Stundaðar hafa verið viðamiklar rannsóknir á sviði Alzheimer-sjúkdómsins í áraraðir án þess að fundist hafi leið til að hefta eða lækna sjúkdóminn.
Einblínt hefur verið á þekktu Alzheimer-ummerkin, svo sem bólgu og uppsöfnun próteina (amýlóíð og tau), án þess að tekist hafi að skýra hvað veldur breytingum þessum.
Þessu er hugsanlegt að vísindamenn við Arizona-ríkisháskólann eigi eftir að breyta. Þeir hafa nefnilega rekist á fyrirbæri sem kann að vera orsök sameindaóreiðunnar sem leiðir af sér þær þúsundir genabreytinga sem vart verður í tengslum við Alzheimer og aðra taugahrörnunarsjúkdóma.
Tortímandi álagskorn
Á sama hátt og skyndilegt rafmagnsleysi getur slökkt á ýmsum mikilvægum kerfum í heilum bæjarhluta, verður hrun hjá Alzheimer-sjúklingum í því flutningakerfi sem að öllu jöfnu sér um boðefnaskipti á milli heilafrumna, svo og mikilvægar aðgerðir í sjálfum frumunum.
Ástæðu þessa hruns telja vísindamennirnir vera fólgna í tilteknum álagskornum (SGs), sem myndast í frumum sem viðbragð við álagsáhrifum. Álagskorn eiga þátt í að gera frumunum kleift að verja sig og laga sig að umhverfinu og þau hverfa að öllu jöfnu aftur. Þegar um er að ræða Alzheimer hverfa kornin raunar ekki og hafa skaðleg áhrif á ýmiss konar frumustarfsemi.
Bættir lækningamöguleikar
„Kenning okkar snýst um samskiptahrunið sem verður milli frumukjarnans og umfrymisins, sem leitt getur af sér óheyrilegar truflanir í genatjáningunni. Þetta kann að gefa trúverðuga skýringu á því samspili sem stjórnar þessum flókna sjúkdómi. Með því að fylgjast með fyrstu stigum sjúkdómsins gætum við komið auga á nýjar aðferðir við að sjúkdómsgreina, meðhöndla og fyrirbyggja sjúkdóminn á fyrstu stigum hans“, segir forsvarsmaður rannsóknarinnar, prófessor Paul Coleman við Arizona-ríkisháskólann, í fréttatilkynningu.
Hópur vísindamanna frá Bandaríkjunum hefur fundið út hvaða matvæli þú ættir að forðast ef þú vilt draga úr hættu á að fá heilabilun. Þeir benda einnig á góða valkosti sem draga úr áhættunni.
Hann og starfsbræður hans hafa rannsakað ógrynni Alzheimer-gagna til að freista þess að komast að raun um hvernig sjúkdómurinn hegðar sér.
Kenning vísindamannanna er sú að það séu álagskorn sem leysi m.a. úr læðingi taugabólgu og uppsöfnun skaðlegra próteina í líkingu við tau og amýlóíð. Álagskorn geta myndast margra ólíka hluta vegna, svo sem af völdum kemískra efna, sýkinga og næringarefnaskorts, svo og vegna súrefnisskorts og oxunarstreitu.
Vegna þess að þetta tiltekna frumuálag, svo og álagskornin sem það framkallar, gerir vart við sig löngu áður en fyrstu ummerkin um Alzheimer koma fram, binda vísindamennirnir vonir við að þeim takist að vinna bug á sjúkdóminum á fyrstu stigum hans.