Lifandi Saga

Charles Dickens bjargaði jólunum frá bráðum dauðdaga

Þegar Charles Dickens lýsti stéttskiptu lífinu í London á Viktoríutímanum lagði hann sitt eigið líf til grundvallar. Þetta átti einnig við í bók hans „Jóladraumur“. Hér ætlum við að kynnast rithöfundinum sem skapaði jólin eins og við þekkjum þau í dag.

BIRT: 22/12/2024

Vissuð þið að Charles Dickens skrifaði fyrstu nútímalegu spennusöguna, kenndi okkur öllum að bjóða „gleðileg jól“ og skrifaði af svo mikilli ástríðu að ritsnilldin dró hann að lokum til dauða?

 

Charles Dickens vildi vera jarðsettur í kyrrþey en hlaut þess í stað opinbera útför í Westminster Abbey.

Bláa bókin

Nafn: Charles Dickens

 

Fæddur: 1812

 

Látinn: 1870

 

Þekktur fyrir: Raunsæjar og gamansamar skáldsögur sem lýstu skuggahliðum Lundúna á Viktoríutímanum.

 

Vissir þú,,,: Að Dickens gekk dag hvern ekki minna en 19 km á götum Lundúna? Á þessum ferðum sínum fékk hann hugmyndir að skáldsögum sínum og persónunum í þeim.

 

Charles Dickens dreymdi um að verða leikari en skorti hæfileikana. Þess í stað valdi hann að gerast rithöfundur.

Hvernig var London á dögum Dickens?

Á dögum Charles Dickens voru Lundúnir risavaxin stórborg sem allt frá árinu 1825 og nánast alla næstu öld taldist vera sú stærsta í heimi, með milljónir íbúa. Þeir sem fluttust til borgarinnar voru aðallega fátæklingar og ungt fólk úr sveitum, sem leituðu þangað í leit að lífsviðurværi.

 

Þeir aðfluttu bjuggu líkt og aðrir lágstéttaríbúar í litlum, rökum og óþéttum híbýlum.

 

Rétt við hliðina á þeim fátæku bjuggu svo þeir alefnuðustu, m.a. yfirstéttarfólk sveitanna, sem notuðu stórhýsi sín eingöngu þegar komið var til borgarinnar til að sækja dansleiki og fylgjast með kappreiðum.

 

Í skáldsögunni „Litla Dorrit“ (1857) lýsti Dickens lífi þeirra ríku og fátæku, hlið við hlið í hverfinu umhverfis Covent Garden.

 

Þar var starfrækt „leikhús með stórkostlegum og skemmtilegum leikritum fyrir prúðbúnar konur og karla“ og þar var einnig að finna sölubása þar sem seld voru blóm fyrir „margar gíneur, svo og ananas á margar gíneur fyrir hvert pund“. Innan um allt fíneríið læðupokuðust „vansæl börn í tötrum (…) líkt og rottuungar, sem lifðu á sorpi og hnipruðu sig saman til að halda á sér hita“.

„Þokan var þykk og dimm. Íbúana í London verkjaði í augun, lungu þeirra voru viðkvæm og þeir blikkuðu augunum, hóstuðu og hnerruðu, líkt og þeir væru að kafna“.
Ritaði Charles Dickens um þykka loftmengunina í Lundúnum á 19. öld.

Bæði ríkir og fátækir liðu fyrir óhreinindin. Skolpræsakerfið varð ekki að veruleika fyrr en seint á öldinni og Lundúnabúar urðu að sætta sig við fnykinn af Temsá, en þar losuðu bæjarbúar sig við allt frá innihaldi næturgagnsins, yfir í dýrahræ og úrgang sláturhúsanna.

 

Loftið var blandað kolaryk og sóti sem barst frá verksmiðjunum og kolaofnum heimilanna. Við þetta bættist svo þokan sem iðulega grúfði yfir London, svo og mengunin sem tók á sig þykka, dökka og raka mynd, það sem heimamenn kölluðu baunasúpuna, sem sveipaði bæði menn og hús.

 

„Þokan var þykk og dimm. Íbúana í London verkjaði í augun, lungu þeirra voru viðkvæm og þeir blikkuðu augunum, hóstandi og hnerrandi, líkt og þeir væru að kafna“, ritaði Dickens í skáldsögu sinni „Our Mutual Friend“ (Sameiginlegur vinur okkar) (1864).

