Skrifað af Alheimurinn Geimferðir og geimrannsóknir

Hópferðir út í geim

Nyrst í Svíþjóð, 145 km norðan við heimskautsbauginn, er að finna bæinn Kiruna sem er einna þekktastur fyrir járnnámur sínar. En brátt mun hróður Kiruna aukast. Það er nefnilega fyrirhugað að byggja fyrsta geimflugvöll Svíþjóðar þar. Hann á að heita Spaceport Sweden og verður einn af þeim brottfararstöðum sem fyrirtækið Virgin Galatics hyggst nota fyrir geimferðamennsku sína. Geimferðalangar sem halda frá Spaceport Sweden munu geta flogið beint upp í norðurljósin og sjá hvernig gulir, rauðir og bláir vafurlogar umlykja geimskipið á alla vegu. Meira að segja fyrir verð sem er brátt aðgengilegt venjulegu fólki. Nýtt tímaskeið er þá hafið í geimferðamennsku.

Flest bendir til að Virgin Galatic verði fyrsta fyrirtækið sem getur boðið ferðamönnum út í geiminn. Þetta má þakka hinum litríka Sir Richard Branson, sem kom Virgin Galatic á laggirnar, enda hafði ævintýramaðurinn Branson bæði auðæfi og hugmyndaflug til að hefjast handa við slíkt stórvirki.

Grunnurinn að Virgin Galatic var lagður árið 2004 þegar hinn víðfrægi flugvélahönnuður Burt Rutan vann hin eftirsóttu Ansari X-verðlaun, sem námu 10 milljón dölum. Til að vinna þessi verðlaun þurfti að senda mannað geimskip í minnst 100 km hæð og endurtaka flugið innan tveggja vikna. Burt Rutan hafði hugmyndirnar og tæknina en það dugði vart til ef ekki væri fyrir hinn stórauðuga stofnanda Microsoft, Paul Allen, sem veitti umtalsverðu fé til að byggja fyrsta geimskipið, SpaceShip One. Burt Rutan hafði varla tekið við verðlaununum þegar Branson sneri sér til hans með þá hugmynd að Rutan skildi byggja fyrsta geimfarið fyrir Virgin Galatic. Hér tekur sagan nokkuð undarlegan snúning. SpaceShip One gat borið einn flugmann og tvo farþega og var þannig tilbúið þegar árið 2004. En Branson og fyrirtæki hans hafði lagst í markaðskannanir sem sýndu að geimferðamenn létu sér ekki nægja að sitja niður spenntir alla ferðina. Flestir vildu þeir upplifa þyngdarleysi.

Þetta fól í sér að nauðsynlegt var að byggja bæði stærri þotu og geimfar. Niðurstaðan var SpaceShip Two sem tekur sex farþega og tvo flugmenn, ásamt þotunni White Knight Two. Hinn stórhuga Branson vildi þegar fá fimm geimskip og það hækkaði stofnkostnaðinn í milli 250 og 350 milljón dali – umtalsverð upphæð fyrir jafnvel hinn moldríka Richard Branson.
Enginn vafi leikur á að metnaðurinn hefur borgað sig. Því nú þegar hefur Branson selt meira en 300 miða og fengið yfir 40 milljón dali í fyrirframgreiðslu – og það þrátt fyrir að fyrstu geimferðamennirnir þurfi hver að borga 200.000 dali. Fyrstu ferðirnar verða farnar frá Mojave-eyðimörkinni í Kaliforníu þar sem fyrirtæki Burt Rutans, Scaled Composite sem hefur smíðað geimfarið, er til húsa.

Þessu næst verða geimskotin frá nýjum geimflugvelli í Nýju-Mexíkó er nefnist Spaceport America. Fyrsta skóflustungan að honum var tekin í júní 2009 og reiknað er með að fyrstu geimferðamennirnir verði sendir þaðan á næsta ári. Þá munu að líkindum líða nokkur ár áður en Spaceport Sweden í Kiruna verður tekið í notkun. Reynsluflugferðir með White Knight Two eru þegar hafnar sem og flug með SpaceShip Two.

Út í geim með 4.000 km/klst.

