Í fangelsinu í Newgate eru næturnar niðadimmar en ungi fanginn í klefanum þarf ekkert ljós. Eina nótt í október árið 1724 stingur hann hausnum upp í eldstæðið og skoðar þar þröngan skorstein. Þar kemur hann auga á járnstöng sem er steypt í múrinn.
Fanginn byrjar að brjóta í steypuna í kringum stöngina með ryðguðum nagla.
Járnstöngina ætlar hann síðan að nota til að gera gat á loft klefans. Á næstu hæð bíða hans sex læstar fangelsisdyr – þær hyggst hann dírka upp með naglanum eða lyfta þeim af hjörunum.
„Þvílík ógæfa! Nú var ég orðinn þjófur og skömmu síðar innbrotsþjófur“ .
Sjálfsævisöguleg bók en er talinn vera verk rithöfundarins Daniel Defoe.
Hann er heldur ekkert hræddur við að fara 20 metra niður af þakinu á Newgate: Hann hefur þegar útbúið reipi úr teppi sem var í klefanum. Í svartamyrkri leysir hann hvert verkefnið á fætur öðru.
Næsta morgun vakna íbúar Lundúna við þær fregnir að dauðadæmdi þjófurinn Jack Sheppard hafi flúið úr haldi. Þetta er í fjórða sinn á einu og hálfu ári sem hann hefur sloppið úr fangaklefa.
Silfur handa kvenmanni
Flóttakóngur Lundúna fæddist árið 1702 í fátækrahverfinu East End. Faðir hans dó þegar Jack var lítill og hann og eldri bróðir hans þurftu snemma að vinna fyrir sér. 15 ára gamall varð Jack smíðalærlingur. Hann var lítill vexti en nautsterkur og sinnti starfi sínu af kostgæfni – allt þar til hann fór að heimsækja gistihúsið „The Black Lion“.
Í þessu sóðalega gistihúsi héldu þjófar og vændiskonur til og hinn 21 árs gamli Jack sá skjótt að hann vildi fremur eyða tíma sínum við drykkju og fjárhættuspil heldur en erfiðisvinnu. Þá varð hann líka bálskotinn í hinni bosmamiklu Elisabeth Lion sem var kölluð „Edgeworth Bess“ eftir fæðingarbæ sínum í Middlesex. En ástir Bess voru ekki ókeypis og lærlingurinn þurfti að reiða fram einhverja peninga.
Gegn greiðslu leyfðu fangelsisverðir forvitnum að heimsækja Jack Sheppard þegar hann sat í fangelsi – meðal þeirra var listamaður sem málaði portrett af honum.
Vordag einn árið 1723 er Jack í smíðavinnu á gistihúsi þar sem hann kemur auga á tvær silfurskeiðar sem liggja á glámbekk – glansandi og fínar. Skeiðarnar hverfa snimmendis ofan í verkfæratöskuna hans.
„Þvílík ógæfa! Nú var ég orðinn þjófur og skömmu síðar innbrotsþjófur“ má lesa í bæklingi um líf hans sem á að vera ritaður af honum en er talinn var verk rithöfundarins Daniel Defoe (1660 – 1731).
„Í lok júlí sendi meistarinn mig til þess að vinna verk í húsi einu“, segir Sheppard, „þar stal ég klæðistranga án þess að nokkurn grunaði eitthvað misjafnt“.
„Í gær var Sheppard, alræmdur innbrotsþjófur sem síðast flúði frá New Prison, settur í Newgate eftir að hafa verið fangaður af Jonathan Wilde“.
Tilkynning í tímaritinu Daily Journal, þegar Jack Sheppard var handtekinn í þriðja sinn.
En einn kollegi hans hafði séð klæðistrangann hjá Jack og klagaði hann til eigandans. Jack neitar öllu og fær móður sína til að tala máli sínu. Honum er sleppt en meistara Jack sem hann býr hjá er hreint ekki skemmt.
Lærlingurinn sem hann hefur verið svo ánægður með misbýður honum með lifnaðarhætti sínum og ástinni á Bess – þeirri lúalegu skækju. Meistarinn refsar honum með því að læsa hann út úr húsinu. En næsta morgun finnur hann alltaf Jack sofandi í rúmi sínu á þriðju hæð!
Jack er heldur ekki sáttur við sitt hlutskipti og einungis átta mánuðum áður en að lærlingstími hans endar segir hann upp stöðu sinni þann 2. ágúst 1723.
Rakarahnífur tryggði flóttann
Í febrúar 1724 er Jack í slagtogi meðð eldri bróður sínum, Tómasi og stundar vasaþjófnað á Clare Market í miðri borginni. Því miður er Tómas handtekinn einn dag – og hann segir til litla bróður síns.
