Lifandi Saga

Fangar í útrýmingarbúðum fölsuðu peninga fyrir nasista

Í seinni heimsstyrjöldinni ætluðu nasistar að dreifa milljónum falsaðra peningaseðla á Englandi – til að kollvarpa efnahag landsins. Verkið var unnið af gyðingaföngum í Sachsenhausen fangabúðunum. Daginn sem fölsuninni lyki myndu þeir allir deyja.

BIRT: 05/09/2024

Þegar fyrir fundinn 8. maí 1942 skynjaði SS liðsforinginn Bernhard Krüger að eitthvað mikið væri í uppsiglingu. Hann hafði verið kallaður á „áríðandi fund“ og átti að hitta yfirmann utanríkisleyniþjónustu SS, Walther Schellenberg.

 

Krüger kom inn á skrifstofu yfirmanns síns í Berlín. Herbergið var eins og blanda virkis og fjarskiptamiðstöðvar.

 

Þaðan var bein símalína til Adolfs Hitlers, leynilegir hljóðnemar voru faldir í lömpunum og ljósnemar í veggjunum gátu greint óboðna gesti. Sem lokaöryggi hafði Schellenberg látið fela tvær vélbyssur í skrifborði sínu sem beindust að gestinum.

 

„Ég hef boðað þig hingað til að gefa þér mikilvæga skipun frá Reichsführer SS,“ sagði Schellenberg og vísaði til SS leiðtogans Heinrich Himmler. „Þessi skipun krefst þess að öllum nauðsynlegum ráðum verði beitt strax til að framleiða enska pundseðla“.

 

Markmiðið var að varpa fölsuðu peningunum yfir England svo breskir borgarar myndu taka þá upp og nota þá. Hið mikla peningamagn myndi skapa verðbólgu, valda því að efnahagur landsins myndi hrynja og eyðileggja þannig bardagamátt Bretlands.

 

„Það verður að finna vinnuafl í fangabúðunum af gyðinglegum uppruna“, bætti Schellenberg við.

 

Fyrir hina útvöldu fanga varð hin svokallaða „Bernhard-aðgerð“ bæði blessun og bölvun. Annars vegar lengdi hin stórleynilega aðgerð líf gyðingafalsaranna – hins vegar áttu þeir á hættu að verða skotnir hvenær sem var til að halda aðgerðinni leyndri.

 

Handlagnir handverksmenn

Ákvörðun um að nota falsaða peninga sem vopn í stríðinu var tekin af háttsettum SS-mönnum þegar haustið 1939, tveimur vikum eftir að stríðið hófst. En enginn hafði séð fyrir erfiðleikana sem verkefnið myndi lenda í.

 

Það var ekki fyrr en árið 1942 að sérfræðingum í Hahnemühle pappírsverksmiðjunni tókst að framleiða fullkomna fölsun á hinum sérstaka strigapappír sem breski landsbankinn, Englandsbanki, notaði. Nú varð þetta að ganga hratt fyrir sig. Bernhard Krüger var send skipun í hinar stóru kz-fangabúðir:

 

„Þú verður tafarlaust að upplýsa um alla gyðingafanga sem hafa þekkingu á prentverki, sérfræðinga í pappír og aðra handverksmenn (t.d. hárgreiðslufólk),“ sagði í símskeyti.

Pappírsmassi er unninn úr viðartrefjum, bómull og öðrum plöntum. Vatni og ýmsum efnum er bætt við meðan á ferlinu stendur.

Peningaseðlar úr gömlum tuskum

Englandsbanki notaði pappírstegund sem Þjóðverjar gátu ekki komist yfir. Leitin að nothæfum staðgengli stóð yfir í meira en ár.

 

Fyrsta skrefið í fölsunarverkefninu var að komast að því hvaða pappír Bretar notuðu. SS menn sendu breska seðla til greiningar hjá nokkrum tækniháskólum. Svar sérfræðinganna var ótvírætt:

 

Seðlarnir voru úr strigaefni, unnu úr hör. Þess vegna pantaði SS nokkur tonn af hör frá Tyrklandi og lét framleiða fyrsta prufuseðilinn en hann reyndist ekki sambærilegur ófölsuðum seðlum. Rannsakendur reyndu þá að bæta við mismunandi efnum, án árangurs.

 

Loksins áttuðu þeir sig á því hvar mistökin lágu: Breski striginn var notaður! Samstundis var tyrkneska líninu dreift til verksmiðja í Berlín þar sem það var notað í hreinsiklúta. Því næst var klútunum safnað saman aftur, þeir hreinsaðir og unninn úr þeim pappír.

