Stoltið er að springa í brjósti þýsku skriðdrekasveitanna. Þær hafa náð fram að eystri bakka Meuse fljótsins nærri bænum Sedan þegar flokkar Stuka sprengjuflugvéla þjóta yfir höfðum þeirra morguninn 13. maí 1940. Nokkrum sekúndum seinna steypa sprengjuflugvélarnar sér niður með ærandi hávaða í átt að frönskum varnarvirkjum vestan megin við fljótið.
„Á sama tíma, eins og flokkur ránfugla, þjóta þær niður að fórnarlömbum sínum og sleppa sprengjunum. Í hvert sinn eru sprengingarnar yfirþyrmandi og hljóðið ærandi. Við stöndum eins og dáleiddir og fylgjumst með því sem gerist – fyrir framan okkur er búið að sleppa helvíti lausu!“ skrifar einn þýskur skriðdrekaliði síðar.
Myndskeið: Sjáðu og heyrðu í hinum ógnvænlegu Stuka vélum
Eftir að flugvélarnar hafa gert sínar árásir í nokkra tíma tekur þýska stórskotaliðið við með liðsinni skriðdrekanna og láta sprengjunum rigna niður. Hermennirnir fylgjast með eyðileggingu úr skjóli sínu milli trjáa og runna en svo heppinn er Walter Rubarth ekki.
Þessi 26 ára gamli liðþjálfi leiðir stormsveitarhóp með sex fótgönguliða og fimm verkfræðinga sem eiga að fara yfir Meuse og eyðileggja neðanjarðarbyrgi í fremstu varnarlínu óvinarins.
Hópurinn er staddur við stóra landareign nokkra kílómetra frá Sedan og safnar saman búnaði sínum. Gaddavírsklippur, sprengiefni og handsprengjur eru settar niður í þunga bakpokana, áður en mennirnir halda með létt vopn í höndunum í átt að Meuse.
„Við gröfum okkur ekkert niður. Annað hvort tekst þetta eða við deyjum!“
Walter Rubarth, 26 ára gamall þýskur liðsforingi.
Þjóðverjarnir þjóta yfir opið engi með augun límd á bakka fljótsins.
„Strax mætti okkur öflug skothríð frá hríðskotabyssum. Sumir voru skotnir. Með liðsafla mínum náði ég að bakka að Meuse og fann skjól á bak við tré“, greinir Rubarth síðar frá.
Þegar hópurinn nær að fljótsbakkanum er hann einungis með tvo óskemmda gúmmíbáta eftir sem eiga í mesta falli að geta borið þrjá menn hvor. Rubarth skipar auka manni niður í annan bátinn og hoppar sjálfur sem fjórði maður í hinn.
Þjóðverjar réðu ríkjum í lofti í bardaganum um Sedan
Þessi byrði reynist vera svo mikil að bátarnir sökkva næstum því þegar hermennirnir byrja að róa yfir 60 metra breitt fljótið. Rubarth verður að skipa hermönnunum að henda skotgrafarbúnaði fyrir borð.
„Við gröfum okkur ekkert niður. Annað hvort tekst þetta eða við deyjum!“ hrópar liðþjálfinn meðan kúlur óvinarins þjóta yfir höfðum þeirra.
Rubarth veit að þeir eru staddir í mikilli lífshættu en leiðangur þeirra er mikilvægur því að Þjóðverjar hyggjast leggja á flotbrýr fyrir skriðdrekana. Árásin við Sedan og skjót för yfir fljótið Meuse skiptir sköpum fyrir hernaðaraðgerð Hitlers „Fall Gelb“ (þ. hernaðaraðgerð gul).
Þetta er hugdjörf aðgerð sem varðar að senda meira en þúsund skriðdreka gegnum torfærur í Ardennaskógi, yfir Meuse fljótið og áfram inn í Frakkland. Takist hún liggur leiðin greið fyrir þýsk skriðdrekafylki sem með stuðningi sprengjuflugvéla munu knésetja Frakkland á mettíma.