Meðan Jack situr á knæpu og spilar fjárhættuspil með vinum sínum dúkkar vörður upp. Hann tekur Jack með sér til fangelsisins St. Giles Roundhouse. Þar á ungi þjófurinn að eyða nóttinni áður en hann mætir dómara – ákærður fyrir innbrot sín á Clare Market.
Afbrotamenn sluppu úr fangelsi
Öryggið í evrópskum fangelsum á 18. öld var ekki upp á marga fiska: Verðirnir voru spilltir, steypan molnaði niður í gömlum byggingum og ekki var leitað á gestum sem komu í heimsókn.
William Maxwell – maður í kvenmannsklæðum
Jarlinn af Nithsdale sat í fangelsinu í Tower of London árið 1916, þar sem hann beið þess að vera tekinn af lífi fyrir landráð. Eitt sinn komu kona hans og vinkona hennar í heimsókn. Meðferðis höfðu þær kjól fyrir jarlinn sem yfirgaf turninn dulbúinn sem hugguleg dama og flýði hann síðar til Rómar.
Marion du Faouët – kona mútaði vörðum
Þessi þjófaforingi flúði árið 1752 úr borgarfangelsinu í Quinter í Frakklandi. Fjórum sinnum áður hafði hún sloppið úr haldi og mikil réttarhöld voru í uppsiglingu þegar hún mútaði verði og hvarf. Þremur árum síðar var hún handtekin og tekin af lífi.
Giacomo Casanova – sjarmör stakk af
Með járnstöng sem hann fann í fangelsisgarðinum hjó hinn ítalski Giacomo Casanova sig út úr fangelsinu Piombi sem var ofan á Palazzo Ducale í Feneyjum árið 1755. Í skjóli mikillar þoku flúði hann yfir þakið, fann stiga sem hann klifraði niður og hvarf út í nóttina.
En Jack er með önnur áform. Hann hefur falið rakarahníf í vasa sínum og með honum sker Jack rimil úr baki stóls. Rimilinn notar hann til að gera gat í loftið. Eftir nokkrar klukkustundir sér hann grilla í næturhimininn og við dagrenningu er gatið orðið nógu stórt til að hann geti troðið sér þar í gegn og komist upp á þak.
Niðri á götunni sér vegfarandi til hans og hrópar: „Fangi á flótta!“.
Ótrauður rennir Jack sér niður vegginn á laki og teppi sem hann hefur bundið saman. Síðan kemst hann inn í kirkju og þaðan út í port og hverfur inn í mannþröngina sem að fylgist með flótta hans. Flestir horfa upp á þakið til að reyna að koma auga á hann.
Dömu slakað niður fangelsismúr
Tveimur mánuðum síðar er Jack að þvælast með einum kollega sínum, Benson. Þeir ganga fram á öskureiðan mann sem hellir sér yfir vændiskonu og sakar hana um að hafa reynt að stela vasaúri hans. Benson ákveður að losa manninn við úrið en þjófnaðurinn misheppnast.
„Vasaþjófur! Stöðvið þjófinn!“ hrópar maðurinn.
Jack og Benson leggja strax á flótta en vörður nær að grípa Jack og fer með hann fyrir dómara. Enn á ný verður Sheppard að eyða nóttinni í fangelsi, í þetta sinn St. Annes Roundhouse. Um morguninn kemur Bess í heimsókn en verðirnir ætla að þetta sé eiginkona hans og loka hana inni í klefanum með honum.
Parið er flutt til New Prison og sett þar í sérlega öruggan klefa. Margir koma í heimsókn til þeirra og sumir með þjófalykla og þjalir svo að flóttinn með hina umfangsmiklu Bess getur hafist.
Teikningar af Bess sýna hana oft nokkuð grannari en hún var í raun.
Án vandkvæða losar Jack sig við hlekkina. Þessu næst sargar hann í sundur járnstöng í fangelsisglugganum. Bess er fyrirskipað að taka eins mikið af klæðum af sér eins og hún getur. Jack býr til reipi úr klæðunum sem hann bindur um mitti hennar áður en hann ýtir skrokki Bess út um gatið í glugganum. Síðan slakar hinn þrælsterki þjófur henni hægt og rólega niður og fylgir sjálfur á eftir. Þau lenda inni hjá nágrannanum – öðru fangelsi.
