Náttúran

90 sekúndur til dómsdags: Viðbúin gegn hamförunum?

Kjarnorkustyrjöld. Tækniárás. Eða banvænn heimsfaraldur. Fjölgun yfirvofandi ógna hefur fært vísana á hinni svonefndu dómsdagsklukku ógnvænlega nálægt falli siðmenningarinnar. En veist þú hvernig á að bregðast við þegar hamfarirnar dynja yfir? Við drögum saman yfirlit.

BIRT: 20/11/2024

„Mannkynið er ekki nema einum misskilningi eða einni rangri niðurstöðu frá útrýmingu.“ Þannig komst aðalritari Sameinuðu þjóðanna, Antonio Guterres, að orði 2022 – og það hefur ekkert dregið úr hættunni síðan þá.

 

Það er fjölþjóðlegur hópur sérfræðinga sem stendur að svokallaðri dómsdagsklukku og að þeirra sögn hefur mannkynið aldrei fyrr staðið jafn tæpt gagnvart alheimshamförum sem gætu lagt tilvist okkar í rúst.

 

Verði slíkar hamfarir að veruleika gætum við skyndilega staðið frammi fyrir fullkominni óreiðu, án aðgangs að mat, hreinu vatni eða lyfjum.

 

Heimilin hefðu hvorki aðgang að rafmagni né upphitun – í þeim tilvikum sem fólk hefði ennþá húsaskjól.

 

En ef til vill þarftu samt ekki að óttast um líf þitt. Það er gerlegt að bjarga sér jafnvel við óhrjálegustu aðstæður. En til þess þarftu að undirbúa þig og vita hvað þú þarft að gera fyrst af öllu ef samfélagið hrynur í rúst.

 

Fyrirvarinn talinn í sekúndum

Eftir að kjarnorkusprengjum var varpað á Hirósíma og Nagasaki tóku nokkrir áhyggjufullir vísindamenn – m.a. eðlisfræðingarnir Albert Einstein og Robert Oppenheimer – sig til og lögðu grunninn að því sem þeir nefndu dómsdagsklukku.

 

Dómsdagsklukkan er sett í samræmi við þær ógnir sem steðja að mannkyninu. Því nær miðnætti sem vísarnir standa, þeim mun meiri er hættan á alheimshamförum og frá 2023 hafa vísarnir sýnt eina og hálfa mínútu til miðnættis.

 

Svo nálægt dómsdegi hefur mannkynið aldrei staðið frá því tekið var að nota þennan mælikvarða.

 

Staðsetning vísanna er stöðugt uppfærð. Það annast fjölþjóðlegur hópur sérfræðinga á sviði kjarnorkuvopna, loftslagsbreytinga og annarra mögulegra ógna og núgildandi mat byggjist einkum á fernum yfirvofandi ógnum.

Dómsdagsklukkan svonefnda var stofnsett stuttu eftir að kjarnorkusprengjurnar tvær lögðu japönsku borgirnar Hírósíma og Nagasaki í rústir.

Efst á listanum er hættan á kjarnorkustyrjöld, sem sérfræðingar segja stöðugt fara vaxandi.

 

Þar næst koma loftslagsbreytingarnar, sem árlega valda mikill eyðileggingu.

 

Síðan fylgir hættan á því að ný genatækni muni geta af sér lífefnavopn, t.d. veirur sem breiddust út um heiminn.

 

Til viðbótar meta menn svo hættuna sem stafar af sívaxandi notkun gervigreindar, m.a. í hernaðarlegum tilgangi.

 

Vísindamennirnir segja gerlegt að færa vísa dómsdagsklukkunnar aftar þannig yfirvofandi dómsdagur fjarlægist, en til þess þurfa stærstu þjóðir heims að vinna saman að því að draga úr hættunni.

 

En þangað til það gerist er full ástæða til að búa sig undir mögulegar hamfarir. Það felur m.a. í sér áætlun um hvað þú þarft að gera strax á fyrstu klukkutímunum.

 

Veðrið er óvinur þinn

Ímyndaðu þér að sprengjurnar falli. Kannski er það stórveldi sem gerir árásina, en það gæti líka verið galli sem kom upp í gervigreindarforriti. Hvort heldur sem er skaltu leita skjóls  – gjarnan niðri í kjallara eða allavega í traustri byggingu og sem fjærst gluggum og útveggjum.

 

Þegar árásinni lýkur er veröldin í rústum. Ekkert rafmagn, ekkert netsamband, ekkert farsímasamband. Samfélagið sem þú lagðir allt þitt traust á er nú hrunið og við tekur barátta þín við að lifa af.