Flugslys ógnar áætlun þýskra
Ríflega átta mánuðum áður en Þjóðverjar hófu leifturstríðið gegn Frakklandi höfðu þeir í september 1939 ráðið niðurlögum Pólverja með viðlíka leifturárás. Árásin á nágrannann í austri markaði jafnframt upphaf síðari heimsstyrjaldarinnar þegar Frakkland og Stóra Bretland lýstu yfir stríði gegn Þýskalandi.
Í kjölfarið á innrás Hitlers í Pólland fylgdi lengra tímaskeið – svokallaða draugastríðið – þar sem lítið var um hernaðaraðgerðir. Allir biðu í ofvæni eftir stóra bardaganum í Vestur-Evrópu. Á meðan Frakkar og Bretar undirbjuggu varnir sínar var þýska hernaðarvélin í fullum gangi að skipuleggja umfangsmikla árás á Holland, Belgíu, Lúxemborg og Frakkland.
Á pappírum var jafnt í liðum
Þjóðverjar höfðu enga yfirburði gagnvart Frökkum miðað við hertól en agi þeirra, betri nýting skriðdreka og flugherinn skipti sköpum – ásamt því að koma franska hernum algjörlega á óvart.
Frakkland
Hermenn. 2.240.000
Skriðdrekar. 3.383
Sprengjuflugvélar. 140 + 392 breskar
Orrustuflugvélar. 516 + 680 breskar
Stórskotalið. 13.974
Þýskaland
Hermenn. 3.000.000
Skriðdrekar. 2.445
Sprengjuflugvélar. 2.175
Orrustuflugvélar. 1.093
Stórskotalið. 7.378
Í byrjun janúar 1940 gekk innrásaraðgerðin út á að þýskur herafli átti að þrengja sér inn í miðja Belgíu en síðan snúa í suður og fara inn í Frakkland við fljótið Somme.
Örlög réðu því þó að þýsk flugvél þurfti að nauðlenda þann 10. janúar 1940 á engi í Maasmechelen í Belgíu – einungis viku fyrir ráðgerða innrás Hitlers. Um borð var majórinn Helmut Reinberger og var hann með möppu með háleynilegum innrásarplönum. Í örvæntingu reyndi majórinn að kveikja í pappírunum en belgískir landamæraverðir komu hjólandi á staðinn og tryggðu sér skjölin.
„Ef óvinurinn ræður yfir öllum þessum skjölum eru aðstæður okkar skelfilegar“, aðvaraði herstjóri Þjóðverja, Alfred Jodl.
Foringinn skiptir um strategíu
En Hitler lét ekki slá sig út af laginu. Þýski foringinn leit á þetta óhapp sem möguleika til að fylgja enn áhættusamari áætlun sem myndi koma óvininum algjörlega í opna skjöldu.
Í nokkra mánuði hafði Eric von Manstein unnið að hernaðaraðgerð: Þjóðverjar skildu gabba óvininn með því að marsera inn í Holland og Belgíu með stóran her sem hafði það verkefni eitt að njörfa niður herafla óvinarins. Á meðan myndi meginherinn – í formi 45 þýskra herdeilda, þar af sjö skriðdrekadeilda – læðast suður fyrir skógi vaxin Ardennafjöll og ráðast á Frakka nærri Sedan þar sem þeir áttu síst von á þýskri árás.
Þessi áhættusama aðgerð hreif Hitler sem valdi hernaðaraðgerð Mansteins í staðinn fyrir „Fall Gelb“.
Í frönsku herstjórninni var æðstráðandi hinn 67 ára gamli Maurice Gamelin og var hann harla ánægður með að Frökkum hafði tekist að fanga háleynilegu skjölin um áætlanir Þjóðverja. Þau staðfestu enn frekar hugmyndir hans um að óvinurinn hyggðist ráðast fram í gegnum miðja Belgíu – rétt eins og í fyrri heimsstyrjöldinni. Enda taldi Gamelin ógjörlegt að fara með hersveitir í gegnum Ardennaskóglendið.
Í síðari heimsstyrjöldinni var Eric Von Manstein einn af farsælustu herforingjum Hitlers.
