Meðan grillhundurinn skokkaði í hjólinu gat heimiliskötturinn setið í makindum og beðið eftir leifunum af kvöldmatnum.
Á 16. öld birtist nýtt og óvenjulegt eldhúsáhald í Bretlandi: Hundknúinn steikarteinn.
Bretum þótti fátt betra en kjöt steikt á teini en fæstir nenntu að eyða tíma sínum í að sitja og snúa teininum hring eftir hring.
Lausnin fólst í því að rækta hundakyn til verksins.
Grillhundurinn var smávaxinn, skrokklangur en með stutta fætur og hentaði þannig afar vel til að skokka í „hamsturshjóli“ sem sneri teininum með keðju.
Grillhundurinn náði með tímanum miklum vinsældum og 1853 lýsti rithöfundurinn John Wood því hvernig tveir hundar voru látnir vinna á vöktum:
„Hundarnir höfðu gott tímaskyn og væru þeir ekki leystir af á réttum tíma, stukku þeir sjálfir út úr hjólinu og þvinguðu félaga sinn til að taka við.“
Á sunnudögum voru hundarnir teknir með í kirkjuna, ekki til að hlusta á prestinn, heldur vegna þess að þeir héldu vel hita á fótum eigandans.