Lifandi Saga

Allir hræddust miskunnarlausa böðla

Hann þurfti að vera miskunnarlaus, geta brennt mann á báli, sveiflað sverði af nákvæmni – og vera tilbúinn að verða fordæmdur af öllum, líka sínum nánustu. Böðulsstarfið var meðal þeirra best launuðu en verðið var líf í einangrun í útjaðri borganna.

BIRT: 09/12/2024

Frantz Schmidt starði einbeittur á tröppurnar fyrir framan sig. Auk þess að halda jafnvægi þurfti hann að styðja mann, með hendurnar bundnar saman á úlnliðum sem skjögraði við hliðina á honum upp mjóan stigann.

 

Mennirnir tveir náðu efsta þrepinu sem var við þverbjálkann á gálganum – nú var komið að því. Frantz rétti fram höndina og greip í reipið sem hann hafði þegar hengt upp.

 

Hann lét snöruna renna varlega yfir höfuð mannsins og niður á hálsinn. Hér skildu leiðir. Með snöggu handtaki ýtti Frantz manninum fram af þrepinu og stóð sjálfur eftir þegar hann horfði á þykkt reipið skerast inn í hálsinn á spriklandi manninum.

 

Fyrst þegar líkaminn hékk máttlaus í gálganum gat Frantz litið svo á að verki hans væri lokið.

 

Hann klifraði rösklega niður úr stiganum til að taka á móti þökkum og hrósi frá læriföður sínum sem stóð fyrir neðan stigann.

 

Athöfnin var merki þess að Frantz Scmidt, eins og lærimeistarinn tilkynnti svo allir heyrðu, hefði „framkvæmt verkið fimlega og án mistaka“ og væri nú, 19 ára gamall, útlærður böðull.

 

Þessi aftaka þjófsins Lienhardt Russ sem fram fór 5. júní 1573 í þorpinu Steinach í suðurhluta Þýskalands, var aðeins sú fyrsta af mörgum sem Frantz Schmidt framkvæmdi.

 

Þegar hann hætti störfum 45 árum síðar höfðu 394 manns látið lífið og margir fleiri verið hýddir, pyntaðir og afskræmdir, þ.á m. með því að brennimerkja þá, klippa af þeim eyru og tunguodda eða mylja bein þeirra eitt af öðru.

 

Enginn hafði spurt Frantz hvort hann vildi böðulsstarfið, því það gekk frá föður til sonar. Hið sama gilti um álit annarra. Tengsl böðulsins við synd, refsingar og dauða urðu til þess að allir óttuðust hann og hann var útskúfaður og lifði á jaðri miðaldasamfélagsins.

 

Böðull fyrir tilviljun

Margir samstarfsmanna Franz voru af rótgrónum böðlaættum en innkoma Schmidt-fjölskyldunnar í hinn illa þokkaða félagsskap var nýtilkomin og eiginlega fyrir slysni.

 

Heinrich Schmidt, faðir Frantz, var virðulegur fuglaveiðimaður í bænum Hof ​​í Suður-Þýskalandi.

 

Haustið 1553 hafði hann farið til að horfa á aftöku. Yfirvaldið á staðnum, markgreifi nokkur, hafði handtekið þrjá menn fyrir að skipuleggja samsæri gegn honum.

 

Markgreifinn hafði fyrirskipað að þeir þrír yrðu hengdir tafarlaust en bærinn var of lítill til að þar starfaði fastráðinn böðull.

„Slátrari“, „blóðdómari“, „meistari djöfulsins“ og „hórusonur“.

Hrakyrði notuð um böðla

Hinn óþolinmóði markgreifi neitað alfarið að bíða eftir að böðull yrði sóttur til einhverrar af stærri borgunum í nágrenninu.

 

Þess í stað beitti hann gömlum lögum sem heimiluðu honum að velja einhvern þeirra sem voru viðstaddir aftökuna til að taka að sér starf böðulsins.

 

Því miður fyrir Heinrich varð hann fyrir valinu. Fuglafangarinn reyndi allt hvað hann gat til að komast undan en greifinn hafnaði öllum andmælum.

 

„Ef (faðir minn) hlýddi ekki, hefði (markgrafinn) látið hengja hann með hinum þremur,“ segir Frantz. Og þar með voru örlög Schmidt-fjölskyldunnar ráðin.

Albrecht 2. Alcibiades, hataður markgreifi í þýsku borginni Hof, skipaði fuglafangara nauðugan sem böðul.

