Hvað er fyrir utan alheiminn?

Sá alheimur sem við getum séð hefur takmarkaða vídd. En hvað er handan við þann sjóndeildarhring? Og getur það mögulega haft einhver áhrif á okkur hér á jörðinni?

Alheimurinn

Lestími: 2 mínútur

Hvað vitum við?

Við eigum heima í alheimi sem er um 13,7 milljarða ára gamall. En vegna þess að alheimurinn þenst stöðugt út er hinn sýnilegi alheimur stærri en ætla mætti. Þegar við sjáum stjörnuþoku í 10 milljarða ljósára fjarlægð, sjáum við í raun ljósið frá henni eftir að það hefur ferðast í 10 milljarða ára. Stjörnuþokan sjálf er nú í miklu meiri fjarlægð vegna þess að alheimurinn þenst stöðugt út. Þegar tekið er mið af þessu, er geisli (radíus) hins sýnilega alheims um 42 milljarðar ljósára. Þetta rými er nefnt Hubble-alheimurinn.

 

 

Kenning 1: Óendanlega stórt rými

 

Það er ekki óhugsandi að eitthvað sé utan þessa svæðis. Miklahvellskenningin opnar þann möguleika að óendanlega stórt rými geti verið fyrir utan Hubble-alheiminn.

 

Þetta kallast fjölheimur af gerð 1 og við erum þá í rauninni að tala um fjölmörg svæði, þar eð aldur alheimsins setur því takmörk hve vítt við getum séð – og þetta gildir óháð því hvar við erum stödd. Sé þessi skýring rétt, er svarið við upphaflegu spurningunni: Fyrir utan hinn sýnilega alheim er bara meiri alheimur.

 

 

Kenning 2: Alheimar í tómarúmsblöðru

 

Fræðilega séð má hugsa sér aðra gerð fjölheima, sem þá kallast gerð 2. Þessi hugmynd felur líka í sér óendanlegan fjölda alheima í fjölheiminum, en þeir eru þá ekki í sama rými og alheimur okkar. Hver alheimur er þá eins konar blaðra í tómarúmi, sem hefur ýmsa eiginleika, sem ekki eru okkur skiljanlegir, heldur er einvörðungu unnt að lýsa þeim stærðfræðilega.

 

Náttúrulögmál í mismunandi „blöðrum“ eru trúlega mjög mismunandi og það þýðir að öll hugsanleg náttúrulögmál er að finna einhvers staðar. Sé þessi skýring rétt er tómarúm utan við alheim okkar og gríðarlangt í burtu óteljandi aðrar alheimablöðrur.

 

Að öðru leyti hefur kenningin um óendanlega stóran alheim af gerð 1 eina afar áhugaverða heimspekilega afleiðingu: Séu náttúrulögmálin alls staðar þau sömu, hlýtur allt að endurtaka sig óteljandi sinnum. Langt í burtu sitja nú óteljandi hliðarsjálf þín og eru að lesa þessa grein.

 

Er hægt að fá svar?

Af góðum og gildum ástæðum er ekki auðvelt að greina eitt né neitt utan hins sýnilega alheims. En þó má eygja örlítinn möguleika: Árið 2008 uppgötvaðist að stjörnuþokur ferðast um alheiminn eins og þær séu undir áhrifum þyngdarafls frá einhverju í gríðarmikilli fjarlægð. Nánari skoðun á þessu „myrka flæði“ kynnu að koma okkur eitthvað áleiðis.

 

 

03.03.21

(Visited 1.000 times, 1 visits today)

Pin It on Pinterest

Share This

Fá þér
áskrift?

Við erum með fullt blað af spennandi greinum einsog þeim sem þú ert búin/n að vera að lesa og meira til.