Skrifað af Alheimurinn Þróun himingeimsins

Vondi tvíburinn rannsakaður

Á vorum dögum velta vísindamennirnir enn fyrir sér hvort hugsanlega gæti leynst líf á Venusi, þó reyndar í mun minna mæli en forðum. Þótt þessi reikistjarna sé vissulega fjandsamleg öllu lífi mætti þó hugsa sér að örverur gætu hafst við í 60 km hæð upp í gufuhvolfinu þar sem hitastig er 50 – 70° og nokkuð stöðugt. Þar er líka að finna talsvert vatn bundið í brennisteinssamböndum. Þetta eru vissulega ekki kjöraðstæður en í brennisteinspyttum hér á jörð lifir t.d. sulfolobus-örveran við mun erfiðari aðstæður.

Líklega verðum við mun næri svari við fjölmörgum spurningum, þar á meðal um líf á Venusi, eftir tvö til þrjú ár þegar vísindamennirnir hafa unnið úr gögnum frá gervihnetti ESA, evrópsku geimrannsóknastofnunarinnar, Venus Expresss. Áætlað er að geimfarið komi til Venusar í lok mars og það á síðan að vera á braut um Venus í 16 mánuði og skanna bæði yfirborðið og gufuhvolfið á útfjólubláum, sjónrænum og innrauðum bylgjulengdum.

Gufuhvolfið á methraða

Venus Express á m.a. að leita skýringa á því fellibyljabelti sem þeytir gufuhvolfinu umhverfis reikistjörnuna á 350 km hraða. Efsti hluti gufuhvolfsins snýst um plánetuna á aðeins fjórum jarðsólarhringum, en yfirborðið fer aðeins á 60. hluta þess hraða. Sólarhringur á Venusi er 243 jarðsólarhringar.

Þetta fyrirbrigði – ofursnúningur gufuhvolfsins – er óþekkt hér á jörð. Og því fer fjarri að þetta sé hið eina sem greinir reikistjörnurnar tvær í sundur. Þótt þær hafi myndast við því sem næst nákvæmlega sömu aðstæður hefur æviskeið þeirra verið harla ólíkt. Á plánetunni Jörð ríkir þægilega temprað loftslag sem veldur því að fljótandi vatn þekur stærstan hluta yfirborðsins. Á Venusi ríkir hins vegar nægur hiti til að bræða blý. Þessum mikla hita veldur gríðarlegur loftþrýstingur, samsvarandi því að hér á jörð sé kafað niður á 930 metra dýpi.

Það er einkum koltvísýringur sem skapar þennan mikla loftþrýsting. Þéttni hans í gufuhvolfinu er 30.000 sinnum meiri en hér og þessi lofttegund fyllir 96,5% af gufuhvolfinu. Í öðru sæti er svo köfnunarefni sem er um 3,5%. Til samanburðar er köfnunarefni um 78% af gufuhvolfi okkar, 21% er súrefni og 1% er svo argon, koltvísýringur o.fl. Þar eð ekkert súrefni er að finna í gufuhvolfi Venusar hlyti hugsanlegt líf þar að hafa fundið sér aðrar leiðir. Sumir vísindamenn telja að lífverur hér kynnu að mynda karbónýlsúlfíð úr brennisteinstvísýringi og kolsýringi með efnaskiptum sambærilegum þeim sem fyrstu bakteríur á jörðinni nýttu sér.

Það má telja kenningunni um líf á Venusi til tekna að radarmælingar hafa sannað tilvist efnisagna, sem ekki eru kúlulaga, og 1 – 10 míkrómetrar að stærð í gufuhvolfi reikistjörnunnar. Þetta er einmitt stærðarbil flestra örvera hér á jörð.

Spurningin er þó hvort Venus gæti mögulega hýst flóknara líf en þetta. Hiti og loftþrýstingur eru nefnilega ekki einu vandamálin sem hugsanlegir “íbúar” þurfa að glíma við. Í efsta hluta gufuhvolfsins gengur brennisteinstvísýringur í efnasamband við vatn með þeim afleiðingum að niður um gufuhvolfið rignir svo sterkri brennisteinssýru að hún gæti tært allt hold af mannsbeinum. Þetta regn nær þó að vísu aldrei niður á yfirborðið, heldur gufar upp í hinum mikla hita þegar neðar dregur.

Gróðurhúsaáhrif á fullu

Þegar tekið er tillit til þess að Venus og Jörð hafa samtals jafn mikið af koltvísýringi, köfnunarefni og öðrum efnum í bergmassanum, sem í báðum tilvikum er langstærsti hluti hnattanna, má velta fyrir sér hvers vegna gufuhvolfið sé svo gríðarlega ólíkt. Til að byrja með má skýra skýra hitamuninn með því að koltvísýringur á okkar hnetti liggur að mestu bundinn í berginu, en á Venusi hefur gríðarmikið af því komist út í gufuhvolfið.

Þá komum við að spurningunni, hvers vegna hið sama gerðist ekki á jörðinni. Á Venusi hlýtur eitthvað að hafa gerst sem kom þessari þróun af stað og það er mikilvægt að öðlast skiling á því, þar eð það gæti skýrt fyrir loftslagsfræðingum hvort eitthvað svipað gæti gerst hér. Er losun gróðurhúsalofttegunda hér t.d. að koma okkur inn í svipaða þróun og varð á Venusi? Og ef svo er, hvar liggja þá mörkin, hvenær verður ógerningur að hafa hemil á þróuninni. Óþægindin við slíkar spurningar felast ekki síst í því að loftslag á Venusi var lengi ekki ósvipað og hér. Nákvæmlega hversu lengi vita vísindamennirnir ekki með neinni vissu. Sumir vísindamenn telja þó að þróunin á reikistjörnunum tveimur gæti hafa verið svipuð í um tvo milljarða ára. Þetta ber að skoða í því ljósi að sólkerfið er innan við fimm milljarða ára gamalt.