Böðullinn æfði sig á svínum og hundum

Sagan um hinn ógæfulega Heinrich Schmidt hefur varðveist til þessa dags því Frantz kunni, ólíkt mörgum öðrum á 16. öld, bæði að lesa og skrifa.

 

Þess var krafist af öllum böðlum, því þeir þurftu að geta skrifað ítarlegar skrár yfir aftökur sínar.

 

Frantz notaði ritfærni sína einnig til að halda dagbók.

 

Frá fyrstu aftökunni árið 1573 þar til hann lét af störfum árið 1618 skrifaði Frantz reglulega niður minningar og atburði úr lífi sínu.

 

Barnæskunni er aðeins lýst í fáum orðum. En sagnfræðingar vita að synir böðla — eins og flestir ungir drengir þess tíma — lærðu iðn föður síns.

 

Á fyrstu unglingsárunum fólst vinna Frantz að mestu í því að þrífa sverð og pyntingatæki og undirbúa reipi og keðjur fyrir aftökur.

Blaðsíða úr dagbók böðulsins Frantz Schmidt. Það má sjá á ríkisbókasafninu í Nürnberg.

Þegar hann varð eldri og sterkari hjálpaði hinn ungi lærlingur við verkið sjálft. Sennilega hefur faðirinn áminnt hann um að fylgjast vel með, svo að sonurinn væri tilbúinn daginn sem hann þyrfti sjálfur að binda snöruna eða beita sverðinu eða öxinni.

 

Sérstaklega þurfti mikla æfingu til að hálfshöggva. Hver böðull lét hanna sitt eigið sverð til að passa við hæð eigandans og líkamsburði.

 

Flest sverð böðla voru um eins metra löng og þrjú kíló að þyngd.

 

Sum voru skreytt trúarlegum myndum, til dæmis af Kristi eða Maríu mey. Á önnur voru grafin heilræði eins og:

 

„Varist ill verk, annað leiðir þig í gálgann“, eða því beinskeyttara: „Herrann ákærir, ég refsa“.

 

Sverðið var göfugasta og persónulegasta verkfæri böðulsins og á heimili meistara Heinrichs fékk vopnið ​​heiðurssess fyrir ofan eldstæðið þegar það var ekki í notkun við aftökur eða við þjálfun Frantz.

 

Þá voru lög og regla mikilvæg

Fyrsta fórnarlamb lærlingsins var venjulega grasker. Síðar var þeim skipt út fyrir rabarbarastilka sem var aðeins erfiðara að hitta og sem líkust mannshálsi í áferð meira en ávöxturinn.

 

Síðan fylgdu geitur, svín og önnur húsdýr sem tiltölulega auðvelt var að halda kyrrum og loks flækingshundar.

 

Aftakan á hundinum var lokaæfingin fyrir fyrstu alvöru aftökuna.

 

Í tilfelli Frantz fór prófið fram í maí 1573. Mánuði síðar tók hann sveinsprófið við gálgann í Steinach.

 

Frantz hefði ekki getað lokið námi á betri tíma. Eins kaldhænislega og það kann að hljóma þá varð sprenging í eftirspurn eftir böðlum seint á 16. öld.

Hirðfífl, burðarfólk og púðurgerðarmenn. Hér áður fyrr voru ýmis störf í boði sem við þekkjum bara af afspurn. Hér fjöllum við um 15 þekktar starfsgreinar sem hafa horfið.

Eitt högg var allt sem þurfti við aftöku. Ef böðullinn kunni sitt fag.

Hin fullkomna afhausun

Böðull var fyrst og fremst metinn af hæfni sinni við að höggva höfuð af manni. Ef hann var fær í sínu fagi þurfti hann aðeins að fylgja fjórum skrefum til að skila skilvirku, áhrifamiklu og stórbrotnu verki.

1. STAÐSETJA:

Böðullinn lætur hinn dæmda krjúpa eða sitja á stól. Sakamaðurinn er bundinn við aftökuna.

2. MIÐA:

Böðullinn beinir augnaráði sínu að miðjum hálsi hins dæmda.

3. HÖGGVA:

Með einu höggi, venjulega aftan frá hægra megin, sker böðullinn á milli tveggja hálsliða með sverði sínu, þannig að höfuðið er aðskilið frá líkamanum.

4. VERKLOK:

Höfuð þess dæmda veltur að fótum böðulsins á meðan blóð streymir úr strúpanum. Verkið er fullkomnað.

Á miðöldum óx bæði verslun og handverk jafnt og þétt í þýsk-rómverska heimsveldinu. Sú þróun skapaði mikinn auð í borgunum sem sumar fengu stöðu sjálfstæðra ríkja.