Nú berast fréttir af róbótum, sem hafa öðlast meðvitund – og sex róbótafyrirtæki vara við því að nota sköpunarverk sín til að skaða aðra. En af hverju kemur þessi tilkynning – og ættum við að vera hrædd? Svarið er ekki einfalt.

Nú þarftu fyrir alvöru að þekkja undirstöðuþarfir líkamans. Þær eru ekki jafn áríðandi og þú þarft auðvitað að uppfylla þær mikilvægustu fyrst. Umfram allt þarftu að viðhalda líkamshitanum og svo norðarlega á hnettinum getur þurft að grípa strax til aðgerða.

 

Ofkæling er lífshættulegt ástand, sem myndast þegar líkamshitinn fer niður fyrir 35 gráður. Kuldinn hægir á lífefnaferlum og það getur m.a. valdið óreglulegum hjartslætti og dregið úr einbeitingarhæfni heilans.

Uppfylltu þarfirnar í réttri röð

Í neyðarástandi þarftu að uppfylla allar grunnþarfir líkamans, en það liggur mismikið á. Þú þarft þess vegna að byrja á því allra mikilvægasta.

1. Klukkutímar: Leitaðu skjóls fyrir veðrum og vindi

Þú losar hita með snertingu við kalt yfirborð, en líka í vindi eða við uppgufun vatns af blautum fötum. Falli líkamshitinn niður fyrir 35 gráðum geturðu dáið á nokkrum klukkutímum. Leitaðu því strax í skjól fyrir vindum og veðri.

2. Dagar: Skaffaðu orku fyrir líkama og heila

Eftir tvo daga án vatns og matar ertu ófær um að taka skynsamlegar ákvarðanir þar eð orkan fer nú í öndun og hjartslátt en heilinn verður útundan. Þú þarft því strax að tryggja þér mat og vatn.

3. Vikur: Forðastu sár og sjúkdóma

Jafnvel lítil skeina getur sýkst af völdum baktería eða sníkla og það gildir líka um meltingarfærin. Hugsaðu vel um líkamann og reyndu að sjá til þess að bakteríur leynist ekki í mat eða vatni.

Ofkæling þarf ekki endilega að stafa af köldu veðri. Bleyta og vindur geta líka haft þessi áhrif þótt ekki sé mjög kalt í veðri.

 

Fatnaður heldur á þér hita með því að halda hlýju loftlagi upp við húðina. Líkaminn hitar þetta loftlag og það hefur einangrandi verkun. Vindurinn getur blásið þessu loftlagi burtu og í rigningu getur vatn sest á húðina og dregið úr einangrunaráhrifunum.

 

Til varnar kulda þarftu sem sagt að klæða þig vel og leita skjóls fyrir regni og vindi. Best er að klæðast nærfötum sem drekka í sig raka og halda húðinni þurri, en hlýjum fötum utan yfir. Yst fata er rétt að klæðast vind- og vatnsþéttum flíkum. Ef þú vilt undirbúa þig strax, eru það sem sagt slík föt sem þú ættir að kaupa.

  • Minnislisti fyrir dómsdag: Föt. 
  • Rakadrægin nærföt
  • Hlý föt utan yfir
  • Vind- og vatnshelt yst

Þegar þú hefur tryggt þér hlýjan fatnað og þak yfir höfuðið er röðin komin að öðrum grunnþörfum; vatni og mat.

 

Vatnið er mikilvægast og ef þú hefur ekki nú þegar birgðir af hreinu vatni, þarftu að tryggja að það vatn sem þú kemst yfir sé laust við skaðlegar bakteríur. Það geturðu gert með því að sjóða vatnið á gasi eða prímus í eina mínútu.

  • Minnislisti fyrir dómsdag: Vatn
  • Mikið af hreinu vatni í flöskum og geymum – 4 lítrar á mann á dag.
  • Gashella og gasbrúsar og/eða prímus

Maturinn getur beðið dálítið lengur. Þú getur haldið nokkurn veginn fullri virkni fyrstu dagana án matar því líkaminn brennir aðgengilegum sykrum í vöðvum og lifur.

 

Síðan breytir líkaminn efnaskiptum sínum og fer að brenna líkamsfitu, sem vissulega uppfyllir næringarþörfina, en það dregur þó úr líkamsgetu og veldur þreytutilfinningu.

 

En þegar fitan er uppurin tekur líkaminn að ganga á prótínið í vöðvunum og það veiklar þig verulega. Þú þarft þess vegna helst að verða þér úti um mat eftir svo sem þrjá daga. Og þá skiptir máli hvers konar mat þú útvegar.