Frá Clerkenwell Bridewells fangelsisgarði þurfa þau að fara yfir sjö metra hátt hlið til að sleppa út á götu. Hinn lipri Jack finnur fótfestu á boltum og hjörum og klifrar upp á hliðið. Þaðan kastar hann aftur reipinu niður til Bess sem hann dregur síðan upp. Þegar hún er komin í öruggt skjól hinum megin fylgir hann á eftir henni.
Spilltur armur laganna hefst handa
Allt þetta hefur einungis tekið hann um tíu mínútur og fyrir vikið verður Jack Sheppard nýjasta stjarnan í undirheimum Lundúna. Þrautreyndir hrappar sem og vongóðir nýir lukkuriddarar bjóðast til að vera í slagtogi með þessum 22 ára gamla þjófi og flóttakóngi sem að sprangar grobbinn um í svörtum silkifötum sem hann hefur stolið.
En ákærurnar á hendur honum hlaðast upp og dag einn tekur löggæslumaðurinn – kallaður „Thief-Taker General“ – Jonathan Wilde við einu máli Jacks.
Wilde hefur um langa hríð fylgst með Jack – en af allt öðrum ástæðum. Þótt hann starfi við að leita uppi þjófa er hann í raun gjörspilltur og er með puttana í flestum glæpum undirheimanna. Menn hans taka margsinnis þátt í þjófnaði og tilkynna síðan til Wilde sem geymir þýfið. Síðan getur Wilde, rétt eins og dugmikill embættismaður, skilað þýfinu til baka til eigendanna og uppskorið dágóð fundarlaun.
Verðir laganna stjórnuðu ræningjum Lundúna
Í upphafi 18. aldar herjuðu þjófar og ræningjar á Londonbúa – og ekki var mikil hjálp í yfirvöldum. „Þjófa-fangararnir“ voru nefnilega einnig glæpamenn. Það var fyrst um miðja 18. öld sem lögregluþjónar komu til skjalanna.
Þjófa-fangarinn Jonathan Wilde var nánast óskrifað blað þar til hann hafnaði 30 ára gamall í skuldafangelsi árið 1710. Þar gat Wilde aurað saman peningum með því að sinna erindum fangavarðanna. Og með þeim hætti var hann fær um að borga skuld sína eftir aðeins tvö ár og var sleppt lausum. Skömmu síðar – árið 1713 – fékk hann að starfa sem aðstoðarmaður hjá löggæslumanni Lundúna – eða „Thief-taker-general“ Charles Hitchen.
Hitchen var rekinn fyrir spillingu og Wilde var skjótur að nýta sér aðstæður. Hann innréttaði sína eigin skrifstofu á gistihúsinu „Blue Ball“. Þangað gátu borgarar leitað ef þeir voru rændir og Wilde tók á móti þeim með hárkollu og silfurslegnum staf.
En þessi nýi löggæslumaður var einnig spilltur. Hann stjórnaði gengi þjófa sem komu með afraksturinn til hans. Þegar borgarar sneru sér til Wilde gat hann einatt skilað þeim þýfinu og hlaut umbun að launum.
Þetta var ábatasamur starfi – allt þar til Wilde var afhjúpaður og dæmdur til dauða árið 1725. Á þeim tíma höfðu íbúar Lundúna fyrir löngu misst trúna á að einkaaðilar gætu framfylgt lögunum. Þessu var breytt þegar dómarinn Henry Fielding stofnaði árið 1749 flokk sex lögregluþjóna sem fengu föst laun og þurftu því ekki að kúga fé út úr glæpamönnum, né krefja löghlýðna borgara um fundarlaun.
Ef einhver manna hans verður til trafala svíkur Wilde hann og getur þannig fengið 40 punda verðlaun sem samsvarar verði á sjö hestum. Með sama hætti ryður Wilde öllum keppinautum úr vegi, vilji þeir ekki samvinnu – og nú er komið að Sheppard. Þessi dáði þjófur neitar að deila þýfi sínu með Wild.
Undir lok júlí hefur Jack, ásamt forherta hrappinum Joseph „Blueskin“ Blake, verið önnum kafinn við að ræna vegfarendur á þjóðvegum norðan við London. Í millitíðinni tekst Wild að finna Bess á gistihúsi, þar sem hann fyllir hana með áfengi. Bess sem er dauðhrædd við Wild, greinir honum frá því að Jack haldi til hjá móður „Blueskins“ við Rosemary Lane.
Hægri hönd Wildes, Quilt Arnold, tekur stefnuna þangað og skömmu síðar má sjá í tímaritinu Daily Journal: „Í gær var Sheppard, alræmdur innbrotsþjófur sem flúði síðast frá New Prison, settur inn í Newgate eftir að Jonathan Wilde fangaði hann“.