Ferðin út í geim hefst nánast eins og venjuleg flugferð. Farþegarnir sex halda um borð í geimskipið SpaceShip Two sem hangir undir hinni stóru þotu White Knight Two. Hún tekst á loft frá venjulegri flugbraut og flytur litla geimskipið upp í 15 km hæð. Þar virðist himinninn þegar orðinn dimmari og menn greina sveigju jarðar. Þá er SpaceShip Two sleppt og fáeinum sekúndum síðar er eldflaugamótorinn ræstur.

Á 90 sekúndum eykst hraðinn í meira en þrefaldan hraða hljóðsins – rétt undir 4.000 km/klst. Þessu finna menn fyrir. Farþegarnir koma til með að verða 3 – 4 sinnum þyngri en venjulega. Þegar slökkt er á eldflauginni er geimskipið í 90 km hæð og himinninn kolsvartur. Út um gluggann er sveigja jarðar greinileg og lofthjúpurinn aðeins lítil blá ræma meðfram sjóndeildarhringnum. Nú upplifa farþegarnir þyngdarleysi og geta svifið um í farþegarýminu. Þeir mega nú losa sætisólarnar og geta í 4 – 5 mínútur svifið um í 110 km hæð og notið útsýnisins gegnum marga og stóra glugga. Hæðin er svo mikil að skýin líkjast snjó á jörðu. Eftir stutta stund heyrist hljóðmerki og geimferðamennirnir hafa nú 40 sekúndur til að koma sér fyrir í sætunum og spenna sig fasta. Gríðarstórir vængir geimskipsins eru nú reistir lóðrétt til þess að draga úr ferð þess.

Þyngdaraukningin verður greinileg og lóðréttir vængirnir veita mikla hemlun þegar í mikilli hæð. Fyrst þegar litla geimfarið er komið drjúga leið inn í þéttan lofthjúp jarðar eru vængirnir lagðir niður og geimfarið svífur heimleiðis drjúgum hálftíma eftir geimskotið.

Geimskipin halda á loft einu sinni á dag

Til þess að ná sem mestu öryggi þarf að framkvæma minnst 20 reynsluflug með SpaceShip Two, áður en fyrstu farþegarnir fá leyfi til að halda um borð. Í öllum ferðum er sex manna starfslið. Tveir flugmannanna sitja í farþegarýminu og fylgja farþegunum alla ferðina. Aðrir tveir stjórna þotunni sem flytur geimfarið upp í 15 km hæð. Enn einn flugmaður fylgist með í leiðsagnarflugvél og síðasti flugmaðurinn situr í stjórnstöð á jörðu og fylgist þar með öllu sem fram fer.

Þessir flugmenn eru í sannkölluðu draumastarfi. Eftir 27 mánaða undirbúning geta flugmenn Virgin Galatic reiknað með að fljúga kannski einu sinni í viku og til lengri tíma litið einu sinni á dag. Markmið Virgin er nefnilega að halda frá vikulegu flugi í daglega brottför þegar allt er komið í gang. Fyrstu flugmennirnir hafa þegar verið ráðnir og allir störfuðu þeir áður hjá flugfélagi Virgin, Virgin Atlantic.

Tvær tæknilegar nýjungar greina þetta geimfar frá fyrri hugmyndum. Önnur er afar stórir vængir sem má reisa lóðrétt. Þeir verða til að flugfarið fellur í gegnum efsta lag lofthjúpsins nánast eins og fjaðrabolti. Vegna lóðréttrar stillingarinnar veita vængirnir mikla loftmótstöðu í efsta þunna lofthjúpslaginu og því má draga mikið úr ferðinni áður en flugfarið verður alltof heitt vegna núningsmótstöðu neðar í lofthjúpnum.

Hin nýjungin er að hluta leynilegt nýtt eldsneyti. Þetta er sérstök blanda af köfnunarefnisildi með föstu eldsneyti. Það veitir kost á að stýra skilvirkar bruna á fasta eldsneytinu. Fast eldsneyti hefur þann kost að það er auðvelt í meðförum. Yfirleitt inniheldur fasta eldsneytið einnig sjálft ildisblöndu. En það hefur þann mikla ókost að ekki er hægt að slökkva á eldflaug knúinni föstu eldsneyti eftir að mótorinn er ræstur.

