Lifandi Saga

Dr. Kellogg rak út djöfulinn með kornflexi 

Í 50 ár héldu auðugir Bandaríkjamenn í pílagrímsferðir til doktor Kelloggs sem veitti þeim meðferð með fyrirbænum, grænmetisfæði og stólpípum. Doktorinn taldi kjöt örva hina djöfullegu kynhvöt. Því útbjó hann, ásamt bróður sínum Will, kjötlausan morgunmat: Kellogg´s Corn Flakes. En í stað þess að draga úr kynhvöt gerðu þessar gullnu flögur bræðurna að svörnum óvinum.

BIRT: 14/05/2023

Sólin er sest í Michigan, BNA.

 

Tveir menn hefja forkostulegt verk: Uppi á eldhúsborði stendur John Harvey Kellogg með fötu sem er full af soðnu hveiti- og maískorni.

 

Á gólfinu situr litli bróðir hans, Will Keith Kellogg, tilbúinn með hníf. John tæmir úr fötunni niður í trekt, hvaðan kornið rennur í gegnum vals sem er festur við eldhúsborðið.

 

John snýr sveif þannig að kornið pressast í flögur milli kefla valsins. Fyrir neðan skrapar Will flögurnar af með hnífi sínum svo að þær detta niður í skál.

 

Bræðurnir tveir rista flögurnar í ofninum í eldhúsinu þar til þær eru gullnar. Síðan bragða þeir á þeim. Allar eru stökkar og passlega bakaðar og bræðurnir eru nærri markmiði sínu: Að búa til næringarríkan morgunmat sem getur bæði unnið gegn hægðatregðu sem ótal Bandaríkjamenn þjást af og dregið úr kynhvöt manna.

 

Bræðurnir Kellogg eru ómeðvitaðir um að þessa nótt árið 1894 hafa þeir búið til fyrsta skammtinn af kornflögum.

 

Þessar gylltu flögur munu gera Will Kellogg að einum ríkasta manni Bandaríkjanna en velgengnin eyðileggur vináttu bræðranna varanlega.

Heilsuhælið var hollara en sjúkrahús

Margir læknar neituðu á 19. öld að trúa því að smit dreifðist með ósýnilegum bakteríum.

 

Því hreinsuðu þeir hvorki sloppa sína né tæki og tól eins og beinasagir eða skurðhnífa að aðgerð lokinni.

 

Sumir læknar litu á blóðugan slopp sem eins konar heiðursmerki er sýndi að læknirinn var fær í sínu blóðuga starfi.

 

Takmarkað hreinlæti var einnig útbreitt á Bellevue Hospital þar sem John Kellogg lærði til læknis. Þrátt fyrir að sjúkrahúsið hafi verið talið eitt það besta í Norður-Ameríku var dánartíðni sjúklinga umtalsverð.

 

Af varðveittum sjúkraskrám má ráða að árið 1876 voru 5.165 innlagðir – af þessum lifðu 4.313 nógu lengi til að útskrifast.

 

Þannig létust 16,5% sjúklinga við það að liggja á fremsta sjúkrahúsi landsins – ástæðan var einkum hörmulegt hreinlæti.

 

Lífslíkur manna við Battle Creek Sanitarium voru hins vegar 100%. Enginn sjúklingur eða heilsuhælisgestir létust í höndum doktor Kelloggs.

Heimsendir handan við hornið

Heilbrigt líferni skiptir öllu máli fyrir bræðurna Kellogg. John fæddist árið 1852 en Will 1860 og ólust þeir upp í Battle Creek, Michigan.

 

Borgin var eitt helsta vígi eins af kristnum trúflokkum BNA – Sjöundadags aðventistum.

 

Öll fjölskyldan Kellogg var rétt eins og stofnendur aðventista, hjónin Ellen og James White, algjörlega sannfærð um að dómsdagur væri í nánd og að leiðin til frelsunar gæti einungis orðið með heilbrigðu og kristilegu líferni.

 

Ellen White var spámaður aðventista og hún predikaði að aðgangur manna að paradís réðist af heilbrigðum líkama, þar sem mannslíkaminn væri Guðs gjöf.

 

Því varð söfnuðurinn að afneita kjöti, tóbaki og alkóhóli sem leiddi til syndugs lífernis og „ástands lægra en hjá dýrum“, eins og Ellen White skrifaði. Verst af öllu var sjálfsfróun.

 

Samkvæmt spámanni aðventista leiddi „sjálfsaurgun“ til blindu og krabbameins.

„Prótín magna upp sýkingar í líkamanum og eitra hann“.

John Kellogg um hættuna á að borða kjöt.

Í borginni Battle Creek var að finna mörg kristin heilsuhæli – aðventistarnir ráku Western Health Reform Institute – sem þúsundir Bandaríkjamanna sóttu heim til að stunda bænalíf og strangt mataræði í von um að losna við yfirþyngd, háan blóðþrýsting og stress.

 

Skóladrengurinn John Kellogg fékk sumarvinnu í prentsmiðju White hjónanna sem setjari en drengurinn var svo innblásinn af skrifum Ellen White að hann gerðist grænmetisæta og tók að sér að kenna gestum heilsuhælisins hið heilbrigða kristna líf.

 

Predikanir Johns tendruðu upp trú gestanna og White hjónin ákváðu að kosta draum þessa unga manns um að verða læknir.

 

Þrátt fyrir efasemdir um ágæti vísinda, töldu þau að ef John yrði læknir gæti hann laðað að fleiri viðskiptavini til Battle Creek.

