Vælið í loftvarnarflautunum að morgni 20. júlí árið 1974 boðaði endalok tiltekins tímabils. Loftvarnarflauturnar vöruðu íbúana 600.000 við því að tyrknesk herskip og flugvélar væru á leiðinni.
Skömmu síðar stigu um 40.000 tyrkneskir hermenn á land og eyjan hefur allar götur síðan verið klofin í tvennt, sitt hvoru megin við hlutlaust svæði, þar sem tíminn hefur staðið í stað í hálfa öld.
Ástæða þess að Tyrkir stigu á land á Kýpur var valdaránstilraun fimm dögum áður. Hinn 15. júlí hafði herforingjastjórnin í Grikklandi, ásamt grísk-kýpverskum þjóðernissinnum reynt að steypa forseta Kýpur, Makaríosi erkibiskup 3., af stóli. Biskupinn slapp naumlega. Markmið valdaræningjanna var að sameina Kýpur og Grikkland í eitt ríki, svokallað „enósis“.
Þetta gátu Tyrkir ekki sætt sig við og réðust fyrir vikið inn í Kýpur undir því yfirskini að ætla sér að verja Kýpur-Tyrki eyjarinnar sem alls voru um 115.000 talsins. Valdaræningjarnir gáfust upp örfáum dögum eftir innrás Tyrkja en tyrknesku hermennirnir urðu eftir á eynni og stækkuðu hernumda svæðið til muna.
Afleiðingarnar urðu þær að um 180.000 Kýpur-Grikkir neyddust til að flýja mót suðri á meðan um 40.000 Kýpur-Tyrkir flýðu norður á bóginn. Eyjan hefur verið klofin í tvennt allar götur síðan.
Klofin Kýpur
Græna: Græna línan, varnarsvæði stjórnað af SÞ
Blár: Breska herstöðvarsvæði
Rauður: Kýpur-tyrkneska svæði
Bleikt: Grísk-kýpverska svæði

Kort af skiptingu Kýpur árið 1974.
Valdarán flæmdi forsetann á brott
Árið 1974 gegndi Makaríos erkibiskup embætti forseta Kýpur. Biskupinn sem var Kýpur-Grikki, hafði barist gegn breskum nýlenduyfirráðum allan sjötta áratuginn og fyrir sameiningu Kýpur og Grikklands.
Makaríos féll þó frá sameiningarkröfunni árið 1958 og var tveimur árum síðar kjörinn forseti eyjarinnar eftir að hún öðlaðist sjálfstæði.
Grískir þjóðernissinnar voru þó áfram hlynntir sameiningu. Þeir gerðu tilraun til að bola Makaríosi frá völdum árið 1974 en honum tókst að komast undan.

Makaríos forseti barðist fyrir sameinaðri Kýpur en Tyrkir óskuðu þess hins vegar að eynni yrði skipt.
Ferðamenn í miðri ringulreið
Fimm dögum eftir valdaránið gegn Makaríosi forseta stigu tyrkneskir hermenn á land á Norður-Kýpur. Þúsundir neyddust til að leita sér skjóls undan sprengjunum í hótelkjöllurum, svo og undir brúm.
„Eiginkona mín og ég hugsuðum með okkur að gaman væri að koma til baka og njóta orlofsins í friði og spekt“, sagði Bretinn Haydon Jones blaðamanni í miðri ringulreiðinni en Jones hafði áður gegnt herskyldu á Kýpur.
Haydon Jones heyrði hávaðann í landgöngufarartækjunum og orrustuþotunum út um hótelgluggann.

Ferðamenn földu sig inni á baðherbergi á hóteli í Nikósíu á meðan bardagar geisuðu á hótelinu og umhverfis það.
Græn blýantslína aðgreindi íbúana
Hinn 22. júlí 1974 tókst SÞ að knýja fram vopnahlé á svæðinu. Tyrkir réðust engu að síður til atlögu á nýjan leik í ágúst. Á einungis tveimur dögum tókst þeim að leggja undir sig alls 37 hundraðshluta eyjarinnar.
Í kjölfarið var Kýpur skipt í suðurhluta sem laut grískum yfirráðum og norðurhluta sem laut stjórn Tyrkja. Höfuðborginni á Kýpur, Nikósíu, hafði áratug áður verið skipt í tyrkneskan og grískan borgarhluta. Græna línan kallast borgarmörkin, sökum þess að þau voru fyrst teiknuð á kort með grænum blýanti.
Eftir árið 1974 skipti græna línan sem er 180 km á lengd, Kýpur og þar með einnig deiluaðilunum, eftir endilöngu

Í Nikósíu hafa grískir og tyrkneskir hermenn fylgst hvorir með öðrum í fimmtíu ár, sitt hvoru megin við grænu línuna.
Farþegaþota fór aldrei í loftið
Árið 1974 var helsti flugvöllurinn á Kýpur sem deiluaðilarnir börðust ákaft um, um 8 km vestur af Nikósíu. Að vopnahléinu loknu tóku hermenn SÞ völdin á flugvellinum. Á flugbrautinni var þá að finna fjórar farþegaþotur frá kýpverska flugfélaginu Cyprus Airways.
Einni flugvélinni höfðu tyrkneskar sprengjur grandað en tveimur hafði hins vegar verið flogið til Englands örfáum árum síðar. Fjórða vélin stendur enn óhreyfð á mannlausum flugvellinum og bíður örlaga sinna.
Farþegaþotan frá kýpverska flugfélaginu Cyprus Airways, vél af gerðinni Trident 5B-DAB, stendur enn óhreyfð á flugvellinum í Nikósíu.
Þykkt lag af dúfnaskít þekur flugstöðina þar sem þúsundir áður biðu þess að komast leiðar sinnar.