 

Þær fóru fljótlega að keppast við að laða að verslun og framleiðslu og ströng löggæsla gat gert eina borg eftirsóttari en aðrar.

 

Borgirnar kepptust því við að taka hart á glæpamönnum og borgaryfirvöld fengu hver um sig „einkaleyfi“ á aftökum sem áður voru oft einkamál milli brotamannsins og fórnarlambsins eða fjölskyldu hans. Eins og Frantz átti fljótlega eftir að komast að var framfylgd dauðadóma oft tilviljanakennd. Eins og margir aðrir iðnaðarmenn var hann fyrstu árin að námi loknu á flækingi stað úr stað í leit að vinnu.

 

Á flökkulífinu lærðist honum að starf hans aðskildi hann frá öðrum.

 

Franz og kollegar hans urðu að þola að vera kallaðir alls lags ónefnum, eins og „Slátrari“, „blóðdómari“, „meistari djöfulsins“ og „hórusonur“.

 

Þess vegna var útilokað að aðrir iðnsveinar myndu bjóða Frantz í hringinn sinn.

 

Eina fólkið sem lét sjá sig með böðli eða sat til borðs með honum á veitingahúsi voru aðrir útskúfaðir ferðalangar eins og sígaunar, betlarar og málaliðar.

Á miðöldum voru fleiri hópar útskúfaðir

Böðullinn var langt frá því að vera sá eini sem glímdi við vinsældir í miðaldasamfélagi. Almenningur leit niður á nokkrar starfsstéttir þrátt fyrir að njóta góðs af óvinsælu starfi.

Slátrarinn var talinn óhreinn

Þrátt fyrir að slátrarinn útvegaði borgurunum eftirsóknarvert kjöt neyddist hann til að búa í einangrun frá öðrum borgurum.

 

Slátrarinn var talinn óhreinn og sýktur vegna tengsla við dauðann, blóðúða og lyktina sem kom frá sláturdýrunum þegar þau voru hreinsuð, skoluð og unnin.

 

Eftir slátrun voru húðirnar seldar til feldskera og sútara sem einnig voru illa liðnir á miðöldum.

Óþefur neyddi sútara út úr bænum

Sútarinn hreinsaði og meðhöndlaði dýraskinn fyrir fatnað og leðurvörur. Við vinnsluna notaði hann bæði gamalt þvag og hundasaur.

 

Innihaldsefnin gáfu frá sér gufur og óþef sem varð til þess að sútarinn varð að búa utan borgarinnar.

 

Starfinu gegndi oft fólk sem var illa liðið í samfélaginu, eins og til dæmis gyðingar, fátækir og betlarar.

Fólk óttaðist galdra náttmannsins

Náttmaðurinn fjarlægði sjálfdauð dýr og lík hinna líflátnu. Hann tæmdi sorptunnur bæjarins og fjarlægði rusl af götunum.

 

Á þeim tíma trúðu margir að sjúk húsdýr sem og fólk sem tekið var af lífi væru sýkt af myrkum öflum. Náttmaðurinn var í líkamlegri snertingu við bæði og var því talinn óhreinn, hættulegur og fær um að varpa bölvun á fólk. Oft unnu dæmdir sakamenn þetta starf.

Frantz vissi að margir böðlar lentu í vondum félagsskap og að enn fleiri urðu drykkfelldir, því með ferð á krána gátu þeir sefað sársaukann og skelfinguna eftir að hafa pyntað og drepið einhvern samborgara sinna.

 

Hinn rólyndi vinur okkar vildi fyrir alla muni forðast að verða þannig, hvað sem það kostaði. Ennfremur vissi hann að framtíðarvinnuveitendur dæmdu böðla eftir orðspori og umgengni.

 

Á þessum tímum, þegar lög og regla voru á allra vörum, mátti ekki finnast neitt slæmt við persónu böðulsefnis. Frantz valdi því eina kostinn sem myndi skila honum árangri: Hann afþakkaði kurteislega öll boð um drykkju og svall og hélt sig út af fyrir sig.

 

Frantz lifði vissulega erfiðu lífi á flakki sínu en reglusemin launaði sig að lokum og skapaði honum gott lífsviðurværi.