 

White-hjónin borguðu 330 dali til þess að 21 árs gamall skjólstæðingur þeirra fengi að nema læknisfræði við Bellevue Hospital, eitt virtasta sjúkrahús Norður-Ameríku.

Til þess að aðgreina ekta Kelloggs kornflex frá öllum eftirhermum lét Will prenta undirskrift sína á alla pakka.

Graftarkýli og skírlífisheit

Þegar John hélt haustið 1873 inn um hliðið að Bellevue Hospital var traust manna til lækna harla bágborið.

 

Á síðari helmingi 19. aldar voru um 4.000 starfandi læknar í BNA – og flestir þeirra höfðu takmarkaðar hugmyndir um hvað þeir voru að gera.

 

Áður en John fæddist hafði faðir hans fengið heiftarlega sýkingu í auga. Læknir sem var kallaður til skar sár í hnakka föðurins og smitaði það með eitri frá „spænsku flugunni“ sem er reyndar bjöllutegund.

 

Við þetta áttu „óhollir“ vökvar líkamans að safnast saman í sárinu á hnakkanum og létta sýkinguna í auganu, samkvæmt lækninum. Faðirinn varð fárveikur og rétt svo lifði af þessar skottulækningar.

 

Við Bellevue Hospital fékk John áhuga á líffærafræði og ákvað að verða skurðlæknir.

 

Námið varð sannkölluð þolraun: Allt að því 20. hver Bandaríkjamaður þjáðist af sárasótt en sjúklingarnir komu fyrst þegar sjúkdómurinn var í síðasta fasa sínum.

 

„Viðbjóðsleg vellandi sár út um allt sem geta þakið allan líkamann. Kannski dettur nefið af eða tunga eða auga glatast“, skrifaði John síðar í bók sinni um heilbrigði – þ.e.a.s. að forðast kynlíf: „Plain Facts for Old and Young“ frá árinu 1881.

 

Reynsla hans við sjúkrahúsið ásamt trúarhita Johns fékk hann til að halda sig fjarri kynlífi það sem eftir lifði ævinnar.

 

Haustið 1875 hlaut hann doktorsgráðu sína í skurðlækningum og John hélt aftur til Battle Creek með höfuðið fullt af hugmyndum um m.a. baráttuna við bakteríur.

 

Nokkrum árum áður hafði franski efnafræðingurinn Louis Pasteur sannað tilvist baktería undir smásjá sinni.

 

Margir lækna voru samt fullir efasemda, þar sem ekki mátti sjá bakteríur með berum augum. En hinn ungi dr. John Kellogg var sannfærður um að berjast þyrfti gegn þessari óværu.

 

Í heilsuhæli aðventistanna í Battle Creek skipaði hann fyrir að eldhúsið skyldi gert hreint daglega og skola ætti allt grænmeti áður en það var borið á borð.

 

Þessar aðgerðir urðu til þess að niðurgangur meðal gesta minnkaði verulega og bætt orðspor heilsuhælisins jók árlegar heimsóknir frá 12 til 106 viðskiptavina.

 

Með blessun White-hjónanna tók John við stjórn hælisins árið 1876 og nefndi það nú Battle Creek Sanitarium.

 

Orðið fyrir heilsuhæli, sanatorium, hljómaði samkvæmt John eins og „staður fyrir bæklaða hermenn“. Sanitarium var hins vegar leitt af „sanitas“, latneska orðinu fyrir heilbrigði.

 

LESTU EINNIG

Kjöt orsakaði dýrslegar hvatir

Með John Kellogg við stjórnvölinn iðaði Battle Creek Sanitarium af breytingum.

 

Starfsmenn sem voru aðventistar og sjálfboðaliðar neyddust til þess að sitja undir endalausum fyrirlestrum, þar sem doktor Kellogg lofaði handþvott, góða loftræstingu og hrein lök í baráttunni við bakteríur, meðan hann þrumaði yfir m.a. skaðsemi kjötáts.

 

Fyrir utan að auka kynhvötina og þar með hættuna á kynsjúkdómum taldi hann dýraprótín vera hreinasta eitur.

 

„Prótín magna upp sýkingar í líkamanum og eitra hann“, undirstrikaði doktorinn.

 

John Kellogg taldi einnig að kjöt væri fullt af bakteríum sem væri hvorki hægt að losna við með suðu eða steikingu.

 

Því áttu gestir á heilsuhælinu fyrst og fremst að nærast á grænmeti og ávöxtum.

 

Ef einhverjir kröfðust þess að fá dýraafurðir gaf doktorinn leyfi til að starfsmenn mættu bera fram einstaka kjötrétti og upphitað smjör og mjólk.

 

Kalt vatn, raflost og ferð í boxvélina

Doktor Kellogg var mikill hugsjónamaður sem setti sjúklingana í öfgakenndar meðferðir með sérstökum tólum. Núna meta vísindin margt af þessu sem haldlaust kukl.

Smelltu á mynd til að sjá hana stærri með lýsingu

Slíkt borðhald var þó skermað af frá öðrum borðum í matstofunni til þess að sýklar frá dýraafurðunum myndu ekki dreifast út um heilsuhælið.

 

Þetta mikla hreinlæti og staðsetning heilsuhælisins í sveitinni laðaði árið 1877 mörg hundruð gesti til staðarins.

 

Doktor Kellogg vildi því byggja við húsakostinn og aðventistar tóku bankalán sem samsvarar um 220 milljón núvirtum krónum, eftir að hafa ráðfært sig við spámann sinn, Ellen White.

