Bandaríska flotastöðin við Guantanamoflóa á Kúbu er arfleifð frá spænsk-bandaríska stríðinu 1898.
Eftir stríðið yfirtóku Bandaríkin ýmsar spænskar nýlendur, þar á meðal Kúbu.
Bandaríkjamenn settu það svo sem skilyrði fyrir því að flytja her sinn frá Kúbu, að þeir fengju á leigu 116 ferkílómetra svæði við Guantanamoflóa.
Kúbverjar sættu sig við þetta undir mikilli pressu og árið 1901 var gengið frá samningi sem gaf Bandaríkjunum lögsögu yfir svæðinu um ótiltekinn tíma.
Æ síðan hafa Bandaríkjamenn sent ávísun fyrir lágri leiguupphæð til Kúbu.
Ávísunin hefur þá aðeins einu sinni verið innleyst eftir byltinguna á Kúbu árið 1959.
Fidel Castro sem þá varð forseti Kúbu, sagði fyrstu ávísunina eftir byltinguna hafa verið innleysta fyrir mannleg mistök.
Þótt Kúbverjar hafi hvað eftir annað reynt að ógilda samninginn frá 1901, halda Bandaríkjamenn fast við að viðtaka ávísananna fram að þeim tíma jafngildi viðurkenningu á yfirráðum Bandaríkjanna á svæðinu.
Kúbverjar segja aftur á móti að samningurinn hafi í upphafi verið nauðungarsamningur og sé þar af leiðandi ógildur.
Síðan 2002 hafa Bandaríkjamenn notað flotastöðina í Guantanamo sem fangabúðir fyrir sérstaka fanga, einkum stríðsfanga úr stríðinu í Afganistan.