Þegar við sofum er líkaminn í hvíld og taugavirkni í heilanum í lágmarki, m.a. í heilastöðvum sem stýra tali eða hreyfingum.
Það slokknar þó aldrei alveg á heilanum og þess vegna kemur fyrir að líkamsstarfsemi verði virk, þannig að við t.d. tölum upp úr svefni, eða tökum okkur jafnvel til og göngum um.
Meira en 66% fólks segist einhvern tíma hafa talað upp úr svefni og um 6% gera það a.m.k. einu sinni í viku.
Ástæðuna þekkja vísindamenn ekki með neinni vissu en grunur beinist að oförvun taugafrumna ásamt úrvinnslu heilans á minni og máli.
Börn tala mikið upp úr svefni
Það er útbreidd skoðun að fjörlegar draumfarir leiði til þess að fólk tali upphátt. Staðreyndin er þó sú að fólk talar helst í djúpum svefni en ekki á REM-stiginu þegar draumar eru algengastir.
Eftir tilraun á 29 manns sem töluðu upp úr svefni og 30 sem ekki gerðu það, varð niðurstaðan sú að ákafar draumfarir auki ekki á tal fólks í svefni.
Rannsóknin leiddi hins vegar í ljós að tal upp úr svefni tengdist brotakenndum svefnlotum. Slæm svefngæði gætu þess vegna verið mikilvæg ástæða þess að sumt fólk talar mikið upp úr svefni.
Börn hafa mun meiri tilhneigingu til að tala upp úr svefni en fullorðnir. Hjá samtökunum American Academy of Sleep Medicine er talið að um helmingur barna tali iðulega upp úr svefni en það eldist af þeim.