Þótt karlar sýni mun meiri áhættuhegðun í akstri en konur og lendi mun oftar í bílslysum, eru konur í talsvert meiri hættu í umferðinni.
Rannsóknir sýna að kona á 73% fremur á hættu að slasast alvarlega í bílslysi en karl og dánarlíkurnar eru 17% meiri. Það er líka tvöfalt líklegra að kona festist í bílflaki en karl.
Þessi dapurlega tölfræði skapast að stórum hluta af því að bílar eru hannaðir fyrir karlmenn. Jafnvel þótt nýrri bílar séu mun öruggari en eldri gerðir, þarf enn að gera verulegar úrbætur.
Sænsk rannsókn sýndi t.d. að konur eiga mun fremur á hættu að fá hálshnykk – þegar höfuðið kastast aftur á bak og áfram af miklu afli – vegna þess að bílsætið er gert fyrir meiri líkamsþyngd.
Sætisbök eru iðulega stíf og það skapar einskonar trampólínáhrif við harðan árekstur. Þar eð konur eru almennt léttari en karlar eiga þær á hættu meiri hraðaaukningu þegar líkaminn kastast fram á við.
Vísindamennirnir segja að konur væru betur varðar með mýkra og sveigjanlegra sætisbaki sem myndi bæði draga úr hraðaaukningunni og hættunni á hálshnykk.
Sjálf líkamsstellingin er konum líka óhagfelld. Þær eru yfirleitt lágvaxnari og færa sætið því nær stýrinu sem eykur líkur á sköddun við árekstur.
Bílar eru hannaðir fyrir karla
Konur eru í meiri hættu við árekstur því bílar eru miðaðir við líkamsbyggingu karlmanna.

1. Léttavigt eykur hættu á hálshnykk
Sætisbök eru yfirleitt stíf og gerð fyrir meiri þyngd. Það eykur hættuna á því að konur sem eru léttari, kastist harkalega fram og fái hálshnykk.

2. Sætisstaða kvenna er mun lakari
Konur eru almennt lágvaxnari og þurfa að hafa sætið framarlega til að ná að stíga á pedalana. Þessi líkamsstaða eykur hættu á innri blæðingum og alvarlegri sköddun við árekstur.

3. Prufubrúður líkjast körlum
Þegar bílaframleiðendur prófa öryggi bílbelta, hnakkapúða og loftpúða, nota þeir tilraunabrúður sem líkjast fremur körlum, bæði varðandi hæð, þyngd og líkamsbyggingu.