 

Hann átti aldrei í vandræðum með að finna vinnu og fékk snemma virt störf, fyrst í stórborginni Bamberg og síðar, aðeins 24 ára gamall, fastan samning við borgarstjórnina í Nürnberg. Það var staða sem hvern böðul dreymdi um. Borgin hýsti um 100.000 íbúa og var ein stærsta verslunar- og menningarmiðstöð þýsk-rómverska heimsveldisins, á eftir Augsburg, Köln og Vínarborg.

 

Bankar og kaupmenn Nürnberg voru meðal þeirra fremstu í Evrópu og með stöðu sína sem ein af mikilvægustu viðskiptaborgum landsins þurfti harðsnúinn böðul til að fæla hugsanlega glæpamenn frá.

 

Pyntingar voru handverk

Böðullinn lét ekki nægja að framkvæma aftökuna – hann tók virkan þátt í réttarhöldunum frá upphafi til enda.

 

Frantz lýsir því sjálfur hvernig hann hóf yfirheyrsluna um leið og yfirvöld höfðu bent á þann grunaða. Fórnarlambið var fært í fangelsið og sett í pyntingarklefa, lítið og gluggalaust herbergi með hvelfdu lofti.

 

Hér yfirheyrði Frantz hinn grunaða á meðan hann sýndi pyntingartæki sín og sagði til hvers væri hægt að nota þau – og ef hótanirnar leiddu ekki til þess að hinn grunaði játaði voru hin grimmilegu verkfæri tekin í notkun.

 

Tólin sem Frantz notaði voru meðal annars þumalskrúfur, svokölluð „spænsk stígvél“ (fótaskrúfur) og eldur sem haldið var í formi blysa undir handarkrika ákærða. Ef glæpamaðurinn veitti mótspyrnu gat böðullinn líka dregið fram strekkingarbekkinn.

 

Fórnarlambið var lagt á bekkinn, reipi voru bundin um úlnliði og ökkla og með því að nota kefli voru handleggir og fætur síðan togaðir hægt sitt í hvora áttina þar til liðamótin gáfu sig.

Sérhver glæpamaður fékk klæðskerasaumaða refsingu

Það var engin tilviljun að dæmdur glæpamaður brann á báli eða drukknaði í stöðuvatni. Það réðst af eðli brotsins.

Ógeðslegir bandíttar: Brenndur með byssupúður um hálsinn

Eldurinn var refsing samfélagsins fyrir glæpi sem þóttu sérstaklega ógeðfelldir og niðurlægjandi, t.d. galdrar og samkynhneigð. Hinn dæmdi fékk púðurpoka um hálsinn og hálmknippi á milli handleggja og fóta.

 

Oftast kyrktu aðstoðarmenn böðulsins hinn dæmda áður en kveikt var í honum. Köfnunin fór fram í kyrrþey, svo að dauði glæpamannsins skemmdi ekki upplifun áhorfenda. Ef bragðið mistókst brann hann eða hún til dauða og kvaldist ógurlega.

Óforbetranlegir brotamenn: Hvert bein í líkamanum var brotið

Hjólbrot var refsing svokallaðra óforbetranlegra glæpamanna. Til að undirbúa aftökuna var hinum dæmda skipað að leggjast á jörðina, aðeins klæddur nærbuxunum.

 

Böðullinn setti síðan viðarbút undir hvern líkamshluta og notaði síðan hjól til að mylja bein mannsins svo að smellirnir heyrðust. Ef dómarinn var miskunnsamur var böðlinum sagt að slá hinn dæmda fyrst á hálsinn eða hjartað, svo að hann eða hún dó strax.

Kvenkyns barnamorðingjar: Gátu lifað af hálftíma í pokanum

Að drukkna í strigapoka var vinsæl aftökuaðferð við glæpakvendi. Hún kom í stað kviksetningar (að vera grafinn lifandi) og þótti ákjósanlegri refsing fyrir konur en í ljós kom að hún var næstum jafn seinleg.

 

Stundum þurfti að halda fórnarlambinu undir vatnsborðinu með stöng og heimildir sýna að hin dæmda gat lifað af í meira en hálftíma í pokanum. Árið 1580 fékk böðullinn Frantz ásamt fangelsisprestum þessa villimannlegu aftökuaðferð aflagða.

Blýbensín er undralyfið sem kemur bensínbílunum til að mala eins og kettir en bæði uppfinningamaðurinn Thomas Midgley og yfirmenn hans hjá General Motors vita vel að blý er banvænt eitur.

Önnur aðferð var að binda hendur hins ákærða fyrir aftan bak og draga þær upp í loftið á úlnliðunum á meðan steinar bundnir við fæturna þyngdu líkamann. Aðferðin var kölluð „strappado“ og var afar sársaukafull. Oftast fór þolandinn úr axlarlið.