 

Hvaða menntun hlaut Charles Dickens?

Í daglegum gönguferðum sínum sá Dickens stéttaskiptingu London af eigin raun. Skáldsögur hans fjölluðu ávalt um spennuna milli ríkra og fátækra.

Dickens var sonur skrifstofumanns á launaskrifstofu breska sjóhersins og tilheyrði fyrir vikið miðstéttinni. Það lá því í augum uppi að hann hlyti góða menntun. Fyrstu skólaárunum varði Dickens í einkaskóla.

 

Þegar hins vegar Dickens var ellefu ára gamall, árið 1822, breyttist líf hans skyndilega.

 

Fjölskyldan hafði steypt sér í miklar skuldir og þurfti að yfirgefa heimilið í Portsmouth til að forðast innheimtumennina og fara síðan huldu höfði í Lundúnum. Tveimur árum síðar var feluleikurinn hins vegar á enda og föðurnum var varpað í skuldafangelsi.

 

Skólavist var ekki lengur á döfinni sökum fjárskorts. Þess í stað fékk Dickens vinnu í verksmiðju þar sem hann fékk sex skildinga á viku fyrir að líma miða á skósvertuílát í tíu tíma á dag.

 

Vinnan var erfið og umhverfið einkenndist af vonleysi.

 

„Byggingin sem stóð niðri við ána var að hruni komin og allt úði og grúði í rottum. Vistarverurnar, grautfúin gólfin og stigarnir, gömlu gráu rotturnar í kjallaranum og hljóðið sem myndaðist af trítli þeirra og hljóðunum sem þær gáfu frá sér á tröppunum sýknt og heilagt, svo og skíturinn og hnignunin, öllu þessu man ég svo ljóslifandi eftir, líkt og ég væri kominn þangað aftur“, sagði Dickens síðar meir.

Hinn 13. nóvember árið 1849 þyrptust 30.000 manns saman til að verða vitni að því er hjónin Marie og Frederick Manning1 voru hengd. Aftakan breyttist í raun í alþýðuskemmtun og varð til þess að rithöfundurinn Charles Dickens ritaði reiðilegt lesandabréf í dagblaðið Times.

Faðirinn fékk arf nokkrum mánuðum síðar sem gerði honum kleift að borga upp skuld sína. Hann losnaði fyrir bragðið úr fangelsinu og Dickens hélt skólagöngu sinni áfram.

 

Hann hlaut þó ekki neina formlega menntun og skelfingin yfir að hafa skyndilega lent á botni samfélagsins olli breytingum á Dickens, auk þess að sjá honum fyrir skáldsagnaefni sem dugði honum út ævina.

 

Í það minnsta ein persóna frá verksmiðjunni rataði inn í síðari skáldsögur rithöfundarins, en þar er átt við Bob Fagin, barnungan verkamann sem kynnti sig fyrir Dickens á fyrsta vinnudegi þess síðarnefnda og átti eftir að sjá skáldinu fyrir persónueinkennum þjófakóngsins sem bar sama heiti í skáldsögunni „Óliver Twist“.

 

Hvernig og hvenær hófst rithöfundaferill Charles Dickens?

Dickens hætti í skóla 15 ára gamall og fékk vinnu á lögfræðistofu.

 

Í frítíma sínum lærði hann hraðritun upp á eigin spýtur og sótti leikhúsin. Leikhúsið átti hug hans allan, en Dickens ól með sér þann draum að verða leikari. Honum tókst meira að segja að skipuleggja áheyrnarprufu í einu leikhúsanna í Covent Garden, en komst því miður ekki í prufuna sökum kvefpestar.

 

Þess í stað hófst Dickens handa við skriftir. Fyrsta verkefni hans fólst í að semja vikulegan útdrátt úr umræðum á þinginu fyrir tímaritið „Þingspegillinn“.

 

Síðar meir hlaut Dickens starf sem stjórnmálaskýrandi á dagblaðinu „Morning Chronicle“, eftir að hafa fengið meðmæli starfsbróður síns. Launin voru fimm gíneur á viku, upphæð sem jafngildir um 14.000 íslenskum krónum í dag, en sem nægði til að gera Dickens óháðan aðstoð föðurins, sem kominn var vel á veg með að skuldsetja sig á nýjan leik.