Farþegaflugvélin frá Cyprus Airways – af gerðinni Trident 5B-DAB – er enn þann dag í dag á flugvellinum í Nicosia.
Í áratugi lifði Castro í lífshættu þegar CIA sendi á hann morðingja, eitraða vindla og sprengiefni.
Flugstöð breyttist í dúfnasælureit
Árið 1968 gátu íbúarnir í Nikósíu státað sig af glænýrri flugstöð sem rúmaði alls 800 farþega og ellefu flugvélar.
Sex árum síðar hafði flugstöðin verið yfirgefin og laut eftir það yfirráðum hermanna Sameinuðu þjóðanna. Næstu fimm áratugina voru það einungis dúfur sem nýttu sér flugstöðina sem urmull af farþegum hafði farið um daglega áður.

Þykkt lag af dúfnaskít liggur yfir flugstöðinni þar sem þúsundir ferðamanna biðu flugs eitt sinn.
Nýr bíll skilinn eftir hjá bifreiðaumboðinu
Græna línan sem liggur í gegnum höfuðborgina Nikósíu, er um þrír km að lengd og allt að 250 metra breið. Íbúarnir urðu að flýja í hasti frá hlutlausa svæðinu árið 1974 eftir að hermennirnir yfirgáfu svæðið og þeir áttu aldrei afturkvæmt.
Ljósmyndari einn tók þessa mynd í fyrra af nýinnfluttri bifreið af gerðinni Toyota en bílinn er enn að finna í mannlausum húsakynnum bifreiðaumboðsins.

Á hlutlausa svæðinu í Nikósíu er allt nokkurn veginn eins og það var þegar svæðið var rýmt árið 1974. Hermenn Sameinuðu þjóðanna hafa þó haft aðgang að svæðinu allar götur frá árinu 1974.
Síðasta klofna höfuðborgin í Evrópu
Allt frá því er Berlínarmúrinn féll árið 1989 hefur Nikósía verið eina tvískipta höfuðborgin í Evrópu. Tíminn hefur staðið í stað á herlausa svæðinu milli suður- og norðurhluta borgarinnar.
Verslanir, veitingastaðir, verkstæði og íbúðarhúsnæði er að öllu jöfnu að finna í sama ásigkomulagi og var þegar eigendurnir flýðu árið 1974. Hvort þeim nokkurn tímann verður leyft að snúa aftur þykir mjög vafasamt.

Mannlausar íbúðirnar bera þess merki að íbúarnir hafi neyðst til að yfirgefa þær í flýti. Ljósmyndin var tekin árið 2023.
Ferðamannaparadísin á Kýpur breyttist í draugabæ
Þegar Tyrkir gerðu árás á eyna í ágúst árið 1974 lögðu þeir undir sig Famagústa, mikilvægustu hafnarborg eyjarinnar. Íbúarnir voru um 40.000 talsins, mestmegnis Kýpur-Grikkir. Rétt sunnan við gömlu borgina var að finna Varosha, einn vinsælasta ferðamannastað heims.
Árás Tyrkjanna gerði það að verkum að íbúarnir flýðu. Tyrkneski herinn innsiglaði samstundis bæinn Varosha og hafa byggingarnar þar staðið mannlausar allar götur síðan.

Kirkjur og íbúðarhús grotnuðu niður í Varosha, vinsælli náttúruparadís sem nær yfir um það bil sex ferkílómetra svæði suður af Famagusta.
Draugabærinn var opnaður ferðamönnum
Næstu fimm áratugina sáu tyrkneskir hermenn til þess að engir fengju aðgang að ferðamannastaðnum Varosha.
Árið 2020 byrjuðu Tyrkir að hleypa ferðamönnum inn á lítinn hluta svæðisins og síðan hafa nokkur svæði til viðbótar verið opnuð, einkum hinar þekktu strendur í Varosha. Opnun ferðamannastaðanna hefur vakið gagnrýni Kýpur-Grikkja og stórs hluta af alþjóðasamfélaginu.

Ferðamönnunum er gert að yfirgefa Varosha á kvöldin. Hér má sjá einmana lögreglumann á vakt í mannlausum götum þessa draugabæjar í fyrra.
Dýrin á eynni þrífast vel við grænu línuna
Herlausa svæðið sem aðgreinir norður- og suðurhlutann, hefur reynst náttúrunni gagnlegt en svæðið er alls 180 km langt.
Einungis liðsmenn Sameinuðu þjóðanna hafa aðgang að svæðinu sem hefur fyrir vikið þróast í það að vera eins konar óopinbert náttúruverndarsvæði. Þar hefur kýpverskt múfflonfé fundið sinn griðastað en kindur þessar eru í útrýmingarhættu og fyrirfinnast hvergi annars staðar en á Kýpur.
Sömu sögu er að segja af leðurblökutegundinni sem nefnist „egypskur flughundur“ sem einnig er í útrýmingarhættu. Þetta á einnig við um margar aðrar tegundir sjaldséðra plantna og dýra sem þrífast vel á mannlausum svæðunum.
Vöxtur dýralífsins er ein af fáum björtum hliðum harmleiksins á Kýpur.