Fullir fangaverðir
Í stærsta og elsta fangelsi Lundúna, Newgate nærri Saint Hall Cathedral, hefur orðspor Jacks þegar borist. Hann er maðurinn sem vandræðalítið hefur brotist út úr tveimur öðrum fangelsum. Þess vegna er Jack settur í klefa þar sem varðmenn geta fylgst grannt með honum. En hann má enn fá heimsóknir og þann 31. ágúst dúkkar Bess upp ásamt vinkonu sinni.
Konurnar tvær veita áfengi og spjalla við varðmennina sem smám saman verða ölvaðir og gleyma hinum mikilvæga fanga. Á meðan sargar Jack þverbita í fangelsishurðinni í sundur með verkfæri sem dauðadæmdur meðfangi hefur gefið honum. Síðan læðist hann út úr fangelsinu.
Með eð fótahlekki dírkar hann upp sex dyr og kemst upp á þak fangelsisins.
Helsta afrek Jack Sheppards, flóttinn úr öryggisfangelsinu „Slottinu“ í Newgate – fangelsinu.
Jack veit að hann ætti að fara núna í felur, því að dauðadómur hefur verið kveðinn yfir honum. En hann óttast leiðindi meira en gálgann og þann 5. september mölvar hann rúðu hjá úrsmið eftir lokunartíma og nælir sér í þrjú silfurúr.
Hann selur fljótt eitt þeirra og með peninga í vasanum fer Sheppard á fyllerí.
Alls staðar eru einhverjir sem þekkja til hans á knæpunum og hver sem er getur klagað hann til Wild. Það eru samt varðmennirnir við Newgate sem grípa hann um morguninn þann 10. september á markaðinum Finnsley Common norðan við Lundúnir.
Háöryggisklefi engin áskorun
Þegar Jack er kominn aftur í Newgate er hann settur í hámarksöryggisklefa sem nefnist „Slotið“.
Hann er hlekkjaður við gólfið með tveimur þungum keðjum um ökklana og eins settur í handjárn. Síðan sýna verðirnir feng sinn stoltir en forvitnir áhorfendur verða að borga til þess að fá að sjá þennan víðfræga flóttakonung í klefanum.
Jack er í besta skapi og lætur brandarana fjúka á meðan hann íhugar enn einn flóttann. Um miðjan október hefst hann handa. Eftir að hafa sagt góða nótt við varðmennina sem færðu honum mat, losar hann um hlekkina með ryðguðum nagla sem hann hafði fundið á gólfinu.
Jonathan Wilde var hengdur eftir að hans eigin handlangari afhjúpaði tvöfeldni hans.
Hann losar um járnstöng sem var uppi í skorsteininum og með henni getur hann hoggið í gegnum loft klefans en þar fyrir ofan er tómt herbergi. Hann er enn með fótahlekkina þegar hann dírkar upp sex dyr og kemst upp á þak fangelsisins.
Meðferðis er hann með reipi sem hann hefur búið til úr sængurfötunum og lætur sig síga niður á þak á næsta húsi þar sem hann opnar varfærnislega glugga. Meðan íbúar hússins sofa læðist hann niður tröppurnar og út á götu.
Flóttakóngur endar í gálganum
Fréttirnar um seinasta flótta Jack Sheppards berast eins og eldur um sinu í London – og í Newgate telja varðmennirnir að djöfullinn sjálfur hafi hjálpað honum út. En frelsi flóttakóngsins stendur ekki lengi. Snemma morguns þann 1. nóvember 1724 handtekur Jonathan Wild, ásamt mönnum sínum, ofurölvi Sheppard sem er kominn á ný í svört silkiklæði og státar af stolinni hárkollu.
Síðasta flóttatilraun Jack Sheppards var stöðvuð og eftir eitt og hálft ár sem þjófur endaði lærlingurinn fyrrverandi í gálganum.
Jack veit mæta vel að hann mun ganga upp í gálgann þann 16. nóvember og þannig slökkna allar vonir hans um nýjan stórkostlegan flótta fyrir augunum á um 200.000 Lundúnaborgurum. Varðmenn hans fundu nefnilega hnífinn sem hann hugðist skera kaðalinn í sundur með. Nokkrum mínútum seinna dinglar hann líflaus fyrir augum áhorfenda sem fyrirlíta hann – en höfðu á sama tíma vonast til þess að sjá flóttakónginn sleppa undan dauðanum.
Lestu meira um Jack Sheppard
Aaron Skirboll, The Thief-Taker Hangings, LYONS PR, 2020
Lucy Moore, The Thieves’ Opera, Viking, 1997