Hæðni, útilokun og ógnandi hegðun.
Einelti á sér margar birtingamyndir og er því hugtak sem erfitt er að skilgreina nákvæmlega.
Sérfræðingar tala þó um einelti sem endurtekna hegðun sem miðar að því að valda einhverjum sársauka og gera lítið úr viðkomandi.
Börn sem verða fyrir einelti eiga fremur á hættu að þróa með sér sálrænan vanda á borð við kvíða, þunglyndi eða sjálfskaðandi atferli allt fram á fullorðinsár.
Og nú hafa vísindamenn hjá Tokyoháskóla uppgötvað aðra afleiðingu af langvarandi og samfelldri stríðni.
Í heila 10-19 ára barna og ungmenna sáu vísindamennirnir ákveðinn mun á þeim sem orðið höfðu fyrir einelti og hinum sem ekki höfðu lent í því.
Breytingar á sérstöku svæði
Fórnarlömb eineltis höfðu minna magn af boðefninu glútamati sem yfirleitt er eitt algengasta boðefni heilans.
Nánar tiltekið reyndist magn boðefnisins minna í því svæði heilans sem nefnist ACC (anterior cingulate cortex) en heilastöðvar á svæðinu hafa afgerandi þýðingu varðandi úrvinnslu tilfinninga og ákvarðanatöku.
Frumstig alvarlegra sjúkdóma
Uppgötvunin þykir ekki síst athyglisverð fyrir þá sök að rannsóknir hafa áður sýnt að hjá fólki sem sýnir fyrstu einkenni geðveilu eða t.d. skítsófreníu á því frumstigi sem telst læknanlegt, hefur einmitt lítið magn boðefnisins á ACC-svæðinu.
Til viðbótar greindu vísindamennirnir samhengi milli eineltis á fyrstu táningsárum og forstigseinkenna geðveilu. Þetta eru einkenni sem nálgast geðtruflanir en eru ekki nægilega eindregin til að uppfylla skilyrði fyrir geðsjúkdómsgreiningu.
Meðal einkenna nefna vísindamennirnir t.d. ofsóknarkennd, ímyndanir eða breytingar á atferli og hugsun.
Þakkið fyrir vini ykkar því án þeirra eykst hættan á ótímabæru andláti. Þakkið jafnframt fyrir nef ykkar því það er sennilega nefið sem hefur hjálpað ykkur að þefa uppi bestu vinina.
Þessar rannsóknir kynnu að gagnast við að koma í veg fyrir einhverjar afleiðingar eineltis en til þess segja vísindamennirnir nauðsynlegt að bæta aðferðir við að greina forstig geðveilu af ýmsu tagi til að unnt verði að finna nógu snemma þá einstaklinga sem kynnu að eiga á hættu að þróa geðsjúkdóma síðar á ævinni.
Rannsóknin birtist í vísindatímaritinu Molecular Psychiatry.