Móteldur er eldur, sem kveiktur er framan við aðsteðjandi eld.
Móteldinum er ætlað að brenna upp eldsmat og skapa autt belti sem aðaleldurinn nær ekki að komast yfir.
Ef vel tekst til má þannig stöðva aðaleldinn, en jafnframt getur verið hætta á að menn missi tök á móteldinum og hann breiðist út og ástandið versni þannig enn. Það er því ekki á færi annarra en mjög reyndra manna að kveikja móteld.
Best áhrif hefur móteldur ef unnt er að kveikja hann svo nálægt aðaleldinum að hann „sogist“ að meginbrunanum. Þetta er mögulegt vegna þess að aðaleldurinn veldur miklum hita þannig að loft stígur upp og megineldurinn veldur þannig lágþrýstisvæði sem sogar til sín loft úr nágrenninu. Sé móteldurinn kveiktur í réttri fjarlægð berst hann því að aðaleldinum, en ekki til annarra átta.
Þar sem skógareldar eru tíðir, er eldur notaður beinlínis til að koma í veg fyrir elda. Þetta er gert með því að brenna ákveðin, afmörkuð svæði, nægilega stór til þess að skógareldur nái ekki óviðráðanlegri stærð. Til eru þó allmörg dæmi þess að menn hafi misst tökin á slíkum eldum.