Leikfangaframleiðandinn Mattel var fórnarlamb afar neikvæðrar umræðu árið 1992 og reiði fólks beindist að Teen Talk Barbie-brúðu fyrirtækisins. Þegar börnin ýttu á hnapp á baki dúkkunnar sagði hún t.d.:
„Mér finnst stærðfræði svo erfið“ og „Er nokkurn tímann hægt að eignast nógu mikið af fötum?“
Bandarískir stærðfræðikennarar, svo og jafnréttindasamtök á borð við Félag bandarískra háskólakvenna, voru mörg hver þeirrar skoðunar að setningarnar lítillækkuðu stúlkur.
Til að lægja öldurnar bauðst Mattel til að skipta talandi brúðunum út fyrir þöglar dúkkur, viðskiptavinunum að kostnaðarlausu en hópur ögrandi listamanna sem kölluðu sig Frelsissamtök Barbie-dúkkunnar, töldu óhæft að láta framleiðandann sleppa svo auðveldlega.
Skömmu fyrir jól árið 1993 keyptu listamennirnir dúkkurnar í hundraðatali og skiptu út talbúnaðinum í þeim. Þegar litlar bandarískar stúlkur opnuðu jólapakkana sína og ýttu á takkann á Teen Talk Barbie-dúkkunni, mátti heyra karlmannsrödd hrópa: „Ég drep þig, Cóbra!“ og „Ég mun hefna mín!“
Málaliðar vildu komast á ströndina
Karlmannsröddin átti rætur að rekja til annars leikfangs en með því er átt við leikfangabrúðuna G.I. Joe sem framleidd var hjá leikfangaframleiðandanum Hasbro. „Cóbra“ var heitið á glæpagengi og voru meðlimir þess helstu óvinir G.I. Joe. Frelsissamtök Barbie-dúkkunnar höfðu fest kaup á ógrynni af Barbie-brúðum, svo og G.I. Joe-brúðum og haft skipti á talbúnaðinum í þeim.
Að því loknu var öllum dúkkunum komið fyrir í upprunalegu öskjunum og þær settar í hillur stórverslana í New York og Kaliforníu. Þessi gjörningur hópsins hlaut mikla umfjöllun í dagblöðum.
Þessar hugvitssamlegu brúður njóta vinsælda sem minjagripir og flestir tengja þær beint við Rússland, þó svo að hugmyndin að þeim eigi rætur að rekja miklu austar.
„Á meðan Barbie er óvægin í tali, fer G.I. Joe á búðaráp“, stóð m.a. í fyrirsögn dagblaðsins The New York Times hinn 31. desember 1993.
Þegar Barbie-dúkkurnar hrópuðu skipanir í líkingu við „Árás“ talaði G.I. Joe um að „ströndin væri besti staðurinn á sumrin“. Hvorugt fyrirtækjanna Mattell eða Hasbro valdi að fara í mál við Frelsissamtök Barbie-dúkkunnar.