Það getur vissulega verið hráslagalegt úti við sjóinn, en búsetu þar fylgja líka fjölmargir kostir.
Margir þeirra eiga sér þó sálfræðilegar rætur.
T.d. bendir ýmislegt til að við kjósum helst búsetu þar sem víðsýnt er og langt að sjóndeildarhring.
Vatn og ekki síst margvísleg vatnshljóð hafa róandi áhrif og vatn gefur í senn til kynna óbreytanleika og stöðuga tilbreytni. Oft er bjartara úti við sjóinn og í vatni myndast margvíslegar speglanir. Þetta hefur líka aðdráttarafl.
Sumir sálfræðingar og mannfræðingar telja að áhuga okkar á ströndinni megi skýra með því að fjarlægir forfeður hafi sest að við stöðuvötn eða höf þar sem bæði var mat að fá og auðvelt að sjá til hugsanlegra óvina.