 

Guð hafði gefið grænt ljós á þessi áform í draumum hennar, tilkynnti Ellen White söfnuði sínum.

 

Heilsuhælið sem samanstóð af bóndabýli á tveimur hæðum var árið eftir rifið niður til að byggja mætti fjögurra hæða hús með m.a. skóla fyrir hjúkrunarkonur.

 

Yfirbyggingin óx og árið 1880 munstraði doktor Kellogg litla bróður sinn Will sem aðstoðarmann.

 

Launin sem námu níu dölum á viku dugðu varla til að hinn 28 ára gamli Will gæti brauðfætt vaxandi barnahóp sinn en hann sló til því hann var löngu orðinn leiður á að selja vörur föðurins sem var burstagerðarmaður.

Sjálfsfróun er verri en svarti dauði

Kynlíf og sjálfsfróun var skaðlegt líkamanum, að mati doktor Kellogg.

 

Í fyrirlestrum sínum við Battle Creek Sanitarium varaði doktorinn við því að sjálfsfróun tæmdi ekki einungis orku líkamans, heldur leiddi hún til lélegrar hollningar og jafnvel flogakasta.

 

Doktorinn var sannfærður um að sjálfsfróun væri svo slæm að þessi hvöt hefði leitt meiri hörmungar yfir mannkyn heldur en svarti dauði.

 

Áhyggjufullir foreldrar gátu fengið meðferð fyrir drengi sína hjá doktornum þar sem umskurður án deyfingar þótti ákjósanleg forvörn.

 

„Meðferðin skilur eftir sig greinileg sálræn spor, einkum ef sársaukinn tengist hugsuninni um refsingu“, lofaði doktorinn.

 

Þökk sé sárinu á limnum var komið í veg fyrir þessa „djöfullegu athöfn“ í margar vikur.

 

Og ef drengirnir héldu áfram að fitla við sig, átti að sauma forhúðina aftur á þannig að sérhver standpína myndi valda sársauka.

 

Doktor Kellogg ráðlagði álíka harkalega meðferð fyrir stúlkurnar: „Hrein karbólsýra sem er sett á snípinn er framúrskarandi meðal til að draga úr þessari óeðlilegu hvöt“.

 

Sjálfur stundaði Kellogg ekkert kynlíf.

 

Hann og kona hans Ella höfðu hvort sitt svefnherbergið í þau 41 ár sem þau voru saman. Þess í stað ættleiddu þau 42 börn.

Litla bróður þrælað út

Frá morgni til kvölds starfaði Will fyrir sinn atorkusama stóra bróður.

 

Vanaleg vinnuvika var allt að 120 tímar, fyrir utan hvíldardaginn og aðstoðarmaðurinn gat gleymt öllum hugmyndum um sumarfrí og launahækkun.

 

Meðal verkefna Wills var að pússa skó stóra bróðurs og snyrta skegg hans. Will bar engan opinberan titil en framlag hans til þess að betrumbæta heilsuhælið var vel þekkt.

 

„Ef þú vilt láta gera eitthvað, þá skaltu fara til Will Kelloggs“, var viðkvæðið meðal starfsmanna.

 

Samkvæmt Will sjálfum var hann „bókhaldari, gjaldkeri, lagermaður, sendill og altmuligmaður“.

 

Oft sáu gestir og starfsmenn doktorinn í hjólreiðatúr meðan Will hljóp við hliðina á honum.

 

Meðan doktor Kellogg steig á pedalana hellti hann yfir Will alls konar hugmyndum um hvernig betrumbæta mætti Battle Creek Sanitarium sem litli bróðirinn reyndi að krota niður í minnisbók sína á hlaupum.

 

Fyrst og fremst var doktor Kellogg upptekinn af meltingu viðskiptavinanna.

 

Barn að aldri hafði John fengið rifu í endaþarminn. Þetta varð til þess að hann var sífellt með harðlífi og hver heimsókn á klósettið var „eins og að gaddavír væri dreginn“ í gegnum þarmana.

 

Um áraraðir fylgdi Will Kellogg bróður sínum og skrifaði hjá sér punkta í hvert sinn sem hann heyrði eitthvað gullkorn falla af vörum stóra bróðurs.

 

Þetta æskuáfall hugðist hann nota til að hjálpa milljónum Bandaríkjamanna sem þjáðust af offitu, háum blóðþrýstingi og hægðatregðu, því þeir – samkvæmt doktornum – fylltu sig á hverjum morgni með sykruðum pönnukökum, kaffi og steiktu kjöti löðrandi í fitu.

 

„Of mikill matur og ekki af réttu tagi“, ályktaði doktorinn.

 

Þess vegna var sykur og kaffi einnig forboðið á Battle Creek Sanitarium.

 

Þess í stað áttu gestir að njóta hreina vatnsins úr ám Battle Creek og fara í daglegar gönguferðir íklæddir léttum fötum til þess að efla meltinguna.

 

Fyrir konurnar þýddi þetta að þær þurftu að henda korsettinu.

 

Hreyfing og vatn eykur „þarmasafann“ – nafngift doktor Kelloggs yfir getu líkamans til þess að leysa fæðuna upp í fljótandi næringarefni.

 

Innblásinn af samtíða bandaríska næringargúrúinum Horace Fletcher innleiddi doktor Kellogg ítarlegri matarvenjur.