Hershöfðingjar voru ósammála um árás
Hershöfðingjarnir Erich von Manstein og Franz Halder voru ósammála um hvernig bæri að sigra Frakkland. Halder leynir jafnvel áætlunum Mansteins í langan tíma í von um að Hitler myndi velja ráðagerð Halders.
Haustið 1939 var áætlun Þjóðverja fyrir innrás í Frakkland tilbúin. Herráðsforinginn Franz Halder hafði kokkað upp hina gömlu Schlieffen innrásaráætlun sem Þjóðverjar nýttu í fyrri heimsstyrjöldinni þegar þeir réðust inn í Belgíu og héldu þaðan að fljótinu Somme í Frakklandi.
Erich von Manstein hafði litla trú á að endurnýta þá áætlun og ígrundaði aðrar lausnir. Hann kannaði möguleikann á að ráðast í gegnum Ardennaskóg og ráðfærði sig við bryndrekahershöfðingjann Heinz Guderian sem þekkti þessar torsóttu slóðir frá fyrri heimsstyrjöldinni. Guderian taldi raunsætt að fara með sjö skriðdrekasveitir í gegnum skóginn og Manstein kynnti þessa áætlun fyrir Halder.
Herráðsforinginn var ekki par hrifinn og sendi Manstein til Austur-Prússlands til þess að tryggja að tillögur hans bærust Hitler aldrei til eyrna. En þegar Schlieffen áætlunin barst í hendur óvinanna breyttist allt. Nýjar hugmyndir voru kynntar fyrir Hitler, þ.á m. hernaðaraðgerð Mansteins og foringinn féll kylliflatur fyrir þessari hugdjörfu áætlun.
Snemma vors árið 1940 flutti Gamelin til heilan hersafnað í átt að ströndum Ermarsunds þannig að herdeildir gætu stormað inn í Belgíu og stöðvað þýska herinn þegar stríðið brytist út. Þýskar könnunarflugvélar uppgötvuðu ferðir franskra hermanna og tilkynning um þetta vakti mikla hrifningu hjá Hitler. Þann 9. maí sendi hann „Fall Gelb“ dulkóðann „Danzig“ til liðsveita sinna á vesturvígstöðvum.
Morguninn eftir hélt her Hitlers sem tálbeita undir forystu Fedor Von Bock hershöfðingja inn í Holland og norðurhluta Belgíu. Og herinn var varla kominn yfir landamærin þegar Gamelin fyriskipaði stórum hluta af her sínum – ásamt breskum liðsafla sem var staddur í Frakklandi – fram til fljótsins Dyle í Belgíu.
„Franski herinn hefur dregið upp sverð sitt“, lýsti franski forsætisráðherrann Paul Reynoud stoltur yfir í útvarpinu þegar hann ávarpaði þjóðina.
Í millitíðinni gat Hitler varla verið ánægðari. „Ég hefði getað grátið úr gleði. Þeir stukku bókstaflega niður í gildruna“, sagði foringinn síðar í stríðinu.
Bryndrekar rúlla í gegnum skógana
Meðan sjónir Gamelins beindust að norðurhluta Belgíu og Hollands óku fyrstu af 1.222 þýskum skriðdrekum inn yfir landamæri Lúxemborg. Þaðan skáru þeir sér leið í gegnum Ardennaskóginn til að veita veikasta hlekki frönsku varnarinnar afgerandi högg við Sedan, þar sem mikla varnarlínan – Maginot línan – var hvað veikust fyrir.
Heinz Guderian hershöfðingi, foringi fremstu skriðdrekanna, fylgdist glaður með því hvernig þýskir skriðdrekar þrengdu sér fram á við eftir skógarvegum milli þúsunda trjáa, hvers greinar og laufblöð mynduðu grænt skjól yfir bryndrekunum. Fyrir ofan Ardennafjöll flaug flokkur Mersserschmitt orrustuflugvéla reiðubúinn til að ráðast á könnunarflugvélar Bandamanna.
Þýskir skriðdrekastjórar fengu það verkefni að aka bryndrekum sínum í gegnum Ardennafjöll.
