Svissneskir bora heimsins lengstu göng: 57 kílómetrar í gegn

Forðum daga tók það margar vikur fyrir Hannibal að komast með herfíla sína yfir Alpana. Eftir 10 ár, þegar Gotthard Basis-göngin verða opnuð umferð, munu hraðlestir flytja ferðalanga frá Zürich þvert í gegnum fjallgarðinn til Mílanó á einungis 2 klst. og 40 mínútum.

Göngin verða þau lengstu í heimi og þetta risavaxna verkefni kostar meira en 300 milljarði kr. Svissneskir láta þó kostnaðinn ekki vaxa sér í augum, enda mega Alparnir ekki verða flöskuhálsinn í komandi hraðtengingum milli evrópskra borga. Eins skapar skjótt vaxandi umferð flutningabíla mörg vandamál í Ölpunum. Langar bílalestir í t.d. Brenner-skarði reyna mjög á þolinmæði ferðalanga og mengunin frá umferðinni getur verið meiri en í milljónaborginni Vín. Í vetrarstillum má sjá mengunina leggjast eins og teppi yfir þrönga og fagra dalina.

Auk þess getur umferðarþunginn orðið algerlega óþolandi fyrir íbúana þar. Evrópusambandið áætlar að vöruflutningar um Alpana muni aukast um 75% fram til ársins 2010 og því vill Sviss flytja sem mest af umferðinni í rafknúnar hraðlestir, sem menga nær ekkert í samanburði við flutningabílana.

Teinar verða fyrir skriðuföllum

Gömlu Gotthard-járnbrautargöngin frá 1882 anna engan veginn þörfinni ef núverandi vöruflutningar aukast í 40 milljónir tonna á ári á næstu 15 árum. Jafnframt tekur ferðin gegnum gömlu göngin langan tíma, því nauðsynlegt er að láta aukalestir ýta á eftir flutningalestinni upp hin bröttu göng, sem eru í 1.200 metra hæð. Þá tálma skriðuföll oft ferðum lestarinnar. Gotthard Basis-göngin eru aðeins í 500 m hæð og þegar þau verða opnuð munu meira en 200 flutningalestir þjóta daglega í gegnum göngin. Það mun flýta stórlega fyrir flutningum um Alpana.

Nýju göngin hafa verið lengi í bígerð og fyrsta áætlunin var lögð fram þegar árið 1962. Þá var ráðgert að byggja tveggja spora göng með samhliða þjónustugöngum en árið 1995 var ákveðið að bora út tvö aðskilin göng með 40 metra fjarlægð á milli þeirra. Það var gert af öryggisástæðum því feiknarlegur þrýstingur getur myndast þegar lestirnar þjóta með 250 km/klst. Með þessu móti er engin hætta

á að þrýstibylgjan skaddi þá lest sem á móti kemur.

Með 325 metra millibili eru boruð þvergöng svo unnt sé að komast yfir í hin göngin ef slys á sér stað. Ef eldur skyldi koma upp í annari lestinni má mynda vægan yfirþrýsting á lofti í hinum göngunum svo reykur berist ekki yfir. Ennfremur eru boruð út fjölmörg útsogsrör í göngunum. Á tveimur stöðum í hinum 57 km löngu göngum eru neyðarstöðvar þar sem lestirnar geta skipt um spor þurfi þær að komast fram hjá slysstað. Og flytja má farþega burt. Önnur neyðarstöðin er í miðjum göngum 800 m undir vetraríþróttabænum Sedrun. Hin stöðin er sunnar þar sem löng hliðargöng liggja út úr fjallinu við bæinn Faido.

Göngin leidd hjá vandkvæðum

Göngin koma til með að liggja í mjúkri S-beygju í gegnum Alpana, en það stafar af jarðfræðilegum aðstæðum. Þannig er komist framhjá hæstu tindum sem og erfiðustu svæðum neðanjarðar, því þrátt fyrir að jarðfræðingar hafi rannsakað fjöllin nákvæmlega er aldrei hægt að öðlast vissu um aðstæður djúpt inni í fjöllunum. Alparnir eru fellingafjöll sem hafa myndast vegna þrýstings frá afrísku meginlandsplötunni. Við Aare og Gotthard hafa fjöllin þjappast saman og uppávið, en sunnar samanstanda fjöllin af mismunandi jarðlögum, sem hafa þrýst hvert inn í annað. Undir Aare og Gotthard er yngri gljúp og sprungin setlög að finna milli eldra bergs.

Bergið gljúpt eins og sykur

Fyrirfram var það einkum svæði um sex km norður af Faido sem var áhyggjuefni, en þar samanstendur bergið af dólómíti sem er laust í sér eins og sykur svo stundum má mylja það með fingrunum. Ekki er

hægt að bora eða sprengja göng í gegnum slík jarðlög og ef þessi lög næðu niður að fyrirhugaðri leið var öll gangnagerðin í uppnámi. Jarðlagarannsóknir veittu ekki afgerandi svar, og því þurftu Svisslendingar að bora fimm km löng göng frá fjallshlíðinni og þaðan voru fjögur tilraunagöng boruð niður í þessi vafasömu jarðlög. Sem betur fór kom í ljós að við tók fastara berg tvö hundruð metrum ofan við fyrirhugaða leið.