Rétt eins og á jörðinni þvoði regnið bæði koltvísýring og brennistein úr gufuhvolfinu á Venusi. Frumstætt líf hefur því getað þróast og breiðst út um allan hnöttinn. Þegar seinna tók að hitna á Venusi er hugsanlegt að lífið hafi fundið sér dvalarstaði hátt uppi í gufuhvolfinu og kannski finnur Venus Express ummerki um það.

Útreikningar sem gerðir hafa verið á grundvelli upplýsinga sem bandaríska geimfarið Pioneer Venus aflaði árið 1978, benda til að ámóta mikið vatn hafi verið á Venusi og hér á jörð eftir að þessar tvær reikistjörnur höfðu myndast fyrir ríflega 4,5 milljörðum ára. En þetta breyttist mjög þegar aukinn hiti tók að berast frá sólinni. Framan af var hitinn frá sólinni um 70% af því sem nú er, en eftir að henni tók að vaxa fiskur um hrygg, hitnaði hún smám saman uns núverandi hitastigi var náð. Upphitunin jók á vatnsgufu í gufuhvolfi Venusar. Hið sama gerðist hér, en á Venusi gekk þróunin miklu lengra. Fyrst gufaði vatnið upp í gufuhvolfið, þar sem það hafði mikil gróðurhúsaáhrif, en síðar hvarf það nánast allt. Nú er afar lítið vatn á Venusi, ekki nema einn hundrað þúsundasti af vatnsmagni jarðarinnar. Ef allt vatn á Venusi þéttist á yfirborðinu, yrði það ekki nema svo sem 2 sm djúpt.

Hér á jörð rignir uppgufuðu vatni aftur niður á yfirborðið. Þetta gerist ekki á Venusi. Þess stað hefur hið ókyrra gufuhvolf borið vatnsgufuna æ hærra þar til hún að lokum komst í snertingu við orkuríka, útfjólubláa geislun frá sólinni. Þessi geislun klýfur vatnið í súrefni og vetni og rafhlaðnar eindir í sólvindinum blása báðum þessum frumefnum út í geiminn. Þetta gat ekki gerst hér á jörð, vegna þess að okkar pláneta er búin tveimur varnarskjöldum, sem verja hana fyrir hatrömmustu árásum sólarljóssins. Annars vegar er hér um að ræða ósonlagið sem drekkur í sig stóran hluta af útfjólubláum geislum frá sólinni. Hins vegar er svo segulsvið jarðarinnar sem hrindir frá sér rafhlöðndum efniseindum í sólvindinum. Venus hefur hvorugt og því hefur vatnið borist frá reikistjörnunni út í geiminn, nánast eins og á færibandi.

Það er mönnum enn ráðgáta að Venus skuli ekki hafa segulsvið. Hér myndast segulsviðið af völdum fljótandi járnkjarna hnattarins. Allar líkur benda til að samsvarandi járnkjarna sé að finna í iðrum Venusar, en hann virðist haga sér allt öðruvísi. Það er líka eitt af hlutverkum geimfarsins Venus Express að leita skýringa á þessu.

Vatnslaus þrýstisuðupottur

Þegar vatnið hvarf hafði það merkileg áhrif. Eftir því sem dró úr vatnsmagninu urðu áberandi breytingar á jarðskorpuhreyfingum. Skýringin er sú að þegar uppgufunin dró vatn úr steintegundinni olivín, sem er um 50% alls bergmassa bæði hér og á Venus, varð þessi bergtegund mun stífari. Jarðskorpuflekar á Venusi sátu þar með klossfastir og um leið lokaðist sá öryggisventill sem gerir okkar hnetti kleift að losa sig annað veifið við uppsafnaða innri orku. Venus varð þess í stað að eins konar þrýstisuðupotti. Samkvæmt radarmælingum á reikistjörnunni varð síðasta sprenging þar fyrir um 500 milljónum ára og þá bráðnaði allt yfirborðið og storknaði nánast samstundis aftur. Nú má greina um milljón eldgíga á Venusi, sem þar með á met í sólkerfinu í þessu efni. Venus Express er m.a. ætlað að kanna hve mörg þessara eldfjalla séu enn virk.

Lestu greinina í heild sinni í 3. tbl. 2006

Subtitle:
Engar tvær reikistjörnur í sólkerfinu eru jafn líkar og Jörð og Venus. Þessir tveir hnettir hafa næstum jafn mikinn massa og vegalengdin frá sólinni er tiltölulega svipuð. Í augum stjörnufræðinga fyrri tíðar var því ekki langsótt að ímynda sér að líf gæti einnig verið að finna á Venusi. Á 17. öld fullyrti stjörnufræðingur einn meira að segja að rauða skinið frá Venusi hlyti að stafa frá stórborgum Venusbúa.
Old ID:
303
181
(Visited 21 times, 1 visits today)
Síðast breytt: nóvember 21, 2019

Pin It on Pinterest

Share This

Fá þér
áskrift?

Við erum með fullt blað af spennandi greinum einsog þeim sem þú ert búin/n að vera að lesa og meira til.