Í hvert sinn sem farartæki eða skriðdreki bilaði sáu hermennirnir um að koma þeim skjótt út af veginum þannig að halda mætti skriðþunga sóknarinnar. Á eftir fyrstu tveimur skriðdrekunum fylgdu stormsveitarliðar á mótorhjólum og voru þeir fyrstir af alls 134.000 hermönnum sem áttu að taka þátt í yfirvofandi innrás.
Guderian til mikils léttis gekk allt vonum framar, þrátt fyrir að Þjóðverjar hafi síðar grínast með að þeir hafi skapað þarna „stærstu umferðarteppu í sögunni“.
Hvorki í lúxemborgíska eða suðausturbelgíska hluta Ardennafjalla mættu bryndrekasveitirnar annarri mótstöðu en gapandi skógarvörðum sem gátu ekkert gert gegn þessari yfirþyrmandi framrás.
„Við berjumst ekki um svæðið, við streymum bara í gegnum það“, skrifaði ungur þýskur verkfræðingur heim í bréfi.
Eftir því sem Þjóðverjar nálguðust frönsku landamærin tóku franskir njósnarar eftir umsvifunum en þeir gerðu sér alls ekki grein fyrir því hvað var í vændum.
„Við nýtum stöðuna til að ráða niðurlögum manna í skotbirgjum með handsprengjum okkar“.
Walter Rubarth, 26 ára þýskur liðsforingi sem var í stormsveitunum.
Hitler var í sjöunda himni að kveldi 11. maí. Njósnaskýrslur bárust með upplýsingum um að hjá Frökkum „væru engin merki um stærri liðsflutninga“, rétt eins og að lofther óvinarins væri „furðulega aðgerðalaus“.
Það var fyrst næsta dag þegar að fremstu þýsku skriðdrekasveitirnar rúlluðu inn yfir franska jörð sem Gamelin og foringjar hans sáu að það væri kannski góð hugmynd að senda nokkrar sveitir í átt að Sedan. Vandinn var bara sá að liðsaflinn myndi í fyrsta lagi ná þangað á þremur dögum. Á þeim tímapunkti væri of seint að bjarga Sedan og stöðva óvininn við Meuse fljót.
Varnir franskra riðlast
Gamelin hafði fyrirskipað að Sedan skildi verja „af öllum mætti“ en bærinn og svæðið í kringum hann var varið af gömlum varaliðssveitum sem misstu móðinn, lögðu skjótt niður vopn og flúðu úr fremstu varnarvígjum bæjarins.
Síðari hluta dags þann 12. maí yfirgáfu Frakkarnir næstum alla Sedan en vegna stöðu hennar á austurbakka Meuse yrði nær ómögulegt að verja hana fyrir skriðdrekum Guderians. Þess í stað sprengdu Frakkar allar brýr yfir fljótið áður en þeir víggirtu sig í skotbyrgjum á vesturbakkanum.
„Víglínan við fljótið virðist vera vel tryggð á breiðu svæði“, útskýrði næstráðandi hersins, Alphonse Georges, hershöfðingi fyrir yfirmanni sínum Gamelin.
Í maí árið 1940 komu þýsk skriðdrekafylki frönskum erkifjendum sínum algjörlega í opna skjöldu.
Charles Huntziger hershöfðingi sem leiddi 2. franska herinn við Meuse fljót, var einnig bjartsýnn. Og það þrátt fyrir að hermenn hans hefðu að kvöldi 12. maí heyrt stöðugar drunur frá hundruðum skriðdreka sem tóku sér stöðu við Sedan og í skógunum norðan og sunnan við bæinn.
Næsta morgun klukkan 7.15 hófst síðan raunverulegt leifturstríð Þjóðverja sem átti eftir að mola varnir Frakka á mettíma. Sprengjum úr þýskum flugvélum rigndi niður yfir varnarvirkin og Edmond Ruby hershöfðingi í 2. her Frakka var í áfalli yfir því hvaða áhrif þetta sprengjuregn hafði á varnarlið hans við Sedan:
„Loftvarnarskytturnar hættu að skjóta og hentu sér niður á jörðina. Fótgönguliðið grúfði sig ofan í skotgröfum sínum. Fimm klukkustundir af þessum hryllingi var nóg til að þeir buguðust alveg. Þeir voru algjörlega ófærir um að mæta fótgönguliði óvinarins sem nálgaðist óðum.