Geimför verða aldrei 100% örugg

Í farþegaflugi eru slys afar fátíð. En jafnvel í bestu eldflaugum sem við höfum nú til ráðstöfunar er öryggið aðeins lítillega yfir 98%. Fyrir geimfara tilheyrir sú áhætta starfinu, en sú getur ekki verið raunin með geimferðamenn. Því er ljóst að Virgin Galatic gerir allt sem í þeirra valdi stendur til að auka öryggið. En jafnvel þá er ekki hægt að útiloka óhapp. Eitt slíkt átti sér stað í júlí 2007 í Mojave-eyðimörkinni þegar menn voru að reyna eldsneyti á mótora SpaceShip Two. Eldflaugamótorinn var ekki einu sinni í gangi, en engu að síður sprakk þrýstitankur með eldsneytinu og varð þremur mönnum að bana og slasaði aðra þrjá. Við lá að Mojave-flugvöllurinn missti starfsleyfi sitt en á endanum var Scaled Composite sektað um 25.000 dali og allar öryggisreglur hertar.

Þrátt fyrir það verður aldrei mögulegt að ná algjöru öryggi við geimferðir. Það leikur því miður enginn vafi á að eitthvað banaslys mun eiga sér stað á fyrsta áratug komandi geimferða. Væntanlegir geimferðamenn munu að líkindum fá gaumgæfilega kynningu á áhættunni og þurfa að skrifa undir skjöl þess lútandi að þeir viti af slíkri áhættu og falli frá öllum kröfum á flugfélagið ef svo illa vill til að slys eigi sér stað.

Geimferðin krefst engrar þjálfunar

En öryggið felst ekki einungis í tækninni heldur einnig hve langa þjálfun og menntun geimferðamenn þurfa að fá fyrir flug. Ekki verður unnt að gera miklar kröfur um líkamlegt ástand þar sem margir velmegandi viðskiptavinir eru komnir nokkuð við aldur. Pantanirnar sýna að meðal fyrstu geimfarþega eru nokkrir á níræðisaldri.

Til þess að komast af stað þurfa menn að fara í gegnum venjulega læknisskoðun. Undirbúningur fyrir álag vegna hröðunar undir ferðinni felst í æfingum í þeytivindu á jörðu niðri. Mögulegt er að þjálfunin nái einnig til háflugs með þotunni White Knight Two þar sem farþegar upplifa þyngdarleysi í um hálfa mínútu. Þótt skammvinnt sé nægir það til að undirbúa þá fyrir upplifunina.

Kreppan seinkar brottför

Því miður fyrir geimferðamennsku hefst hún á þeim tímum þegar heimurinn er að ganga í gegnum verstu efnahagsörðugleika í marga áratugi. Af þeim sökum reynist fyrst og fremst erfitt að fá hagkvæm lán til að byggja eldflaugar, geimför og þotur. Virgin Galatic nýtur þó góðs af auðæfum Richard Bransons. Þau fyrirtæki sem verða að snúa sér til bankanna eiga öllu erfiðara uppdráttar. Á sama tíma eru auðugir einstaklingar ekki eins reiðubúnir að seilast í vasa sína. Flest bendir til að áhugi á flugferðum út í geim sé afar mikill – en margir mögulegir viðskiptavinir kjósa kannski að fresta ferðinni í nokkurn tíma, þar til betur árar. Vandamálið er þó að eigi geimferðaiðnaðurinn erfitt uppdráttar fyrst um sinn gæti hann orðið gjaldþrota.
Sem betur fer eru einnig bjartsýnismenn sem hika ekki við að nota peninga sína til að uppfylla draumana – jafnvel þegar hart er í búi. Fyrir hina auðugustu er lítið stökk út í geiminn þó ekki nóg. Þá dreymir um geimhótel á sporbraut um jörðu og það virðist vænlegt næsta skref fyrir geimferðamennsku. Því miður er það ekki jafn einfalt og það hljómar, því þrátt fyrir að fyrstu geimferðamennirnir hafi sótt alþjóðlegu geimstöðina ISS heim, var það einungis mögulegt þar sem Rússar seldu pláss um borð í Soyuz-eldflaugum sínum.