 

Hnetur eru betri en ber

Kolvetni, sem sagt sykur og sterkja, eru þau næringarefni sem líkaminn brennir helst. Slík efni er m.a. að finna í berjum, en þau eru helst aðgengileg síðsumars og á haustin. Það væri þó erfitt að lifa lengi á berjum.

 

Þau eru ekki tiltakanlega orkurík og þú þyrftir að borða um 4 kg á dag. Í þeim er líka sáralítið af prótíni og fitu, næringarefni sem bæði vöðvar og heili þurfa á að halda.

 

Prótín og fita fæst úr kjöti og fiski. Það er þess vegna góð hugmynd að byggja upp dálítinn lager af endingargóðum kjöt- og fiskafurðum, svo sem dósamat og harðfiski – eða eiga veiðistöng.

 

Prótín og fitu er líka að finna í hnetum. Í hverju grammi af hnetum eru 10 sinnum fleiri kaloríur, 20 sinnum meira prótín og 150 sinnum meiri fita en í hverju grammi af berjum.

  • Minnislisti fyrir dómsdag: Matur 
  • Dósamatur, einkum kjöt og fiskur
  • Lagar af hnetum og þurrkuðum ávöxtum
  • Endingargóður matur svo sem pasta og hrísgrjón

 

Hnetur eru kjarngóð fæða eftir dómsdag. Þær endast lengi og í þeim er mikið af kaloríum, prótínum og fitu.

Þegar lítið er til af fæðu, borgar sig að spara matinn. Það er mun betra að dreifa inntöku kaloríanna jafnt en að borða mikið í einu og ætla svo að svelta í nokkra daga.

 

Líkaminn hagar efnaskiptunum nefnilega í samræmi við magn fæðunnar og næringargildi. Með því að borða frekar litla skammta daglega nærðu þess vegna jafnari efnaskiptum og orkumagni.

 

Plöntur í stað lyfja

Þegar þú hefur orðið þér úti um næga fæðu og tryggt starfsemi heilans og vöðvanna, þarftu að huga að ónæmiskerfinu – vörnum líkamans gegn sýkingum.

 

Án læknishjálpar geta tiltölulega lítil sár og vægir sjúkdómar orðið mjög erfið viðureignar ef ónæmiskerfið er ekki í góðu ástandi.

 

Þú getur styrkt ónæmiskerfið með því að borða sem fjölbreyttastan mat og gott hreinlæti hefur líka sitt að segja.

 

Jafnvel öflugt ónæmiskerfi ver þig þó ekki gegn öllum sjúkdómum og það er því prýðileg hugmynd að byggja upp lager af margvíslegum lyfjum.

  • Minnislisti fyrir dómsdag: Lyf
  • Sótthreinsir fyrir sár
  • Verkjastillandi lyf
  • Lyf gegn iðrakveisu
  • Andhistamín gegn ofnæmisviðbrögðum
  • Fjölvítamín
  • Joðtöflur gegn geislavirkni

Að einhverju leyti getur líka verið mögulegt að rækta lækningajurtir eða nálgast þær úti í náttúrunni. Plöntur mynda mjög fjölbreyttar lífsameindir og margar þeirra hafa góð áhrif á ýmsa líkamsstarfsemi og lífefnaferli.

 

Allmargar lækningajurtir má rækta sem pottablóm og sumar þola útivist á skjólgóðum stað yfir sumarið. Mynta, sem sumsstaðar flokkast sem illgresi, hefur góð áhrif á meltinguna, en börkur af pílviði hefur verkjastillandi áhrif.

Þrjár plöntur geta bjargað lífi þínu

Þú getur þurft á lyfjajurtum að halda. Til allrar lukku er unnt að rækta þær sjálfur.

Ljónshali styrkir hjartað

Tegund: Ljónshali (Leonurus cardiaca). Áhrif: Stilkur, blöð og blóm innihalda m.a. flavonóíð sem hafa sannanleg áhrif á hraðan hjartslátt, háan blóðþrýsting og kvíðatengda hjartasjúkdóma. Notkun: Drekktu seyði af blómum og blöðum eða dragðu úr þeim olíu, t.d. með því að nota spritt.

Gullfífill vinnur gegn bakteríum

Tegund: Gullfífill eða morgunfrú (Calendula officinalis). Áhrif: Blómin innihalda karotinóíð, sem hafa virkni gegn bakteríum og veiru- og sveppasýkingum. Þau draga líka úr bólgum og flýta því að sár grói. Notkun: Dragðu olíu úr þurrkuðum blöðum, t.d. með því að nota spritt, og berðu á húð.