 

Fletcher ráðlagði t.d. að sérhver munnbiti skuli vera tugginn 40 sinnum áður en það mátti kyngja honum. Þannig væri upptaka fæðunnar best tryggð í líkamanum.

 

Þegar gestirnir framkvæmdu í hádegismatnum svonefnt „fletcherizing“, þ.e.a.s. tuggðu og tuggðu, fengu þeir undirspil frá píanóleikara sem lék nýsaminn „tyggingarmars“. Þannig gátu allir haldið takti þegar þau tuggðu.

 

Doktor Kellogg fylgdist grannt með heilbrigði eigin maga. Sérhvern dag þurfti Will að smyrja endaþarm hans með sérstöku smyrsli.

 

Þegar meðal þetta sýndi virkni sína fylgdi Will bróður sínum á klósettið og tók þar stöðu einkaritara meðan doktor Kellogg las fyrir nýjustu hugmyndir sínar.

 

Eins og alltaf hlýddi hinn kúgaði Will stóra bróður sínum.

Djarfar auglýsingar tryggðu velgengni kornflexins

Markvissar auglýsingar ætlaðar konum og uppsetning á stærstu ljósaskiltum heims áttu sinn þátt í að gera Kellogg´s heimsþekkt vörumerki.

 

Will Kelloggs eyddi á ævi sinni 100 milljón dollurum, tæplega 14 milljörðum af núvirtum krónum, til þess að auglýsa kornflex.

 

Markhópur hans var í fyrstu húsmæðurnar sem þurftu að reiða fram morgunmatinn á bandarískum heimilum.

 

Ein best heppnaða auglýsingaherferð hans birtist í mánaðartímaritinu „Ladys Home Journal“, þar sem hann lét fylgja miða með.

 

Ef lesandinn fyllti út miðann með nafni og heimilisfangi fékk hann ókeypis pakka af kornflexi sendan heim.

 

Þannig gat Will byggt upp skrá yfir viðskiptavini sem hann seldi síðan vörur sínar í gegnum póstinn.

 

Þegar Will hugðist stækka markað sinn í New York árið 1907 fann hann upp á afar djarfri auglýsingaherferð:

 

Ef kvenkyns kúnni blikkaði með öðru auga til afgreiðslumanns í nýlenduvöruverslun fékk hún ókeypis pakka af kornflexi.

 

Hugmyndin um að konur væru að blikka karlmenn sem þær þekktu ekki vakti strax reiði margra. En þessi djarfa herferð varð til þess að mun fleiri húsmæður vissu nú af Kelloggs Corn Flakes.

 

Frá árinu 1912 keypti Will einnig auglýsingapláss á háhýsum stórborga.

 

Fyrsta stóra auglýsingin var 36 m2 stórt ljósaskilti við Times Square. Samkvæmt Will var þetta fyrsta ljósaskilti í heimi af þessu tagi.

Fyrirmyndar sjúklingur var feitur og stressaður

Upp úr 1880 þróaði doktor Kellogg heilsuhæli sitt yfir í að vera byltingarkennd stofnun; m.a. keypti doktorinn vélar þar sem gestirnir gátu snúið handfangi til að fá högg á magann.

 

Höggin áttu, samkvæmt framleiðanda, að hreyfa við magavöðvunum og losa um mögulega hægðatregðu.

 

Með framlögum frá aðventistum lét doktorinn einnig innrétta herbergi með miðstöðvarhita, rafmagnsljósi og rennandi vatni sem höfðaði til auðugra kúnna.

 

Áhuginn jókst enn frekar þegar Will birti auglýsingar sem lofuðu því að á heilsuhælinu væri ekki að finna andlega veikar manneskjur, flogaveika eða manneskjur með „óheppilegt útlit“.

 

„Flestir viðskiptavinir eru persónur sem þjást af krónískum magaverkjum og taugaveiklun“ var lýsing doktor Kelloggs á fyrirmyndarsjúklingum.

 

Árið 1886 komu ríflega 800 á heilsuhælið. Í tveimur nýjum kynskiptum byggingum höfðu gestirnir aðgang að 50 mismunandi gerðum meðferðar, t.d. gufubaði og sundleikfimi.

 

Fólkið mátti synda saman en einungis hjón. Börnin sem komu með fóru inn á barnaheimili.

 

Gesturinn Marion Baxter skrifaði stórhrifin heim eftir leikfimitíma:


„Þeir kenna okkur mikilvægi hvers einasta beins og árétta stöðugt að líkaminn er musteri Guðs“.

 

Þegar Battle Creek fékk járnbrautarstöð árið 1888 margfaldaðist fjöldi gesta í meiri en þúsund á ári.

 

Heilsuhælið fékk sinn eigin spítala þar sem sjúklingar með t.d. garnaflækju fóru undir hnífinn hjá doktor Kellogg.

 

Frá því að vera einfalt heilsuhæli hafði Battle Creek Sanitarium vaxið í höll með mahogany tröppum, kristalljósum og persneskum teppum og í matsalnum spilaði hljómsveit vinsælustu lög þess tíma.

 

En það voru ekki allir sáttir við þessa framvindu mála – m.a. spámaður aðventista.

 

„Heilsuhælið er komið langt frá sínu upprunalega markmiði og minnir á lúxushótel“, mögglaði Ellen White.

 

Sumir gestir voru heldur ekki sáttir, t.d. klagaði einn þeirra yfir því að hann hefði brotið tönn á glerharðri tvíböku á morgunverðarborðinu.