 

Yfirheyrslurnar sjálfar voru framkvæmdar af tveimur góðborgurum, gjarna borgarstjórum eða ríkum kaupmönnum sem spurðu spurninga í gegnum sérstaka loftrás úr öðru herbergi.

 

Á meðan yfirheyrslurnar stóðu yfir mat Frantz hversu miklar pyntingar hinn ákærði gæti þolað og hvaða pyntingar væri við hæfi að nota til að fá fram játningu.

 

Eftir sakfellinguna átti hinn dæmdi svo yfir höfði sér refsinguna, hvort sem um var að ræða aftöku, afskræmingu, hýðingu eða útskúfun.

 

Böðlar klæddir í bleikt

Frantz fékk vel borgað fyrir starf sitt. Sem grunnlaun fékk hann tvö og hálft gyllini á mánuði sem var rausnarleg greiðsla því á sama tíma fékk venjulegur fangavörður um eitt gyllini á mánuði. Auk þess var greitt aukalega fyrir yfirheyrslur og starfinu fylgdi ókeypis húsnæði. Þar á ofan voru launin skattfrjáls.

 

Þessar tekjur skipuðu Frantz á meðal þeirra fimm prósenta borgarbúa sem hæst laun fengu, svo hann hafði efni á lífsstíl á við lækna og lögfræðinga.

 

Velmegunin endurspeglaðist í fatastílnum. Í flestum borgum máttu böðlar klæða sig eins og þeir vildu. Myndir sýna að þeir voru oft svo spjátrungslega klæddir að það jaðraði við að vera ósmekklegt.

„Svívirðilegt“, „viðbjóðslegt“ og „ruglað“.

Sagt frá afhausun Frantz Schmidt á Elisabeth Mechtlin árið 1611.

Þetta átti líka við um Frantz. Teikning, hugsanlega gerð af sjónarvotti, sýnir aftöku hans á ungri konu. Á myndinni sveiflar hann sverðinu klæddur bleikum sokkum, ljósbláum buxum með bleikum bryddingum og leðurvesti yfir bláan jakka og hvíta skyrtu.

 

En hvorki glæsileg klæði né gnægð peninga veittu Frantz aðgang að virðulegum félagsskap. Staðsetning húss hans ein og sér var sönnun þess að hann væri á jaðri samfélagsins. Byggingin, rúmgott hús með nútíma þægindum eins og upphituðu baði, var staðsett á eyju.

 

Viðargöngubrú lá út á eyjuna en til að komast að henni þurftu gestir fyrst að fara fram hjá svínamarkaði, sláturhúsi og bæjarfangelsinu.

Ein sársaukafyllsta aftökuaðferð sögunnar var ætluð Kínverjum sem frömdu sérstaklega alvarlega glæpi. Fyrst var fórnarlambið bundið við staur og síðan hóf böðullinn störf sín.

Engin vildi giftast böðlinum

Samt vöktu bæði húsið og klæðnaður öfund, ekki síst meðal annarra iðnaðarmanna sem fannst þeir sniðgengnir, meðal annars vegna aukinna viðskipta við útlönd.

 

Margir iðnaðarmenn beindu gremju sinni að böðlunum og útilokuðu syni þeirra opinberlega frá því að vera teknir inn í fagfélög sín. Sem var alvarlegt fyrir böðulssynina, því án aðildar gátu þeir ekki fengið vinnu.

 

Staða böðulsins á botni samfélagsins gerði honum einnig erfitt fyrir að finna sér konu. Fáar konur, jafnvel af lægstu stéttum, vildu hafa nokkuð með atvinnumorðingja að gera. Eina fólkið sem fékkst til að deila rúmi með mönnum eins og Frantz voru vændiskonur.

 

Engu að síður tókst Frantz einu og hálfu ári eftir að hann fékk starf sitt í Nürnberg að trúlofast Maríu Beckin sem var níu árum eldri en hann. Brúðkaupið fór fram 7. desember 1579 á heimili þeirra hjóna, vegna þess að böðullinn var óvelkominn í kirkjunni.

 

Aðeins örfáar upplýsingar, eins og trúlofunardagur og brúðkaupsdagurinn eru til um hjónabandið. Hvort til þess var stofnað af ást veit enginn.

 

Hins vegar sýna skjöl að María var dóttir fátækrar ekkju og að hún átti þrjú ógift systkini.

