Hunangsflugur hafa átt á brattann að sækja síðustu hálfa öldina og þeim hefur fækkað um allan heim.
Síðustu tíu árin hafa verið tíðar frásagnir býflugnabænda um aukna dánartíðni flugnanna í búum.
Nú sýnir ný rannsóknarskýrsla frá Marylandháskóla í BNA að ævilengd býflugna hafi styst um 50% síðan á áttunda áratug 20. aldar.
Vandamál í erfðum
Flestar fyrri rannsóknir hafa beinst að umhverfisþáttum á borð við sníkjudýr, skordýraeitur, sjúkdóm eða möguleika til fæðuöflunar. Vísindamennirnir hjá Marylandháskóla einsettu sér hins vegar að rannsaka hve lengi býflugurnar gætu lifað við kjöraðstæður á rannsóknastofu.
Þeir söfnuðu saman púpum vinnubýflugna, yngri en 24 tíma, til að athuga hve lengi þær lifðu án utanaðkomandi áhrifa.
Býflugunum var komið fyrir í sérbyggðum skýlum og þær fóðraðar á mismunandi vatni, svo sem kranavatni, steinefnasnauðu vatni og sykurvatni. En vatnsgerðin reyndist ekki hafa áhrif á aldur flugnanna.
Vísindamönnunum kom á óvart að flugurnar skyldu ekki lifa lengur eða a.m.k. jafn lengi og í rannsókn sem gerð var upp úr aldamótum.
Í þessum plastkrukkum höfðu vísindamennirnir vinnubýin. Þeir gáfu flugunum mismunandi næringu til að sjá hvort það hefði áhrif á ævilengd. Það kom á óvart að svo skyldi ekki vera.
Helmingslíkur
Hópurinn leitaði nú lengra aftur í tímann og fann sambærilega rannsókn sem hófst 1969. Á þeim grundvelli varð niðurstaðan sú að ævilengd býflugnanna hefði styst um helming.
Rannsóknir sem náðu fram eftir áttunda áratugnum sýndu að meðalævilengdin var þá 34,4 dagar en nú er hún komin niður í 17,7 daga.
En ef fæða og umhverfi hefur ekki áhrif, hver er ástæðan þá?
Vegna þess að býflugurnar voru teknar á púpuskeiði gátu þeir útilokað utanaðkomandi áhrif á borð við skordýraeitur og fæðuskort. Ástæðunnar hlaut að vera að leita í einhverju sem gerðist áður en púpurnar voru teknar.
Þar eð ævilengdin ræðst ekki af umhverfisáhrifum, telja vísindamennirnir að ástæðuna sé að finna í erfðamenginu.
Þótt rannsókn vísindamannanna færi fram í lokuðu rými, koma niðurstöðurnar ágætlega heim og saman við frásagnir býflugnabænda í Bandaríkjunum sem segja 30-40% afföll af býflugnabúum sínum á síðustu 14 árum.
Grafið hér sýnir hvernig meðallíftími hunangsbýflugna hefur helmingast frá því á áttunda áratugnum í Bandaríkjunum. Stærð loftbólnanna gefur til kynna hversu stór stofn býflugnanna hefur verið í einstökum tilraunum.
Vísindamennirnir telja erfðaáhrifin stafa af því að býflugnabændur skipti flugum sínum út hraðar en áður.
Það er eðlilegt að þeir sem rækta býflugur taki inn nýjan stofn þegar gömlu flugurnar eldast og deyja en þetta gerist æ örar á seinni tímum í samhengi við það að flugurnar ná ekki sama aldri og fyrr.
Þannig virðist sem býflugnabændur hafi sjálfir komið af stað vítahring.
Breytingar í erfðamengi stafa af því að býflugum er skipt út heldur fyrr en þyrfti og ræktendur skipta þeim út oftar vegna þess að ævilengdin styttist.
Meiri rannsóknir eiga nú að skera úr um hvort þessarar tilhneigingar gæti jafnt um allan heim og hvort í rauninni sé unnt að tengja erfðabreytingar við tíðari skipti.