 

Jafnframt þessu ritaði Dickens stuttar sögur um Lundúnir og borgarbúana. Sögurnar voru birtar í dagblöðunum, ásamt litlum teikningum, m.a. eftir hann sjálfan.

,,Pickwick skjölin" gerði Dickens frægan. Skáldsagan var gefin út sem framhaldssaga í 19 köflum - einn á mánuði.

Hvernig öðlaðist Dickens viðurkenningu?

Teikningar Dickens vöktu athygli á honum og árið 1836 báðu útgefendurnir Chapman and Hall hann um að sjá þeim fyrir texta fyrir teiknaða framhaldssögu sem koma átti út einu sinni í mánuði.

 

Ásamt teiknaranum Hablot Knight Browne, sem var þekktur undir listamannsheitinu Phiz, samdi hann sögu sem gekk undir heitinu „The Pickwick Papers“ (Pickwick skjölin).

 

Sagan fjallaði um efnaðan ellilífeyrisþega að nafni Samúel Pickwick og ævintýri sem hann rataði í ásamt vinum og kunningjum.

 

Ætlunin var að teikningarnar mynduðu þungamiðju frásagnanna en velskrifaðar sögur Dickens réðu brátt ferðinni og teikningarnar voru þess í stað látnar laga sig að textanum.

Skáldsögurnar vöktu mikla hrifningu lesendanna, m.a. hinnar ungu drottningar Viktoríu. Hún vakti iðulega frameftir til að rökræða um atburðarásina í sögum Dickens, eða svo trúði hún dagbókinni sinni fyrir.

Fyrstu kaflarnir vöktu enga sérstaka athygli þegar þeir komu út en í fjórða kafla kynnti Dickens til sögunnar nýja persónu og þá varð ekki aftur snúið. Þetta var Sam Weller, skópússari sem varð dyggur þjónn og verndari Pickwicks, en hann varð fljótt vinsælasta persóna sagnanna.

 

Weller þessi var látinn tala greinilegt lágstéttarmál, „cockney“, mállýskuna sem verkamannastéttin í London talaði, og lesendur hlógu sig máttlausa af athugasemdum á borð við: „Nú er allt eins og það á að vera, eins og faðirinn sagði þegar hann skar hausinn af syni sínum til að lækna hann af rangeygðinni“.

 

Þökk sé persónunni Weller jókst salan á „Pickwick skjölunum“ svo um munaði. Sögurnar nutu svo mikilla vinsælda að síðasti kaflinn seldist í alls 40.000 eintökum.

Dickens notaði mörg lýsingarorð og krassandi lýsingar, í bland við álíka stóran skammt af alvöru og háði.

Dickens gerði grín að Viktoríutímabilinu

Dickens gleymdi aldrei því sem hann fékk að reyna í æsku. Í skáldsögum sínum lýsir hann aðstæðum þeirra sem minna máttu sín í þjóðfélaginu og leiddi í ljós misbeitingu þeirra sem forréttindanna nutu.

 

– „Pickwick-klúbburinn“ (1837)

Pickwick-klúbburinn er klúbbur piparkarla sem eiga sér tvö sameiginleg áhugamál: Ferðalög og hjónabönd. Mennirnir fjórir ákveða á fundi að halda út í heim til að vinna afrek þar sem þeir ganga í gegnum nánast óyfirstíganlegar þrengingar í þjónustu ástarinnar.

– „Oliver Twist“ (1837)

Sagan um hinn fátæka, munaðarlausa Oliver Twist, og vini hans í undirheimum Lundúna, lýsir ójöfnuði samfélagsins og útskýrir glæpi sem afleiðingar neyðar umfram siðleysis.

 

– „Barnaby Rudge“ (1841)

Sagan segir frá nokkrum andkaþólskum uppþotum sem áttu sér stað á 18. öld. Með því að leggja raunverulega atburði til grundvallar afhjúpar Dickens trúarlegt umburðarleysi, hjarðhegðun og þörf mannsins fyrir að notfæra sér stjórnmál í eigin þágu.