Rubarth heldur á land á vesturbakkanum
Þrátt fyrir að sprengiregnið hefði þynnt út varnir Frakka fannst Walter Rubarth alls ekki sem mótspyrnan væri sem lömuð. Þessi 26 ára gamli þýski liðþjálfi var ásamt liðsmönnum sínum á leiðinni yfir Meuse fljót í tveimur gúmmíbátum. Rubarth og menn hans réru sem ættu þeir lífið að leysa meðan skothríð úr vélbyssum óvinarins þaut um eyru þeirra.
Skotin komu einkum úr einu neðanjarðarbyrgi sem var beint fyrir framan Þjóðverjana. Rubarth fyrirskipaði því vélbyssuskyttu sinni að skjóta látlaust á skotbyrgið. Hávaðinn úr vélbyssunni var ærandi í litla gúmmíbátnum en þetta skelfilega vopn tryggði að Þjóðverjar komust heilu og höldnu á hinn bakkann.
Rubarth stökk úr gúmmíbátnum og þaut í átt að skotbyrginu þar sem hann náði að henda handsprengju inn um skotrauf, þannig að allir þar inni létu lífið.
Stormsveitir með sprengiefni sprengdu upp mörg varnarvígi í bardaganum um Sedan.
Meðfram bökkunum voru fleiri neðanjarðarbyrgi og stormsveitirnar fengu það verkefni að eyða þeim. Rubarth og hans menn skriðu varlega að næsta skotbyrgi og réðust aftan að því til að koma fyrir sprengiefni á berskjölduðum stað í byggingunni.
„Á næstu sekúndu tætist hluti af skotbyrginu í sundur. Við nýtum aðstæður með því að henda handsprengjum inn í það. Eftir stuttan bardaga koma nokkrir Frakkar út með hvítan fána og fáeinum sekúndum síðar blaktir hakakrossinn okkar yfir skotbyrginu. Hinum megin á bakkanum hrópa félagar okkar af gleði“, sagði Rubarth síðar.
Eftirmiðdaginn þann 13. maí náðu landar Rubarths fótfestu á vesturbakkanum. Mannfallið í fyrstu árásarbylgju Þjóðverja var mikið en þegar búið var að tryggja brúarsporðana fóru verkfræðingasveitir strax að smíða flotbrýr sem skriðdrekarnir gátu ekið yfir.
„Ég mun alltaf vera sá sigraði við Sedan“
Charles Huntziger, leiðtogi 2. franska hersins við Meuse-línuna.
Á sumum svæðum héldu þýsku brynsveitirnar hratt áfram að næstu varnarvígjum Frakka þar sem skothríð skriðdrekanna olli glundroða meðal varnarsveitanna. Einn slíkur staður var við bæinn Bulson, fimm kílómetra suðvestur af Sedan þar sem Edmond Ruby úr öðrum her Frakka var staddur:
„Bylgja af óttaslegnum flóttamönnum, stórskotaliði og fótgönguliði, margir vopnlausir en báru vaðsekki, flýttu sér niður veginn frá Bulson“. „Skriðdrekarnir eru við Bulson,“ hrópuðu þeir. Sumir skutu af skammbyssum sem brjálaðir væru. Liðsforingjarnir koma hlaupandi með mönnunum. Þarna voru vélbyssuskyttur og fótgönguliðar, glórulausir úr skelfingu“.
Annar franskur hershöfðingi skráði hjá sér að „… frá klukkan 18 og 19 þróuðust aðstæður með ótrúlegum hraða í algert öngþveiti.
Æðsti hershöfðingi 2. hers frakka, Huntzigur, var þó furðulega rólegur þegar honum var tilkynnt um að Þjóðverjar væru komnir yfir Meuse. „Þá náum við bara fleiri föngum“, sagði hershöfðinginn.
Einum sólarhring síðar var komið annað hljóð í strokkinn.