 

Kvartanir voru „slæmar fyrir viðskiptin“ að mati Will og hann taldi bróður sinn á að breyta framboðinu.

 

Í upphafi ársins 1894 tóku bræðurnir við að gera tilraunir með að finna morgunmat sem myndi bæði mæta kröfum gestanna og gefa af sér heilbrigðan saur.

 

Kelloggs fylgdist grannt með konum og studdi meðal annars kröfur þeirra um kosningarétt árið 1914.

Morgunverðarkornið auðveldaði vinnu kvenna við að útbúa morgunmat fyrir fjölskylduna.

Auglýsingar sýndu oft hve börnin urðu glöð og hlýðin við að borða Kellogs kornflex.

Kelloggs fylgdist grannt með konum og studdi meðal annars kröfur þeirra um kosningarétt árið 1914.

Morgunverðarkornið auðveldaði vinnu kvenna við að útbúa morgunmat fyrir fjölskylduna.

Auglýsingar sýndu oft hve börnin urðu glöð og hlýðin við að borða Kellogs kornflex.

Trefjar gegn kynhvötinni

Fyrir John Kellogg var mikilvægasta virkni þessarar nýju framleiðslu að minnka lyst fólksins á kjöti, þar sem kjöt jók kynhvötina.

 

Grænmetismorgunmatur átti að hjálpa þeim gestum sem „börðust gegn þessum illu hvötum“, eins og doktorinn orðaði það.

 

Fyrir hann var fullnægingin „lömunarflog sem skilur líkamann eftir örmagna“.

 

Meðan á tilraunum bræðranna stóð skrifaði Will hjá sér nótur um alla framvinduna. Besta niðurstöðu gaf deig úr hveitimjöli með viðbættu soðnu korni og maískjörnum og var það maísinn sem gerði bökuðu flögurnar stökkar.

 

Þegar skálar með nýbökuðum flögum voru bornar fram við morgunverðarborðið stóðu gestirnir í röð til að smakka á þeim.

 

Cornflakes voru einnig seldar í verslun heilsuhælisins ásamt trúarlegum bókum og tímaritum.

 

Verðið var 15 sent fyrir hvern pakka með 300 grömmum af kornflexi.

 

Sumarið 1895 náði salan á þessari nýjung meira en 56 tonnum í sameiginlegu fyrirtæki bræðranna, Sanitas Food Company.

 

Will keypti tóma verksmiðjubyggingu í Battle Creek þar sem hann innréttaði bakarí í iðnaðarskala. Og þegar frá árinu 1898 voru meira en 100 tonn af kornflexi árlega seld til kúnna í Bandaríkjunum.

 

Vöðvar sjúklinganna voru kannaðir með sérstakri maskínu til að sjá hvaða meðferð væri best.

Will skildi að kornflexið væri hreinasta gullnáma, því flögurnar auðvelduðu milljónum húsmæðra að bera fram morgunmat.

 

Hann grátbað stóra bróður sinn um að bragðbæta flögurnar en doktor Kellogg harðneitaði að sykri væri bætt við.

 

Út á við hlýddi Will stóra bróður sínum en hann hélt áfram tilraunum í leyni með malt, sykur og salt.

 

Það var ekki fyrr en 1901 sem doktorinn uppgötvaði tilraunir Wills – og heiftarlegt rifrildi braust út.

 

„Doktorinn varð brjálaður. Hann hellti sér yfir pabba“, minnist einn sona Wills, Leonard sem varð vitni að rifrildinu.

 

Þetta var kornið sem fyllti mælinn fyrir Will. Hann sagði upp og stofnaði eigið fyrirtæki sem framleiddi sætari kornflögur.

 

Doktor Kellogg reyndi strax að stöðva framleiðsluna, enda hafði hann einkaleyfi á þessum stökku kornflögum og leitaði til yfirvalda.

 

En kröfu doktor Kelloggs var hafnað þar sem litið var á kornflögurnar sem sjálfstæða uppfinningu. Þá tók hann að auðmýkja litla bróður sinn með því að senda Will launaseðil í hverjum mánuði fyrir störf hans í Sanitas Food Company.

 

Þrátt fyrir að Will hafði sagt upp átti hann enn 25% hlutabréfa í sameiginlegu fyrirtæki þeirra. Doktorinn dró 75% frá launaseðlinum af þessum sökum.

 

Margar hugmyndir doktor Kelloggs enn í notkun

Titrarar, nudd og trefjafæði átti að gera gestina heilbrigða að mati doktor Kelloggs.

Sumar hugmyndir hans lifa ekki lengur en aðrar eru ennþá í notkun á heilsuhælum.

peo_exercise

Leikfimi átti að gera léttklædd

Til að styrkja líkamann voru karlmenn látnir gera leikfimisæfingar innandyra á nærklæðum einum saman. Fyrir utan hlaup og hinar og þessar hreyfingar áttu mennirnir m.a. að höggva eldivið. Núna er hreyfing viðurkennd sem afar góð fyrir blóðrás og vöðva. Þó er ekki nauðsynlegt að gera hana á nærklæðunum.