 

– „Jólaævintýri“ (1843)

Kaupmaðurinn Ebenezer Scrooge hugsar ekki um annað en að græða peninga og álítur jólin vera algeran óþarfa. Hann fær þrjá anda í heimsókn, anda fortíðarinnar, nútíðarinnar og framtíðarinnar. Þeir kenna Scrooge lexíu sem veldur straumhvörfum í lífi hans.

 

Hvaða áhrif hafði velgengnin á líf Dickens?

Vinsældirnar færðu Dickens samstundis frægð og frama í Lundúnaborg, raunar undir dulnefninu Boz:

 

„Boz stjórnar öllum bænum“, ritaði einn gagnrýnandinn.

 

Brátt úði og grúði í tilboðum um gróðavænlega útgáfusamninga. Næstu þrjú árin skrifaði Dickens og gaf út skáldsögurnar „Oliver Twist“, „Nicolas Nickleby“ og „Nelly og afi hennar“ (The Old Curiosity Shop). Skáldsögurnar vöktu mikla hrifningu lesendanna, m.a. hinnar ungu drottningar Viktoríu.

 

Hún vakti iðulega frameftir til að rökræða um atburðarásina í sögum Dickens, eða svo trúði hún dagbókinni sinni fyrir.

 

Velgengnin og tekjurnar sem fylgdu í kjölfarið komu á allra besta tíma, því árið 1836, þ.e. sama ár og útgáfa „Pickwick skjalanna“ hófst, gekk Dickens að eiga Catherine Thomson Hogarth, dóttur skosks ritstjóra og tónlistargagnrýnanda.

 

Catherine fæddi fyrsta barn þeirra hjóna í janúar 1837, son sem einnig var nefndur Charles. Næstu árin átti barnahópurinn eftir að telja tíu börn, sjö drengi og þrjár telpur.

Viktoría drottning og Dickens voru nánast jafn gömul. Drottningin unga gleypti í sig skáldsögur hans, sem áttu sér stað í heimabæ þeirra, Lundúnum.

Hvers vegna gaf Dickens skáldsögur sínar út sem framhaldssögur?

Dickens studdist við framhaldssöguformið því það gerði fleiri lesendum fjárhagslega kleift að kaupa sögurnar og eftirspurnin eftir lesefni jókst stöðugt á 19. öldinni í Englandi.

 

Betri tækifæri til að sækja sér menntun, einnig meðal barna af verkamannastétt, gerðu það að verkum að hlutfall þeirra íbúa landsins sem kunnu að lesa og skrifa fjölgaði stöðugt á öldinni. Einungis 53% Englendinga voru læsir árið 1800 en árið 1870 hafði þeim fjölgað upp í 76%.

 

Það að geta keypt staka kafla skáldsagnanna gerði það að verkum að meira að segja fátæklingar höfðu tök á að eignast bækurnar. Einn kafli af tiltekinni skáldsögu eftir Dickens var prentaður í dagblaði sem kostaði eitt penný, en hefðbundnar bækur kostuðu í þá daga gjarnan rúmlega 31 skilding, sem var hærri upphæð en verkamaður fékk útborgað á viku í London, en vikulaun þeirra voru þá jafnan á bilinu 20-30 skildingar.

 

Með því að láta hvern kafla enda á æsilegasta stað tryggði höfundurinn sér vitaskuld að lesendurnir gætu ekki annað en keypt framhaldið líka.

 

Velgengni Dickens varð jafnframt til þess að auka vinsældir framhaldssagnanna. Meðal annarra rithöfunda sem fylgdu dæmi hans, var Arthur Conan Doyle, sem ritaði fyrstu bækurnar sínar um Sherlock Holmes sem framhaldssögur.

Dauðinn var aldrei langt undan þegar Edgar Allan Poe átti í hlut. Þessi bandaríski sakamála- og hrollvekjuhöfundur fann upp hryllingssögu nútímans, jafnframt því sem hann missti alla þá sem voru honum kærir. 

Fann Dickens upp jólin, líkt og við þekkjum þau?

Segja má að Dickens hafi átt ríkan þátt að endurvekja jólin sem hátíð náungakærleikans og sameiningar.