Fylgstu með orrustunni – Sedan féll á mettíma:
Þýskarar halda inn í Sedan
Á tveimur sólarhringum lagði Heinz Guderian hald á Sedan þökk sé skilvirku sprengiregni á bæn og umlykjandi varnarvirki Frakka. Þessi árangur fól í sér að skriðdrekaherdeildin gat farið yfir fljótið Meuse.
Hermenn taka sér stöðu
Bryndeildir Guderians taka sér stöðu í og utan við Sedan þann 12. maí. Frakkar hafa safnast saman vestan megin við Meuse og hafa þannig fyrirfram gefið upp mestan hluta Sedan sem liggur einkum austan við fljótið.
Sprengiregn hefst
Með Stuka sprengiflugvélum byrjar Luftwaffe kl. 7.15 þann 13. maí að sprengja frönsk varnarvirki vestan megin við Meuse. Fallbyssur og skriðdrekar leggja sitt af mörkum í eldregni sem varir næstum átta klukkutíma.
Stormsveitir tryggja brúarsporð
Þýskar stormsveitir blása til sóknar við Meuse og tryggja brúarsporða á nokkrum stöðum þann 13. maí á vesturbakka fljótsins. Með tilkomu flotbryggja fara brynsveitir yfir fljótið báðum megin við Sedan.
Gagnárás misheppnast
Frakkar reyna þann 14. maí með stuðningi breskra sprengjuflugvéla að eyðileggja flotbrýr Þjóðverja og stöðva framrás þeirra. Aðgerðin misheppnast og skriðdrekasveitir Guderians leggja undir sig Sedan og geta haldið áfram í vesturátt.
Þýskarar halda inn í Sedan
Á tveimur sólarhringum lagði Heinz Guderian hald á Sedan þökk sé skilvirku sprengiregni á bæn og umlykjandi varnarvirki Frakka. Þessi árangur fól í sér að skriðdrekaherdeildin gat farið yfir fljótið Meuse.
Hermenn taka sér stöðu
Bryndeildir Guderians taka sér stöðu í og utan við Sedan þann 12. maí. Frakkar hafa safnast saman vestan megin við Meuse og hafa þannig fyrirfram gefið upp mestan hluta Sedan sem liggur einkum austan við fljótið.
Hermenn taka sér stöðu
Bryndeildir Guderians taka sér stöðu í og utan við Sedan þann 12. maí. Frakkar hafa safnast saman vestan megin við Meuse og hafa þannig fyrirfram gefið upp mestan hluta Sedan sem liggur einkum austan við fljótið.
Hermenn taka sér stöðu
Bryndeildir Guderians taka sér stöðu í og utan við Sedan þann 12. maí. Frakkar hafa safnast saman vestan megin við Meuse og hafa þannig fyrirfram gefið upp mestan hluta Sedan sem liggur einkum austan við fljótið.
Gagnárás misheppnast
Frakkar reyna þann 14. maí með stuðningi breskra sprengjuflugvéla að eyðileggja flotbrýr Þjóðverja og stöðva framrás þeirra. Aðgerðin misheppnast og skriðdrekasveitir Guderians leggja undir sig Sedan og geta haldið áfram í vesturátt.
Gagnárás endar hörmulega
Það að þýskir skriðdrekar og herlið væri komið yfir Meuse markaði ekki nauðsynlega endalokin, ef Frakkarnir gætu aðeins gert skjóta gagnárás. En vandi Gamelins var sá að hjálparsveitir voru ennþá of langt í burtu – ásamt því að örvænting hafði gripið um sig í fremstu víglínu Frakka. Loftárásir Þjóðverja á margar fjarskiptalínur gerðu ruglinginn og óttann enn meiri.
Besti möguleiki Frakka morguninn þann 14. maí var að eyðileggja flotbrýr Þjóðverja úr lofti og stöðva þannig framrás skriðdrekanna. 152 sprengjuflugvélar og 250 orrustuflugvélar frá breska og franska flughernum tóku nú á loft og stefndu til Meuse. Þjóðverjum hafði þá tekist að koma upp svo mörgum flotbrúm að þeir höfðu rofið 80 km varnarlínu Frakka. Skotmörk flugmanna voru því æði mörg.