 

Þessar upplýsingar, ásamt aldri Maríu – 34 ára sem þá þótti hár aldur fyrir ógifta konu – benda til þess að þau hafi valið hvort annað vegna þess að valkostirnir voru frekar takmarkaðir.

 

Fjölskyldan hefur eflaust verið minnt reglulega á stöðu sína á jaðri samfélagsins.

 

Lúmskar aðdróttanir og mis opinskáar móðganir voru daglegt brauð. Ennfremur voru böðlar útilokaðir frá hátíðahöldum og opinberum hátíðum.

Frantz Schmidt skrifaði undir ráðningarsamning í Nürnberg árið 1584, þar sem hann starfaði sem böðull.

Frantz kallaði dæmda menn „guðlausa“ og „afbrigðilega“

HANS DRENTZ (EÐA „STREKKJARINN“)

„Hann vildi hvorki biðja, segja nokkur orð til Guðs né segja nafn Krists. Hann féll nálægt gálganum eins og hann væri í sársaukakasti. Hann var guðlaus maður”.

 

Sakfelldur fyrir: þjófnað.

Framkvæmt: með hengingu.

GEORG SCHÖRPFF

„Afbrigðilegur maður sem drýgði saurlifnað eða hafði samræði við fjórar kýr, tvo kálfa og kind og var því tekinn af lífi með sverði sem kúaperrinn frá Velln (og) síðan brenndur með einni kú“.

 

Dæmdur fyrir: kynmök við dýr.

Framkvæmd: með sverði.

HANS KOLB (EÐA „LANGI STEINSMIÐURINN“)

„Fyrst voru allir fjórir útlimir kramdir og síðan var líkami hans brenndur. Hann baðst ekki fyrir og sagði prestinum að þegja. Hann sagðist vita þetta allt og ekki vilja heyra það, hann fengi bara höfuðverk af því“.

 

Sakfelldur fyrir: morð, þjófnað, peningafölsun.

Framkvæmt: á hjólinu.

LIENHARDT DEÜRLEIN

„Ósvífinn svikahrappur. Þegar dómur hans var lesinn, bað (hann) um að verða veitt síðasta ósk. Hann vildi fá að berjast gegn fjórum af vörðunum. Beiðninni var hafnað“.

 

Sakfelldur fyrir: íkveikju.

Framkvæmd: með sverði.

GEORG MAYER (EÐA „SÁ KLÓKI“)

„Afsakaði sig oft með flogaveiki. Þegar átti að yfirheyra hann með pyntingum fékk hann flogakast og lést vera veikur. Hann kenndi samfanga sínum að gera slíkt hið sama“.

 

Sakfelldur fyrir: barnamorð og rán.

Framkvæmt: með beinbrotum.

Jafnvel læknarnir og lögfræðingarnir sem Frantz vann með daglega þóttust ekki þekkja hann eða konu hans og börn ef þeir rákust á þau á förnum vegi.

 

Engu að síður bendir allt til þess að Schmidt fjölskyldan hafi lifað nokkuð átakalitlu fjölskyldulífi.

 

Frantz hafði góðar og öruggar tekjur, heimilið var rúmgott og barnahópurinn stækkaði fljótt. María og Frantz eignuðust fjóra drengi og þrjár stúlkur.

 

En sorgin sneiddi ekki hjá þeim. Tvö barnanna, Vitus fjögurra ára og Margaretha þriggja ára, dóu úr plágu sumarið 1585 en þetta var veruleiki sem böðullinn deildi með öllum öðrum á miðöldum, þegar plágufaraldrar voru tíðir og barnadauði mikill.

 

Þrátt fyrir starf sitt nutu Frantz og fjölskylda hans nokkurrar virðingar, einkum María, kona hans. Þegar bæði María og 16 ára sonurinn Jörg dóu árið 1600 var fjölskyldunni sýnd samúð.

 

Nokkuð óvenjulegt var að kista hins unga Jörgs var borin af bekkjarfélögum hans á meðan „nokkrir nágrannar, sjálfviljugir og af samúð“ báru kistu hinnar látnu Maríu hin þungu skref í kirkjugarðinn.

 

Sem ekkjumaður hélt Frantz starfi sínu áfram. Þegar hann var kominn yfir fimmtugt gátu hins vegar allir séð að hann var ekki lengur fær um að sinna þessu oft líkamlega krefjandi starfi sínu.

 

Árið 1611, þegar Elisabeth Mechtlin var tekin af lífi sem hafði verið dæmd fyrir framhjáhald og sifjaspell, þurfti hann að höggva allt að þrisvar áður en höfuðið skildist frá líkamanum.