 

Í bændasamfélagi miðalda höfðu jólin verið mikilvæg hátíð sem stóð yfir dögum saman og sem allir hlökkuðu til að njóta. Þetta átti ekki hvað síst við um stórar samkomur sem haldnar voru í salarkynnum óðalseigandans í sveitinni.

 

Á dögum Dickens höfðu jólin breyst í fábrotinn atburð sem einungis stóð yfir í einn dag. Öllu þessu breytti Dickens með skáldsögu sinni „Jóladraumur“, sem gefin var út árið 1843.

 

Í bókinni birtast þrír draugar á jólanótt hjá nískupúkanum og verslunareigandanum Ebenezer Scrooge. Draugarnir sannfæra Scrooge um að hann muni deyja aleinn og yfirgefinn ef hann læri ekki að sýna náungakærleik og gleðja aðra. Hinn óttaslegni Scrooge lætur sér segjast og áttar sig á að jólin eru rétti tíminn til að hefja nýtt líf.

 

„Ég vil heiðra jólin af öllu hjarta og gera mér far um að halda þau heilög allt árið um kring“, kallar hann um leið og hann eys gjöfum og girnilegum jólamat yfir fátækan ritara sinn, Bob.

Þökk sé Dickens urðu jólin að hátíð hjartans – sá tími ársins þegar jafnvel harðsvíraður kaupsýslumaður gefur eftir í gleði og kærleika.

Scrooge var ekki einn um að breytast. Bókin varð gífurlega vinsæl.

 

„Ef jólin með sína gömlu venjur á borð við gestrisni og náungakærleika voru í þann veginn að hverfa úr lífum okkar, þá er þetta bókin sem getur bjargað jólunum“, skrifaði rithöfundurinn Thomas Hood í hrifningu.

 

Meira að segja yfirstéttin og hirðin tóku upp nýja jólasiði sem einkenndust af hátíðarhöldum og kærleika í garð annarra. Þegar Viktoría drottning og eiginmaðurinn prins Albert tóku upp þann sið árið 1848 að vera með skreytt jólatré í höllinni, jukust vinsældir jólanna enn frekar.

 

Væntingar um jólaveður áttu einnig uppruna sinn hjá Charles Dickens. Í jólasögum sínum lýsti hann nefnilega ávallt hvítum jólasnjó.

 

Ástæðan hefur sennilega verið sú að Dickens upplifði í bókum sínum hamingjurík jól barnæskunnar. Sagnfræðingar hafa bent á að Dickens hafi alist upp á kaldasta áratugnum frá árinu 1690 og að það hafi snjóað á jólum öll æskuár Dickens.

Samkvæmt opinberu dánarvottorði lést Dickens úr heilablæðingu 9. júní árið 1870.

Hvers vegna lést Charles Dickens svo ungur?

Charles Dickens lést 9. júní árið 1870 af völdum heilablæðingar, einungis 58 ára að aldri.

 

Fimm árum áður hafði hann lent í mjög alvarlegu slysi þegar lest sem hann var farþegi í fór út af sporinu í grennd við Staplehurst í Kent. Tíu mann fórust í slysinu. Dickens slapp með minniháttar meiðsl og aðstoðaði við að hlúa að slösuðum farþegum. Slysið hafði djúpstæð áhrif á hann og hann sagðist aldrei hafa orðið samur maður eftir þetta.

 

Snemmbært andlát rithöfundarins stafaði þó sennilega fyrst og fremst af ofreynslu. Óttinn við að lenda í skuldafangelsi, líkt og faðirinn, olli því að hann vann mikið og reyndi um of á sig. Auk ritstarfanna las hann einnig upp oft og iðulega. Á tímabilinu frá desember 1867 til apríl 1868 kom hann t.d. fram alls 76 sinnum á upplestrarferð um Bandaríkin.

 

Þó svo að hann hafi hlýtt ráðum læknis síns um að hvíla sig eftir að hafa fengið slag árið 1869, hélt hann engu að síður áfram með upplestrana árið 1870. Einn af síðustu upplestrunum var í maí það ár þegar hann las m.a. fyrir prinsinn og prinsessuna af Wales, auk annarra áheyrenda.

 

Dickens missti meðvitund hinn 8. júní eftir að hafa varið heilum degi í skriftir á skáldsögunni „Edwin Drood“. Hann lést næsta dag.

