Hunangsflugur eru vel þekktar fyrir það gagn sem þær gera í náttúrunni. Og nú má kannski bæta einu atriði við afrekaskrána.
Sú er alla vega niðurstaða rannsóknar við Michiganháskóla í BNA þar sem vísindamenn hafa prófað hæfni flugnanna til að þekkja lykt af lungnakrabba sem er meðal banvænustu krabbameina.
Eftirlíking af útöndun
Vísindamennirnir notuðu dauf lyktarefni til að skapa eftirlíkingu af tvenns konar útöndun. Í öðru tilvikinu var notað efni sem tengist krabbafrumum en í hinu var líkt eftir andardrætti heilbrigðs einstaklings.
Næst voru 20 býflugur látnar lykta. Þeim var haldið föstum og lítil rafóða tengd heilanum til að mæla viðbrögð heilans við lyktinni af andardrættinum.
Og viðbrögðin reyndust mismunandi.

Hunangsflugunum var haldið föstum í þrívíddarprentaranum á meðan á tilrauninni stóð, þar sem þær áttu að finna lykt af krabbameini.
Fundu mjög veika lykt
Býflugur hafa svo öflugt lyktarskyn að þær geta gert greinarmun á frumum eftir lyktinni. Tilraunin leiddi í ljós að þær geta fundið lykt af krabbafrumum, jafnvel þótt afar lítið sé af lyktarefni frá þeim í loftinu.
Vísindamennirnir gerðu líka breytingar á lyktinni til að athuga hvort flugurnar sýndu viðbrögð við breytingunni, svo og til að sjá hversu mikið mætti þynna lyktarefnið í loftinu áður en flugurnar hættu að skynja það.
Og lyktarefnið mátti þynna niður í einn milljarðasta.
„Býflugurnar fundu lyktina í afar lítilli þéttni. Þetta voru mjög afgerandi niðurstöður,“ segir Debajit Saha prófessor við Michiganháskóla sem var í hópi rannsakendanna í fréttatilkynningu.
Vísindamennirnir áætla nú að uppgötva flóknar blöndur líffræðilegra bendla og jafnvel lungnakrabbamein á frumstigi. Þar með kynnu býflugur nú að ryðja brautina fyrir nýjar aðferðir til að úrskurða hvort krabbamein á frumstigi leynist í lungum.