GettyImages-140421965-1024x685

Höggtæki fékk blóðið til að renna

Gestirnir gátu fengið meðferð hjá nuddara en einnig í maskínu sem sló með flötum reimum. Sjúklingar sem voru t.d. sífellt með kaldar hendur og fætur reyndu hvernig meðferðin jók blóðrásina. Núna nýtist m.a. Thai-nudd, teygjur og þrýstingur á sama máta til að styrkja líkamann og virkja getu hans til þess að losa út eitur.

d232ca84786a7968fd_4424399283_8a2cb42346_o

Titrandi hestar læknuðu magann

Sjúklingar með hægðatregðu voru látnir sitja á mekanísku apparati sem titraði til þess að örva meltinguna. Apparat með hnakki var kallað „hestur“ eða „kameldýr“. Núna nota margir titring til þess að losa um spennta vöðva og koma meltingunni í gang.

Broccoli,Isolated,On,White,Background

Grænmetisfæði styrkti líkamann

Doktor Kellogg þoldi ekki kjöt sem hann taldi vera fullt af bakteríum og verka hvetjandi á kynhvötina. Gestir sem voru sólgnir í kjöt gátu þó fengið grænmetisfars sem eftir steikingu líktist kjötbuffi. Margir velja núna grænmetisfæði heilbrigðisins vegna. Grænmetisfæði veitir m.a. betri meltingu en mikið kjötát getur leitt til hjarta- og æðasjúkdóma.

Cigarillo,Butt

Kaffi, alkóhól og tóbak var bannað

Doktor Kellogg leit á alla notkun á alkóhóli, kaffi, te og tóbaki sem hreint eitur því þessi örvandi efni söfnuðu upp skaðlegum efnum í maganum og efldu kynhvötina sem þurrkaði upp orku líkamans. Flestir læknar eru núna sammála um að tóbak eykur hættu á krabba og að alkóhól og kaffi beri að taka inn í hófi.

Ríkir og frægir streyma að

Eftir vinslitin við Will einbeitti doktor Kellogg sér að heilsuhælinu.

 

Forlag hans gaf út fjölmargar heilsubækur og milljónir dala streymdu inn.

 

Doktorinn gat lesið fyrir 200 orð á mínútu fyrir fjóra einkaritara sem unnu á vöktum.

 

Vinnan gat tekið allt að 20 tíma. Til þess að halda doktornum í formi þurfti ein hjúkrunarkona að nudda gagnaugu hans reglulega.

 

Aðventistar voru hreint ekki sáttir við þróunina á Battle Creek Sanitarium og þegar bruni eyðilagði byggingarnar árið 1902 sagði Ellen White það vera til marks um refsingu Guðs.

 

Doktor Kellogg hundsaði hana algjörlega og notaði eigin fjármuni til að byggja upp nýtt heilsuhæli með miklum lúxus. Það endaði með því að Ellen White rak hann úr söfnuðinum árið 1907.

 

Þetta stöðvaði þó ekki doktor Kellogg sem hélt áfram að breiða út heilbrigðisboðskap sinn, meðal annars með fyrirlestrum í BNA og útlöndum.

 

„Doktorinn varð brjálaður. Hann hellti sér yfir pabba“,

minnist einn sona Wills, Leonard sem varð vitni að rifrildinu eftir að Will hafði bætt við sykri í Kornfleksið.

 

Doktorinn sjálfur kallaði lífstíl þennan með hreyfingu, vatni og kjötlausu fæði „Biologic Living“.

 

Doktorinn tók einnig að gera tilraunir með að gefa sjúklingum sem þjáðust af miklu harðlífi, rafstraum í endaþarminn. Þessa meðferð urðu evrópsk heilsuhæli að innleiða eftir að gestir þar höfðu lesið um meðferðina í bókum doktorsins.

 

Á næstu þremur áratugum laðaði Battle Creek straum af ríkum og frægum gestum, m.a. Tarzan-leikarann Johnny Weissmuller, Warren G. Harding forseta og hina þekktu ævintýrakonu Ameliu Earhart.

 

Allir gestirnir þurftu að skila saursýnum sem voru rannsökuð undir smásjá á rannsóknarstofu heilsuhælisins.

 

Í ljósi niðurstaðna rannsóknanna útfyllti starfsfólkið meðferðaráætlun með mataræði sem gestum bar að fylgja til fullnustu.

 

Einn frægasti gestur sem átti við meltingartruflanir að stríða var auðkýfingurinn John D. Rockefeller.

 

Eftir dvöl sína á Battle Creek Sanitarium grobbaði hann sig af því við morgunverðarborð í klúbb sínum að meltingarkerfi hans „gengi eins og klukka“.

 

Þessi mikla velgengni breytti þó hvorki kristinni trú doktor Kelloggs né hans lífsmáta.

 

Alla ævina hélt doktorinn sig frá kjöti, alkóhóli og kynlífi með konu sinni.

Kellogg´s Corn Flakes er núna selt í meira en 180 löndum

Battle Creek varð höfuðborg morgunverðarins

Árangurinn með kornflex laðaði keppinauta til Battle Creek.

 

Fram til 1905 stofnuðu 101 morgunverðarframleiðandi fyrirtæki í svokölluðu „Cerial Gold Rush“.

 

„Það eru engir betlarar í Battle Creek.

 

Verksmiðjurnar ganga um nætur og á sunnudögum til að anna eftirspurn,“ var greint frá í New York World árið 1902.

 

Bestum árangri náði fyrirtæki stofnað af C. W. Post árið 1895.

 

Hann hafði verið innritaður á Battle Creek Sanitarium vegna álags og var svo hrifinn af morgunmatnum að hann bjó til sitt eigið kornflex undir nafninu „Post Toasties“.

 

Hann þénaði milljónir og samsteypan Post Holdings er núna þriðji stærsti framleiðandi morgunkorns í BNA. Í fyrsta sæti er Kelloggs – ennþá með aðalstöðvar í Battle Creek.