 

Hann hafði óskað þess að verða jarðsettur í kyrrþey í kirkjugarði staðarins en fjölskyldan samþykkti að hann yrði lagður til hinstu hvílu í Westminster Abbey í London. Þar hvílir hann í svokölluðu „skáldahorni“, þeim hluta kirkjunnar sem er helgaður minningu fremstu skálda Englands.

 

Í ljós átti eftir að koma að óttinn við að enda sem allslaus fátæklingur var á engum rökum reistur. Uppgjör bús Dickens leiddi nefnilega í ljós að hann skildi eftir sig 80.000 pund, samsvarandi um 1,4 milljarði íslenskra króna á núvirði.

Lesið meira um Charles Dickens

Claire Tomalin: Charles Dickens: A Life, Penguin, 2011 

 

Peter Ackroyd: Dickens, Harper Collins, 1991

 

HÖFUNDUR: ELSE CHRISTENSEN

© Royal Academy of Arts,© Rare Historical Photos,© British Library,© Wikimedia Commons,© Heritage Auction Gallery,© Illustrierte Zeitung,© John Leech,© George Halter,© imon Burchell

Náttúran

Bakteríur örva ilminn af sumarregni

Maðurinn

Af hverju sjá sumir drauga en aðrir ekki?

Heilsa

10 matvæli með meira C-vítamín en appelsínur

Maðurinn

Þráhyggja tekur heilann í gíslingu

Alheimurinn

Stjörnufræðingar leita langt eftir svörum: Er líf í alheiminum?

Heilsa

Hvers vegna verður okkur kalt þegar hitinn hækkar?

Náttúran

Bakteríur grafa eftir gulli

Lifandi Saga

Barbarossa: Illskeyttur sjóræningi soldánsins fór ránshendi á Miðjarðarhafi

Maðurinn

Gleymdu erfðum og umhverfi: Persónuleikinn stafar af tilviljunum

Maðurinn

Af hverju hressumst við af koffeini?

Maðurinn

Ný tækni les hugsanir

Lifandi Saga

Bernska útilegunnar

ÁSKRIFT AÐ VÍSINDI.IS

Prófaðu í 14 daga ókeypis!

  • Fullur aðgangur að vefnum okkar með rúmlega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Lifandi vísindi/Lifandi saga í rafrænni útgáfu á vefnum,
  • Aðeins 1.790 krónur á mánuði.
  • Engin skuldbinding – Þú getur hætt hvenær sem er.

ÁSKRIFT AÐ TÍMARITINU

Þrjú tölublöð + gjöf: Skemmtilegur sjónauki
  • Þrjú næstu tölublöð Lifandi vísinda/Lifandi sögu – sent heim til þín – eins færðu lítinn og vandaðan sjónauka að gjöf.
  • Fullur aðgangur að vefnum okkar – visindi.is – með tæplega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Spennandi greinar og flottar myndir sem svala forvitni þinni.
  • Þú getur hætt eftir tilboðið en ef þú heldur áfram skuldbindur þú þig aðeins þrjú tölublöð í einu og þú getur sagt upp hvenær sem sem og klárar þá tímabilið sem er hafið.
  • Venjuleg áskrift – þrjú tölublöð – kostar aðeins 7.590 kr

Sjónauki og þriggja blaða áskrift – Alls 3.800 kr.

Lifandi vísindi

Lyf

Lifandi saga

Search

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Innskráning

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Viltu lesa greinina?

Fáðu aðgang að visindi.is

Ókeypis í 2 vikur!

Eftir það kostar eingöngu 1.790 kr. á mánuði og enginn uppsagnarfrestur.

Innifalið er aðgangur að öllum greinum á vefnum ásamt rafræna útgáfu af nýjustu tölublöðunum.

  • Fullur aðgangur að visindi.is
  • Frábærar myndir og myndbönd
  • Aðgengilegt í öllum snjalltækjum
  • Fullur aðgangur að gríðarlegu magni eldri greina
  • Nýjustu tölublöðin í rafrænu formi

Núverandi áskrifendur að tímaritinu fá að sjálfsögðu ókeypis aðgang að vefnum og þurfa bara að virkja aðgang sinn hér.

Ef þú ert þegar áskrifandi að visindi.is