Þjóðverjar höfðu þó búið sig undir slíka gagnárás. Loftvarnarbyssum var komið í stöðu og Messerschmitt Bf 109 orrustuflugvélar sveimuðu ofar í loftinu. Fyrsta árás Bandamanna með 19 breskum Battle sprengjuflugvélum flaug beint inn í slátrun yfir Meuse. Níu flugvélar voru skotnar niður af loftvarnarbyssum þegar þær gerðu árás á flotbryggjurnar og aðrar tvær voru gerðar óvígar af þýskum orrustuflugvélum.
Þýskarar gátu farið yfir Meuseánna þökk sé flotbrúm.
Í einni þeirra sat J. F. Hobbler: „Bf 109 réðist á okkur og skaut í tætlur. Allt sem ég gat gert var að reyna að halda flugvélinni á lofti, því við flugum svo lágt að ekki var hægt að stökkva út í fallhlíf. Fyrir neðan okkur mátti sjá þýska hermenn í brynvögnum æða fram og þegar við nálguðumst jörðina tókum við eftir að jafnvel létt skotvopn náðu að skjóta á okkur“, sagði flugmaðurinn sem fékk slæm brunasár í nauðlendingunni en var bjargað af frönskum hermönnum í skóginum vestan við Sedan.
„Hinn særði Hobbler var fluttur til höfuðstöðva Alphonse Georges hershöfðingja til aðhlynningar. Þar ríkti harla döpur stemning. Næstráðandi Gamelins varð að viðurkenna að gagnárás dagsins hafði endað í harmleik. Næstum helmingur allra sprengjuflugvélanna var skotinn niður og ekki hafði tekist að eyðileggja flotbrýr svo nokkru skipti. Þýskir skriðdrekar æddu áfram yfir Meuse – tilbúnir til að leggja undir sig Frakkland.
„Þeir hafa rofið fremstu víglínu okkar við Sedan! Það er algjört hrun í okkar liði“, staðhæfði Georges í samtali við Gamelin og sagði franskur liðsforingi að þá hafi Georges „sest niður í stól og brostið í grát“.
Huntziger hvers 2. hersafnaður var dreifður út um hvippinn og hvappinn gerði sér grein fyrir ósigrinum þetta sama kvöld.
„Ég mun alltaf vera sá sigraði við Sedan“, andvarpaði hann mæðulega.
Þessi hugdjarfa árás í gegnum Ardennaskóg hafði gjörsamlega komið frönskum her á óvart og leiðin var nú opin fyrir Guderian og brynsveitir hans.
Guderian nær til strandar
Franska herráðið var sannfært um að brynsveitir óvinarins myndu halda áfram inn í mitt Frakkland og þaðan til Maginot-línunnar í vestri. En Guderian stýrði þess í stað sveitum sínum í átt að Ermarsundi til þess að skera af franskar og breskar hersveitir í Belgíu.
Skriðdrekarnir æddu nú áfram og brutu niður tilfallandi andspyrnu sem þeir mættu. Eiginlega var það einungis Panzer 4 skriðdreki Þjóðverja með sína 75 millimetra fallbyssu sem gat staðið vel vopnuðum Char B bryndreka Frakka snúning. En skriðdrekar Guderians voru ævinlega saman í stórum hópum og því var við ofurefli að etja. Auk þess voru þýskar brynsveitir mun betur þjálfaðar og þeir höfðu yfir að ráða fjarskiptabúnaði sem auðveldaði samstarf þeirra þegar ráðist var á þær.
Brynsveitum Frakka var einfaldlega slátrað og í einu af vélvæddu fótgönguliði Þjóðverja sem fylgdi skriðdrekunum eftir horfði leutinantinn Alexander Stahlberg á „rústirnar af sigruðum frönskum her: sundurskornum farartækjum, ónýtum skriðdrekum, yfirgefnum fallbyssum, endalaus röð eyðileggingar“.
Þýskur korporáll skrifaði í bréfi sem hann sendi heim að „vissulega má sjá fáeina þýska skriðdreka þarna á milli en þeir eru ótrúlega fáir“.