Gullnar flögur mögnuðu óvildina

Þrátt fyrir þessa miklu velgengni öfundaði doktor Kellogg Will og fyrirtæki hans, Battle Creek Toasted Corn Flakes Company sem árið 1906 seldi um 25.000 pakka af kornflexi í hverjum mánuði.

 

Baráttan um réttindin til að búa til kornflex stóð enn og doktor Kellogg ásældist hluta af ávinningi Wills.

 

Það endaði með því að litli bróðirinn þurfti að borga stóra bróður sínum um 700 milljón núvirtar krónur til að tryggja sér einkaleyfi á að selja kornflex undir nafninu Kelloggs.

 

En eftirleiðis gekk Will Kelloggs frábærlega og á næstu 10 árum byggði hann upp risavaxið viðskiptaveldi.

 

Rétt eins og þegar hann vann á Battle Creek Sanitarium hafði hann auga fyrir smáatriðum og prófaði meðal annars framleiðsluna sjálfur daglega og spurði verkafólkið um möguleg vandræði við framleiðsluna.

 

Vegna dugnaðar Wills og einstæðrar tilfinningar hans fyrir markaðssetningu skapaði Will heimsþekkt vörumerki.

 

Eftirspurnin eftir morgunmat Wills var svo mikil að fyrirtækið komst óskaðað í gegnum kreppuna miklu árið 1929.

 

Það sama er hins vegar ekki hægt að segja um Battle Creek Sanitarium en heimsóknir þar döluðu úr 5.000 gestum í 300.

 

Efnahagskreppan kom auk þess í veg fyrir frekari stækkun heilsuhælisins. Með höktandi efnahag hélt doktorinn starfi sínu þó áfram, allt þar til staðurinn þurfti að loka árið 1938 þegar allur peningur var uppurinn.

 

Bræðurnir sættust aldrei og Will Kellogg var hvergi nærstaddur þegar bróðir hans lést úr lungnabólgu árið 1943. Að lokum var það hinn kúgaði Will sem hrósaði sigri.

 

Þegar litli bróðirinn dró sig í hlé árið 1939 réði Kellogg´s morgunmaturinn yfir um helmingi heimsmarkaðarins.

 

Þegar aldurinn var farinn að segja til sín bað hinn blindi Will Kellogg oft um að vera keyrður um í hjólastól í verksmiðjusölunum. Will naut þess að heyra í vélunum vinna – fyrir hann var þetta söngur velgengninnar.

 

Fram að andláti sínu árið 1951 var Will Kellogg þekktur sem „The Corn Flake King“.

Lestu meira um Kellogg bræðurna

  • Howard Markel: The Kelloggs, Vintage, 2018

 

  • Jeremy Agnew: Healing Waters: A History of ­Victorian Spas, McFarland, 2019

LESTU EINNIG

HÖFUNDUR: Bue-Kindtler-Nielsen

New York Public Library, © Rubylane, © Collection of Dr. Howard Markel, Ken Florey Suffrage Collection/Gado/Getty Images, Kellogg’s Company, Bridgeman Images, © Underwood Archives/Getty Images,

Náttúran

Kisulóra er villiköttur

Lifandi Saga

Greitt fyrir Pepsi-Cola með sovéskum kafbátum

Lifandi Saga

Greitt fyrir Pepsi-Cola með sovéskum kafbátum

Heilsa

10 matvæli með meira C-vítamín en appelsínur

Heilsa

10 matvæli með meira C-vítamín en appelsínur

Náttúran

Hvaða rándýr étur flest fólk?

Heilsa

Er flotsaur til marks um góða heilsu?

Náttúran

Hvernig veit fræ að það eigi að spíra? 

NÝJASTA NÝTT

Lifandi Saga

Fimm heppnustu manneskjur sögunnar

Maðurinn

Hve mikið gagnamagn rúmast í heilanum?

Náttúran

Sníkill gæðir okkur fegurð

Læknisfræði

Ný tækni lokkar krabbafrumur úr felum

Jörðin

Hvenær var hnettinum skipt í tímabelti?

Lifandi Saga

Mömmustrákur tryggði bandarískum konum kosningaréttinn

Lifandi Saga

Hermaður sá heiminn á hvolfi eftir heilaskaða

Alheimurinn

Eitilhörð samkeppni um að leysa ráðgátur sólkerfisins

Læknisfræði

Soðnir kettir læknuðu nánast allt á miðöldum

Tækni

Eru eineggja tvíburar erfðafræðilega eins?

Lifandi Saga

Fimm heppnustu manneskjur sögunnar

Maðurinn

Hve mikið gagnamagn rúmast í heilanum?

Náttúran

Sníkill gæðir okkur fegurð

Læknisfræði

Ný tækni lokkar krabbafrumur úr felum

Jörðin

Hvenær var hnettinum skipt í tímabelti?

Lifandi Saga

Mömmustrákur tryggði bandarískum konum kosningaréttinn

Lifandi Saga

Hermaður sá heiminn á hvolfi eftir heilaskaða

Alheimurinn

Eitilhörð samkeppni um að leysa ráðgátur sólkerfisins

Læknisfræði

Soðnir kettir læknuðu nánast allt á miðöldum

Tækni

Eru eineggja tvíburar erfðafræðilega eins?

Fáðu aðgang að vÍSINDI.IS

Ókeypis í 2 vikur!