 

Frammistaða Frantz var merkt „svívirðileg“ og „skammarleg“.

 

Sjálfur skráði hann í dagbókina orðið „klúður“ – tungumál böðuls fyrir aftöku sem fer úrskeiðis.

 

Fékk uppreist æru

Mistök voru ekki óalgeng en Frantz var þekktur fyrir áreiðanleika. Seinna fór líka eitthvað úrskeiðis við brennu.

 

Yfirleitt sá böðullinn til þess að hinn dæmdi væri dauður áður en eldurinn náði sér á strik. Þekktar aðferðir til þess voru að kæfa sakamanninn eða binda poka með byssupúðri um háls hans.

 

Í þetta skiptið hafði Frantz gert báðar varúðarráðstafanirnar en samt fór eitthvað úrskeiðis. Hinn dæmdi falsari Georg Karl Lambrecht brann til bana á mjög kvalafullan hátt.

 

Aftakan sem fór fram 13. nóvember 1617, var síðasta aftaka Frantz:

 

„Þann 4. júlí (1618) veiktist ég og á Saint Lorenz-deginum (10. ágúst) sagði ég upp þjónustu minni eftir að hafa gegnt embættinu í 40 ár,“ skrifaði hann. Sex árum síðar, haustið 1624, náði hann hápunkti lífs síns og ferils.

 

Í 15 blaðsíðna löngu bænaskjali til Ferdinands 2. keisara rakti hann sögu sína og ævistarf til að biðja að lokum um formlega endurreist heiðurs fjölskyldunnar. Hann vísaði til langrar og dyggrar þjónustu sinnar sem böðuls.

 

„Á öllum þessum tíma voru engar kvartanir á hendur mér eða vegna starfa minna og ég lét sjálfviljugur af embætti fyrir um sex árum síðan í sátt við yfirboðara mína vegna hás aldurs og líkamlegra veikinda“.

Þá sjaldan lík var krufið dró það að fjölda áhorfenda

Böðullinn varð læknir á efri árum

Frantz eyddi ævinni í að kvelja og pína samborgara sína en hann langaði frekar að tjasla fólki saman.

 

Sem böðull hafði Frantz Schmidt mörg líf á samviskunni. Margt bendir þó til þess að hann hafi bjargað eða bætt heilsu enn fleiri.

 

Eftir að hann lét af störfum starfaði Frantz sem læknir fyrir stóra hópa íbúa Nürnberg. Verkamenn, pílagrímar, hermenn, borgarar, biskupar og sendimenn keisaraveldisins komu allir til hans til að fá aðstoð við minniháttar og meiriháttar kvilla og kunnátta hans í læknisfræði var almennt viðurkennd.

 

Frantz var ekki sá eini sem starfaði sem læknir, samhliða böðulsferli eða eftir hann. Við aftökur og pyntingar öðluðust böðlar þekkingu á mannslíkamanum sem þeir gátu notað til að lækna og lina þjáningar.

 

Hinn svissneski læknir og frumkvöðull í læknisfræðilegum rannsóknum Paracelsus (1493-1541) fullyrti beinlínis að hann fengi mesta þekkingu sína frá böðlum og „gáfuðum mönnum“.

Hann rakti líka alla söguna um föður sinn sem hafði verið þvingaður í böðulsstarfið.

 

„Sama hversu mikið ég vildi að þeir myndu losa mig við það,“ skrifaði Frantz, þá hafði ógæfa Heinrichs og svívirðing neytt hann til að gerast böðull í stað þess að læra læknisfræði, eins og hann hefði annars viljað. Meðfylgjandi bréfinu var yfirlýsing frá borgarstjórn Nürnberg sem staðfesti að Frantz væri:

 

„þekktur fyrir hófstillt líf sitt, yfirvegaða framkomu og framfylgd keisaralaganna“.

 

Svarið barst aðeins þremur mánuðum síðar og var allt sem fyrrverandi böðull gat óskað sér.

 

„Erfð skömm Frantz sem kemur í veg fyrir að hann og erfingjar hans njóti virðingar“ var „af keisaravaldinu og miskunninni afnumin og afmáð og heiðursstaða hans meðal annarra virðingarmanna tilkynnt og staðfest,“ segir í bréfinu.

 

Þar með var bölvun böðulsins aflétt með einu pennastriki. Frantz og afkomendur hans gátu notið ellinnar í friði.

 

Böðullinn fyrrverandi eyddi síðustu árum sínum í að lesa læknisfræði, það fag sem starfsskyldur fjölskyldu hans höfðu hingað til staðið í vegi fyrir að hann gæti.