Helsti vandi brynsveita Þjóðverja fólst í að geta fyllt skriðdrekana af eldsneyti á leiðinni og oft bar við að skriðdrekarnir biðu í röðum við franskar bensínstöðvar meðan svartklæddir áhafnarmeðlimir skriðdrekanna fengu fágæta hvíld.
Við hátíðahöldin í óperunni var Göring sem var hermarskálkur þá þegar, útnefndur ríkismarskálkur fyrir stórþýska ríkið.
Hitler útdeildi fínum titlum
Þýski foringinn lék á als oddi eftir skjótan sigur á Frakklandi. Þess vegna útnefndi hann ekki færri en tólf hershöfðingja sem hermarskálka við mikla athöfn í Kroll óperunni í Berlín.
Þann 19. júlí 1940 voru mikil hátíðahöld í Kroll óperunni í Berlín. Þar var þó ekki verið að flytja verk eftir Wagner heldur voru það 12 hershöfðingjar sem gegndu aðalhlutverki í orrustunni gegn Frakklandi.
Von Bock og von Rundstet sem leiddu þýska herinn inn í Benelux og Frakkland voru tveir af þessum 12 útvöldu sem Hitler heiðraði og gerði að hermarskálkum. Það var í fyrsta sinn í stríðinu sem nokkur fékk þennan háæruverðuga titil að launum fyrir frammistöðu í stríði.
Það sem eftir lifði stríðs útnefndi Hitler aðeins tólf aðra hermarskálka. Það sem gerði athöfnina í Kroll óperunni sérstaka var undirstrikað með því að þýski keisarinn heiðraði einungis fimm hershöfðingja í fyrri heimsstyrjöldinni með þessari nafnbót.
Guderian sem hafði farið fremstur í flokki í innrásinni í Frakklandi var ekki nógu hátt settur til að vera útnefndur hermarskálkur. Þess í stað var skriðdrekaforinginn útnefndur hershöfðingi – einu skrefi frá hermarskálki.
Andspyrna átti sér einungis stað við fáeina bæi eftir því sem brynsveitirnar nálguðust Ermarsund.
„Fyrir framan okkur flýja þeir á hlaupum, Frakkar og Englendingar – verðugir andstæðingar í fyrri heimsstyrjöldinni – sem vilja ekki berjast við okkur núna“ sagði þýskur herforingi sem tók eftir því að svæðin sem „menn börðust um í áraðir árin 1914-18“ er nú búið að hertaka „á fáeinum tímum“.
Þann 20. maí – minna en tíu dögum eftir að brynsveitirnar höfðu brotist út úr Ardennaskógunum – gátu fremstu sveitir Guderians nú vaðið út í Ermarsund. Þeir höfðu skapað braut yfir Norður-Frakkland sem þýskarar nefndu „Panzer Corridor“. Að baki hennar voru 400.000 Bandamenn í norðaustur Frakklandi og Belgíu innilokaðir á litlu svæði – án þess að geta komið Frakklandi til bjargar.
Þann sama dag setti Reynaud herforingja sinn Gamelin af en í raun og veru var bardaginn við Frakkland þá fyrir löngu tapaður.
Nokkuð sem Reynaud hafði fáum dögum áður tilkynnt Winston Churchill: „Við erum sigraðir. Leiðin til Parísar liggur opin“.
Eftir uppgjöf Frakka marseraði þýski herinn í gegnum götur Parísar.
Eftirmáli: París féll 14. júní og 22. júní ákvað franska forystan opinberlega að leggja niður vopn. Á aðeins sex vikum hafði Hitler sigrað eitt af stórveldum Evrópu og hefndi hins bitra ósigurs í fyrri heimsstyrjöldinni. Hinn 26 ára gamli liðþjálfi Walter Rubarth fékk riddarakrossinn fyrir framgöngu sína við Meuse en lést árið eftir í innrás Þjóðverja í Sovétríkin.
LESTU MEIRA UM FALL GELB
- Alistair Horne: To Lose a Battle: France 1940, Penguin, 2007
- Philip Warner: The Battle for France: Six Weeks That Changed the World, Pen & Sword Military, 2010