Við gangagerð á fyrri tíð mörkuðu jarðfræðingar leiðina á yfirborði fjallsins og eyddu mánuðum í að reikna út hvar göngin skyldu liggja. Í dag sjá GPS-gervitungl um þetta með nákvæmni sem nemur einum sentimetra, og tölvuhermilíkön reikna út leiðina í þrívídd.

Borunin hefst frá viðmiðunarpunktum sem ákvarðast við lóðningu, t.d. um hin 800 m djúpu lyftugöng við Sedrun. Þaðan er stefnan ákvörðuð með leysigeisla. Til að halda tímaáætlun er göngunum skipt upp í fimm hluta, hver þeirra með sinn bor sem ber stúlkunöfn eins og t.d. Heidi, Sissy og Þjónustustúlka. Það felst ætíð nokkur áhætta við gerð svo stórra ganga, en í dag er lögð mikil áhersla á allt öryggi, ólíkt því sem var þegar fyrstu járnbrautargöngin voru byggð á árunum 1871 – 1881. Þá fórust margir vegna hruns í göngunum og vatnsflaums, eða létu lífið af völdum lungnasjúkdómsins silikós sem stafar af innöndun á kvartsryki.

Í dag er rykið fjarlægt úr loftinu með kraftmikilli loftræstingu og því haldið niðri með því að sprauta vatni á mölina sem myndast við borunina. Silikós er því ekki lengur að óttast, en það eru aðrar hættur til staðar.

Jarðgas getur valdið sprengingum

Stærsta hættan er frá metangasi sem getur safnast fyrir í holrúmum og losnað við borunina eða jafnvel sprungið. Þegar metan blandast súrefni myndast eldfimt efni og einungis fjögur prósent af metangasi í andrúmsloftinu geta framkallað sprengingu. Loftræstingin þynnir magn metans í minna en eitt prósent og hvarvetna í göngunum eru staðsettir gasnemar sem tryggja að loftræstingin virki sem skyldi. Óhjákvæmilegt álag í vinnuumhverfinu er þó hitinn, því hitastigið stígur þess dýpra sem farið er undir yfirborð jarðar. Þar sem fjöllin yfir göngunum eru 2 km há, getur hitinn orðið allt að 45° C. Loftræstingin ein og sér nægir ekki til kælingar og því hefur verið komiið fyrir rörakerfi með köldu vatni, en með því móti næst hitinn niður undir 28 °C.

Ytra umhverfi skipar háann sess hvað umhverfisvernd varðar og þar er helsta vandamálið að flytja burt 13,3 milljón rúmmetra af möl úr göngunum. Þetta magn svarar til fimm Keopspýramída. Rökrétt lausn er að endurvinna mölina í steypu fyrir göngin en í fyrstu varð gerð hennar ekki af nægilegum gæðum til steypuvinnslu. Þess vegna hóf byggingarfyrirtækið AlpTransit Gotthard árið 1993 að þróa nýja gerð steypu í samvinnu við háskóla, rannsóknarstofnanir og steypuframleiðendur, og eftir fimm ára tilraunir tókst að nýta mölina í nothæfa steypu.

Umhverfisvæn bygging

Byggingarfyrirtækið reynir ennfremur að lágmarka ryk- og loftmengun sem stafar frá stórum byggingarsvæðum á yfirborði jarðar. Þannig eru flest farartæki búin ryksíum og steinn og möl er flutt frá fjöllunum á lokuðum færiböndum. Það efni sem ekki nýtist í steypuframleiðsluna er notað í varnargarða á bökkum Urivatns eða sem fyllingarefni í gamlar efnisnámur. Allt spillivatn er síðan hreinsað og kælt áður en það er leitt í nálæg fljót.

Gotthart Basisgöngin eru ekki ein um að tengja Evrópu saman. Norðar á leiðinni frá Zürich til Zug stendur yfir bygging Zimmerberg Basisganganna. Fyrsti hluti þeirra er þegar í notkun en frestað verður síðari hluta verkefnisins. Sunnar hefst bygging 15,4 km langra Cemeri Basisganga milli Camoremo og Vezia í ár, og verklok eru áætluð árið 2016.

Þegar öll göngin eru tilbúin tekur ferðin frá Zürich til Mílanó klukkustund skemmri tíma en í dag, sem mun án efa auka verslun og ferðalög þeirra tuttugu milljóna manna, sem að búa í nágrenni St.Gotthart. Engu að síður munu hinir tilkomumiklu Alpar verða enn stórkostlegir ásýndar um ókomna tíð.

Subtitle:
Alparnir í Sviss eru alsettir snæviþöktum tindum. Þess vegna er örðugt að byggja upp samgöngur þar, en nú eru verkfræðingar önnum kafnir við afar metnaðarfullt verkefni. Þegar hin svonefndu Gotthard Basisgöng verða opnuð árið 2015 verður unnt að aka þvert í gegnum Alpana á 250 km/klst.
Old ID:
346
208
(Visited 103 times, 1 visits today)

Pin It on Pinterest

Share This

Fá þér
áskrift?

Við erum með fullt blað af spennandi greinum einsog þeim sem þú ert búin/n að vera að lesa og meira til.