 

Eftir það kostar eingöngu 1.390 kr. á mánuði og enginn uppsagnarfrestur.

 

Innifalið er aðgangur að öllum greinum á vefnum ásamt rafræna útgáfu af nýjustu tölublöðunum.

  • Fullur aðgangur að visindi.is
  • Frábærar myndir og myndbönd
  • Aðgengilegt í öllum snjalltækjum
  • Fullur aðgangur að gríðarlegu magni eldri greina
  • Nýjustu tölublöðin í rafrænu formi

Lifandi Saga

Robert the Bruce var hinn sanni Braveheart Skotanna

Lifandi Saga

Robert the Bruce var hinn sanni Braveheart Skotanna

Maðurinn

Samfélagsmiðlar ógna samkenndinni

Maðurinn

Samfélagsmiðlar ógna samkenndinni

Heilsa

Breytingarnar á líkamsþyngd geta leitt í ljós hættu á heilabilun

Náttúran

8 uppfinningar sem þú getur þakkað Einstein fyrir

Náttúran

Að klóna risaeðlur: Er hægt að vekja risaeðlur til lífsins?

Maðurinn

Sársauki – Hvað er sársauki?

Vinsælast

1

Tækni

Eru eineggja tvíburar erfðafræðilega eins?

2

Maðurinn

Af hverju sjá sumir drauga en aðrir ekki?

3

Náttúran

Sníkill gæðir okkur fegurð

4

Læknisfræði

Ný tækni lokkar krabbafrumur úr felum

5

Maðurinn

Þráhyggja tekur heilann í gíslingu

6

Saga

Af hverju ráða Bandaríkin yfir Guantanamo?

1

Tækni

Eru eineggja tvíburar erfðafræðilega eins?

2

Náttúran

Sníkill gæðir okkur fegurð

3

Læknisfræði

Ný tækni lokkar krabbafrumur úr felum

4

Náttúran

Kisulóra er villiköttur

5

Lifandi Saga

Greitt fyrir Pepsi-Cola með sovéskum kafbátum

6

Alheimurinn

Mistök geta verið banvæn fyrir geimfara 

Maðurinn

Þess vegna tekur ástarsorg svona mikið á okkur

Maðurinn

Heilann þyrstir í fitu

Maðurinn

Er það skaðlegt að plokka nefhárin?

Lifandi Saga

Hve lengi höfum við fengið sumarfrí?

Maðurinn

Þessi tvö efni geta átt þátt í að lækka líffræðilegan aldur okkar

Lifandi Saga

Hin dularfulla María Magdalena var nákomin frelsaranum

Menning og saga

Múmía hræddi líftóruna úr vörðum

Náttúran

Topp 5: Hvaða könguló er stærst?

Náttúran

Tuttugu arma sædýr fannst við suðurskautið

Maðurinn

Styrktu alla þrjá þætti greindarinnar

Jörðin

Evrópsk ofureldstöð virðist undirbúa gos

Maðurinn

10 óvanalegar tegundir af fælni

Fimm heppnustu manneskjur sögunnar

Sumir virðast vera fæddir undir lukkustjörnu en hjá öðrum virðist heppnin vera nánast yfirnáttúrulegt fyrirbæri. Hvorki eldingar, flugslys, öfundsjúkir keppinautar eða kjarnorkusprengjur gátu bugað þessa heppnu einstaklinga.

Lifandi Saga

ÁSKRIFT AÐ VÍSINDI.IS

Prófaðu í 14 daga ókeypis!

  • Fullur aðgangur að vefnum okkar með tæplega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Lifandi vísindi/Lifandi saga í rafrænni útgáfu á vefnum,
  • Aðeins 1.690 krónur á mánuði.
  • Engin skuldbinding – Þú getur hætt hvenær sem er.

ÁSKRIFT AÐ TÍMARITINU

Þrjú tölublöð + gjöf: Skemmtilegur sjónauki
  • Þrjú næstu tölublöð Lifandi vísinda/Lifandi sögu – sent heim til þín – eins færðu lítinn og vandaðan sjónauka að gjöf.
  • Fullur aðgangur að vefnum okkar – visindi.is – með tæplega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Spennandi greinar og flottar myndir sem svala forvitni þinni.
  • Þú getur hætt eftir tilboðið en ef þú heldur áfram skuldbindur þú þig aðeins þrjú tölublöð í einu og þú getur sagt upp hvenær sem sem og klárar þá tímabilið sem er hafið.
  • Venjuleg áskrift – þrjú tölublöð – kostar aðeins 7.590 kr

Sjónauki og þriggja blaða áskrift – Alls 3.800 kr.

Lifandi vísindi

Lyf

Lifandi saga

Search

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Innskráning

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Viltu lesa greinina?

Fáðu aðgang að visindi.is

Ókeypis í 2 vikur!

Eftir það kostar eingöngu 1.390 kr. á mánuði og enginn uppsagnarfrestur.

Innifalið er aðgangur að öllum greinum á vefnum ásamt rafræna útgáfu af nýjustu tölublöðunum.

  • Fullur aðgangur að visindi.is
  • Frábærar myndir og myndbönd
  • Aðgengilegt í öllum snjalltækjum
  • Fullur aðgangur að gríðarlegu magni eldri greina
  • Nýjustu tölublöðin í rafrænu formi

Núverandi áskrifendur að tímaritinu fá að sjálfsögðu ókeypis aðgang að vefnum og þurfa bara að virkja aðgang sinn hér.

Ef þú ert þegar áskrifandi að visindi.is