Lofnarblóm er kvíðastillandi

Tegund: Lofnarblóm Lavandula officinalis). Áhrif: Þessi vellyktandi jurt inniheldur rokgjarnar olíur, sem hafa róandi og kvíðastillandi áhrif og auðvelda líka svefn. Notkun: Borðaðu þurrkuð blóm eða dragðu úr þeim olíu, t.d. með eimingu.

Lofnarblóm, eða lavendel, hefur reynst hafa kvíðastillandi áhrif og við hamfaraaðstæður er fátt eðlilegra en kvíðaköst – í ástandi sem krefst stöðugrar baráttu til að lifa af, veldur stöðugri streitu og ótta og jafnvel örvæntingu.

 

Það eru einmitt hin sálrænu áhrif, svo sem einmanaleiki og þunglyndi, sem geta orðið alvarlegasta ógnin eftir skelfilegar hamfarir og stundum riðið fólki að fullu, jafnvel þótt því hafi tekist að uppfyllta allra nauðsynlegustu grunnþarfir.

 

Meðan þú bíður eftir að dómsdagsklukkan slái tólf, gæti borgað sig að verða sér úti um lækningajurtir til að rækta í stofugluggunum. Það gæti slegið á kvíðann og skapað þér það hugrekki sem þarf til að lifa af í heimi, þar sem dauðinn gæti beðið þín við hvert fótmál.

HÖFUNDUR: Gorm Palmgren

© Pictures from History/Getty Images/George R. Caron,© Lotte Fredslund & Midjourney,© Lotte Fredslund & Shutterstock,© Kolesnyk Artem/Shutterstock

Náttúran

Bakteríur örva ilminn af sumarregni

Náttúran

6 atriði sem þú ættir að vita um skeggskottu: Gráðugur ættingi silfurskottunnar gæti brátt hertekið heimili þitt

Tækni

Lúxus eftir dómsdag: Lítum á skýli milljarðamæringanna

Menning og saga

Indiana Jones raunveruleikans leitaði að sáttmálsörkinni

Náttúran

Átvögl sjávarins geta kælt loftslagið

Lifandi Saga

Í bók frá miðöldum leyndist óþekkt portrett af Michelangelo

Tækni

Edison gegn Tesla: Meistarar rafmagnsins hötuðust

Maðurinn

7 magnaðar staðreyndir um augu þín

Tækni

Minnislisti nördanna: Búnaður

Tækni

Nú fá róbótar siðferðilegan áttavita

Heilsa

Ný tækni vekur latar sáðfrumur

Jörðin

Glóandi sprengingar skapa hljóðhöggbylgjur

ÁSKRIFT AÐ VÍSINDI.IS

Prófaðu í 14 daga ókeypis!

  • Fullur aðgangur að vefnum okkar með rúmlega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Lifandi vísindi/Lifandi saga í rafrænni útgáfu á vefnum,
  • Aðeins 1.790 krónur á mánuði.
  • Engin skuldbinding – Þú getur hætt hvenær sem er.

ÁSKRIFT AÐ TÍMARITINU

Þrjú tölublöð + gjöf: Skemmtilegur sjónauki
  • Þrjú næstu tölublöð Lifandi vísinda/Lifandi sögu – sent heim til þín – eins færðu lítinn og vandaðan sjónauka að gjöf.
  • Fullur aðgangur að vefnum okkar – visindi.is – með tæplega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Spennandi greinar og flottar myndir sem svala forvitni þinni.
  • Þú getur hætt eftir tilboðið en ef þú heldur áfram skuldbindur þú þig aðeins þrjú tölublöð í einu og þú getur sagt upp hvenær sem sem og klárar þá tímabilið sem er hafið.
  • Venjuleg áskrift – þrjú tölublöð – kostar aðeins 7.590 kr

Sjónauki og þriggja blaða áskrift – Alls 3.800 kr.

Lifandi vísindi

Lyf

Lifandi saga

Search

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Innskráning

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Viltu lesa greinina?

Fáðu aðgang að visindi.is

Ókeypis í 2 vikur!

Eftir það kostar eingöngu 1.790 kr. á mánuði og enginn uppsagnarfrestur.

Innifalið er aðgangur að öllum greinum á vefnum ásamt rafræna útgáfu af nýjustu tölublöðunum.

  • Fullur aðgangur að visindi.is
  • Frábærar myndir og myndbönd
  • Aðgengilegt í öllum snjalltækjum
  • Fullur aðgangur að gríðarlegu magni eldri greina
  • Nýjustu tölublöðin í rafrænu formi

Núverandi áskrifendur að tímaritinu fá að sjálfsögðu ókeypis aðgang að vefnum og þurfa bara að virkja aðgang sinn hér.

Ef þú ert þegar áskrifandi að visindi.is