Það var fyrir verð sem smám saman steig úr 20 í næstum 50 milljón dali. Slíkur kostnaður takmarkar straum gesta til ISS, enda hefur aldrei staðið til að ISS taki á móti ferðamönnum. En ýmsir fjárfestar velta fyrir sér möguleikanum á geimhótelum sem krefst þess að kostnaðurinn lækki verulega, en það er ekki fyrirsjáanlegt.

Það er nefnilega mikill munur á litlu stökki með 4.000 km hraða á klst. að mörkum geimsins í 100 km hæð og því að fara á braut um jörð með 28.000 km hraða á klst. Vissulega er hraðinn „aðeins“ sjö sinnum meiri en sú orka sem þarf til að senda mann á braut um jörðu er um 50 sinnum meiri en þarf til að taka lítið hopp upp í geim. Nú dugar ekki lengur einfalt og tiltölulega öruggt eldsneyti eins og köfnunarefnisildi og fast eldsneyti. Þörf er á mun orkuríkara eldsneyti sem er afar hættulegt eins og t.d. fljótandi súrefni við -183°C eða jafnvel fljótandi vetni við -253°C.

Slíkt eldsneyti er jafnvel eftir margra ára reynslu geimferða, afar ótryggt og krefjast dýrra eldflauga sem varla er hægt að nýta aftur. Og ferðin aftur til jarðar er ófær þrátt fyrir snjalla lausn vængjanna á SpaceShip Two. Nú er um að ræða núningshita á leiðinni sem nemur mörg þúsund gráðum. Þá þarf að styðjast við hitahlífar eða hitaeinangrun eins og eru á geimferjunni.

Geimferðamennskukapphlaupið er hafið

Þrátt fyrir allar þessar kröfur eru samt margir sem hafa trú á hugmyndinni. Einn þeirra er fjárfestirinn Robert Bigelow sem hefur auðgast stórum á hótelkeðjunni Budget Suits of America. Með hagnaðinum hefur hann nú fjárfest í fyrirtækinu Bigelow Aerospace. Markmið þess er að hanna geimhótel og hefur það nú þegar sent upp tvær frumgerðir af uppblásanlegum einingum er nefnast Genesis 1 og 2 á braut um jörðu. Bigelow vonast til að þessar einingar muni sýna nauðsynlega tækni til að byggja raunverulegt geimhótel. Bygging hótelsins verður ekki þyngsta þrautin. Miklu örðugra verður að finna einhvern sem getur skilað gestunum til hótelsins fyrir svo lítinn kostnað að venjulegir auðmenn geti farið með.

Besti kosturinn um þessar mundir er fyrirtækið SpaceX með Falcon 9-eldflaugina og Dragon-hylkin sem er ætlað að flytja farþega. Fyrirtækið hefur þegar samning við NASA um að flytja birgðir og jafnvel einnig geimfara til geimstöðvarinnar ISS. En jafnvel hinar ódýru eldflaugar SpaceX munu tæpast geta lækkað kostnaðinn fyrir ferð á sporbraut undir tugi milljóna á hvern farþega. Til þess þarf algjörlega nýja tækni sem er ekki enn til staðar.

Samt eru margir auðmenn sem bera þann draum í brjósti að geta séð jörð okkar ofan frá – hvað sem það kostar. Margir hafa þegar pantað sér far hjá Virgin Galatic og öðrum fyrirtækjum. Þeir bíða bara eftir brottförinni og meðan til er fólk sem er reiðubúið að borga svimandi upphæðir fyrir draumaferðina á geimferðamennskan sér framtíð – kannski einnig fyrir venjulegt fólk án margra milljóna í handraðanum.

Subtitle:
Eftir áratuga bið verða geimferðir nú mögulegar fyrir almenning. Ferðalag upp í 110 kílómetra hæð kostar 200.000 dali, en það eru líka einu takmörkin. Í reynd geta allir haldið af stað, ungir sem aldnir, konur og menn. Árið 2011 halda fyrstu geimferðamennirnir til bandarískrar eyðimerkur – og fáeinum árum síðar má fara í draumaferðina frá Kiruna í Svíþjóð.
Old ID:
1016
833
(Visited 32 times, 1 visits today)
Síðast breytt: nóvember 21, 2019

Pin It on Pinterest

Share This

Fá þér
áskrift?

Við erum með fullt blað af spennandi greinum einsog þeim sem þú ert búin/n að vera að lesa og meira til.