlaður 2,5 milljarðar evra.

 

Ástæðan fyrir þessum mikla kostnaði er sá að Istanbúl er á jarðskjálftasvæði og því þarf að gera mjög miklar öryggiskröfur.

 

Mest verða botngöngin á 56 metra dýpi en á svo miklu dýpi hafa botngöng ekki verið lögð fyrr. Botngöngin verða úr þykkri og sérstyrktri steinsteypu og grafin niður í djúpa rennu á botninum til að halda þeim alveg stöðugum.

 

Göngin eiga aukinheldur að liggja svo djúpt að vatnssósa botnlagið nái ekki niður að þeim. Þannig má komast hjá því að botnlagið skaði göngin þegar það fellur saman í jarðskjálfta.

 
 
(Visited 25 times, 1 visits today)

Tengdar Greinar

FULLUR AÐGANGUR AÐ VEFNUM Í 14 DAGA FYRIR 0 KRÓNUR

PRÓFAÐU 14 DAGA FYRIR 0 KRÓNUR