Snekkjur, hvíthávar, búrhvalir.
Listinn yfir óvænt fórnarlömb háhyrninga lengist með hverju árinu.
Og nú hefur rannsóknarhópur bætt öðru dýri á listann yfir mögulegar máltíðir þessara helstu rándýra hafsins.
Í sex ár hafa mexíkóskir og bandarískir sjávarlíffræðingar fylgst með hópi háhyrninga í suðurhluta Kaliforníuflóa.
Þar hafa þeir, með hjálp almennings, fylgst fjórum sinnum með hvölum drepa stærsta fiskinn í sjónum – hvalháfinn.
Háfurinn sem lifir á svifi og smáfiskum getur orðið allt að 18 metrar að lengd og er því nokkru stærri en hinn sex til átta metra langi og allt að sex tonna þungi háhyrningur.
Háhyrningar snéru risanum við
Til þess að drepa stærri dýr veiða háhyrningarnir í hópum og nota alveg einstaka tækni sem vísindamenn hafa ekki séð áður.
Þeir rákust harkalega inn í hliðar hins varnarlausa risa og lömuðu hann í stutta stund.
Þeir snéru svo hákarlinum við svo hann gæti ekki synt í burtu og drápu hann síðan.

Myndin er af einu af fjórum tilvikum þar sem háhyrningar drápu hvalháf. Hér hafa háhyrningarnir snúið hákarlinum við svo þeir geti ráðist á mjúkt kviðsvæði dýrsins.
Háyrningarnir réðust að mjúku kviðsvæði hvalháfsins og eftir fjölda árása blæddi stóra fiskinum út.
„Við sýnum hvernig háhyrningar vinna saman við veiðar á hvalháfum, sem einkennist af því að beina árásunum að kviðsvæðinu sem gerir það að verkum að hvalháfnum blæðir út. Háhyrningarnir geta svo gætt sér í ró og næði á fituríkri lifur fisksins,“ útskýrir einn vísindamannanna að baki þessarar nýju rannsóknar, Erick Higuera Rivas, í fréttatilkynningu.
Hvalháfurinn er með færri vöðva og minni vef á neðri hlið líkamans, þannig að háhyrningarnir eiga auðveldara með að komast í fitu og próteinríka lifrina hér.
Vísindamennirnir halda því fram að veiðitækni háhyrninga á stórum dýrum virðist hafa verið betrumbætt og þróuð í í gegn um nokkrar kynslóðir.
Það er ekki algengt að sjá háhyrning éta stærsta dýr í heimi. Reyndar hefur það aldrei sést – fyrr en nú.
Í þremur af fjórum árásum háhyrninga á hvalháfa var tarfur að nafni Moctezuma hluti veiðihópsins.
„Moctezuma gæti hafa lært þennan hæfileika af forystudýri hjarðarinnar í æsku,“ telur aðalhöfundur rannsóknarinnar, Dr. Francesca Pancaldi frá Polytechnic Institute of Mexico.
Til eru myndskeið sem sýna háhyrninga drepa hvítháfa til að éta lifrina og telja vísindamenn að það sama eigi við um veiðar þeirra á hvalháfum.