 

Dæturnar giftust inn í góðar fjölskyldur og einn sonanna, Frantzenhans, varð læknir.

 

Endanlega viðurkenningu hlaut Frantz eftir dauða sinn. Í opinberum skjölum er ekki lengur talað um hann sem böðulinn frá Nürnberg, heldur sem „virðulegan Frantz Schmidt, lækni, frá Obere Wörhdstrasse“.

 

Fyrir böðul á miðöldum var það heiður sem fæstum hlotnaðist.

HÖFUNDUR: Else Christensen

© Bridgeman Images. © Lambeth Palace Library/Bridgeman Images & AxelHH at de.wikipedia/Wikimedia Commons. © HISTORIE/arkiv. Meißen/Wikimedia Commons. © The Granger Collection/Ritzau Scanpix/Farvelagt af Historie. © Slate magazine/Attributed to Staatsarchiv Nürnberg/Wikimedia Commons. © Album/Ritzau Scanpix. © Akg-Images/Ritzau Scanpix & Shutterstock. © Wilhelm Camphausen/akg-images. © Staatsarchiv Nürnberg, Reichsstadt Nürnberg, Losungamt, 35 neue Laden, Urkunden 1979, AI/Midjourney/Historie & Shutterstock. © Photo12/Archives Snark, Photo 12/Imageselect.

Náttúran

Bakteríur örva ilminn af sumarregni

Maðurinn

Af hverju sjá sumir drauga en aðrir ekki?

Heilsa

10 matvæli með meira C-vítamín en appelsínur

Maðurinn

Þráhyggja tekur heilann í gíslingu

Alheimurinn

Stjörnufræðingar leita langt eftir svörum: Er líf í alheiminum?

Heilsa

Hvers vegna verður okkur kalt þegar hitinn hækkar?

Náttúran

Bakteríur grafa eftir gulli

Lifandi Saga

Barbarossa: Illskeyttur sjóræningi soldánsins fór ránshendi á Miðjarðarhafi

Maðurinn

Gleymdu erfðum og umhverfi: Persónuleikinn stafar af tilviljunum

Maðurinn

Af hverju hressumst við af koffeini?

Maðurinn

Ný tækni les hugsanir

Lifandi Saga

Bernska útilegunnar

ÁSKRIFT AÐ VÍSINDI.IS

Prófaðu í 14 daga ókeypis!

  • Fullur aðgangur að vefnum okkar með rúmlega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Lifandi vísindi/Lifandi saga í rafrænni útgáfu á vefnum,
  • Aðeins 1.790 krónur á mánuði.
  • Engin skuldbinding – Þú getur hætt hvenær sem er.

ÁSKRIFT AÐ TÍMARITINU

Þrjú tölublöð + gjöf: Skemmtilegur sjónauki
  • Þrjú næstu tölublöð Lifandi vísinda/Lifandi sögu – sent heim til þín – eins færðu lítinn og vandaðan sjónauka að gjöf.
  • Fullur aðgangur að vefnum okkar – visindi.is – með tæplega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Spennandi greinar og flottar myndir sem svala forvitni þinni.
  • Þú getur hætt eftir tilboðið en ef þú heldur áfram skuldbindur þú þig aðeins þrjú tölublöð í einu og þú getur sagt upp hvenær sem sem og klárar þá tímabilið sem er hafið.
  • Venjuleg áskrift – þrjú tölublöð – kostar aðeins 7.590 kr

Sjónauki og þriggja blaða áskrift – Alls 3.800 kr.

Lifandi vísindi

Lyf

Lifandi saga

Search

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Innskráning

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Viltu lesa greinina?

Fáðu aðgang að visindi.is

Ókeypis í 2 vikur!

Eftir það kostar eingöngu 1.790 kr. á mánuði og enginn uppsagnarfrestur.

Innifalið er aðgangur að öllum greinum á vefnum ásamt rafræna útgáfu af nýjustu tölublöðunum.

  • Fullur aðgangur að visindi.is
  • Frábærar myndir og myndbönd
  • Aðgengilegt í öllum snjalltækjum
  • Fullur aðgangur að gríðarlegu magni eldri greina
  • Nýjustu tölublöðin í rafrænu formi

Núverandi áskrifendur að tímaritinu fá að sjálfsögðu ókeypis aðgang að vefnum og þurfa bara að virkja aðgang sinn hér.

Ef þú ert þegar áskrifandi að visindi.is