 

Nýtt teymi sérfræðinga tók að sér að afrita bresku vatnsmerkin sem birtust í sérstakri samsetningu ljósra og dökkra merkja á pappírnum.

 

Loks í desember 1940 hafði SS safnað nægilegri þekkingu á breska seðlapappírnum. Framleiðslu seðlapappírs var útvistað til Hahnemühle pappírsverksmiðjunnar nálægt Hannover. Verksmiðjan sem stofnuð var árið 1584, bjó yfir nauðsynlegri sérfræðiþekkingu til framleiðslu á sérstökum pappír.

 

Áður en starfsmenn verksmiðjunnar hófu störf í verksmiðjubyggingu norður af Berlín þurftu þeir að sverja þess eið að tala aldrei um verkefni sitt. Á næsta ári gerðu þeir fjölmargar tilraunir til að komast að því hvernig hægt væri að framleiða seðlana.

 

Í þessu ferli komu fram nokkur bresk leyndarmál. Í ljós kom meðal annars að upprunalegu seðlarnir voru húðaðir með sérstökum efnum sem gaf brúnum seðlanna sérstakan ljóma þegar seðillinn blotnaði.

 

Vorið 1942 gat Hahnemühle loksins hafið framleiðslu.

Farmiði frá Auschwitz

Bernhard Krüger vissi að gyðingarnir voru sérlega hentugt vinnuafl fyrir verkefnið sem bar nafn hans – „Bernhard-aðgerðin“. Þeir voru mjög hæfir og auðvelt var að fjarlægja þá þegar aðgerðinni var lokið.

 

Einn fanganna sem vakti áhuga Krügers var slóvakíski gyðingurinn og leturgerðarmaðurinn Adolf Burger. Eftir hernám Þjóðverja í Slóvakíu árið 1938 hafði Adolf Burger farið neðanjarðar og framleitt fjölda falsaðra kaþólskra skírnarskírteina fyrir gyðinga landsins, svo þeir mættu sleppa við fangabúðirnar.

 

Gestapo elti Burger uppi og lét senda hann til Auschwitz fangabúðanna. Eftir því sem mánuðirnir liðu varð Burger sífellt verr á sig kominn af hungri og vosbúð. Honum var sagt að 23 ára eiginkona hans, Gisela hefði verið send í gasklefann. Nú var hann að búa sig undir að deyja sjálfur.

 

Einn daginn var honum skipað að gefa sig fram til Rudolfs Höss herbúðaforingja. Hvers vegna? Burger gat aðeins hugsað um eina ástæðu, gasklefann.

 

„Fangi Burger?“ spurði Höss.

 

„Staða – leturgerðarmaður?“ „Já!“

 

„Herra Burger. Það er þörf fyrir sérfræðing eins og þig í Berlín. Þangað ertu að fara“, sagði Höss blíðri röddu.

 

Þetta var í fyrsta skipti í 18 mánuði sem ekki var hrópað á Adolf Burger sem „fanga númer 64 401“. Hann var samt áhyggjufullur yfir því hvert hann yrði sendur.

 

Aðrir útvaldir fangar voru ákafari. Þeir myndu gera allt til að komast í burtu frá vísum dauða í fangabúðunum.

 

Þegar hollenskur leturgerðarmaður í Auschwitz var ráðinn var vinur hans, Max Groen fljótur að segja að hann hefði einnig starfað í iðninni. Þetta var örvæntingarfull lygi. Samt kallaði Krüger hann inn:

 

„Hvað veistu um lagfæringar á prentverki?“

 

Max Groen mundi eftir bók sem hann hafði einhvern tíma blaðað í. „Amerískar aðferðir,“ sagði hann.

 

„Ó, þú meinar jákvæða lagfæringu,“ sagði Krüger. Max Groen fékk að fara með.

Árið 1942 var Bernhard Krüger gerður yfirmaður yfir peningafölsun nasista sem var kölluð „Bernhard-aðgerðin“.

Fangarnir voru fluttir til Sachsenhausen fangabúðanna 30 km norður af Berlín. Búðirnar voru ekki útrýmingarbúðir – fangarnir þar voru vinnuafl fyrir vopnaiðnaðinn og byggingariðnaðinn. Samt viðgekkst þar óhugnanlegt ofbeldi og aftökur.

 

Burger var leiddur til sérstaks hluta búðanna sem var falinn á bak við háa plankagirðingu. Hér voru skálar 18 og 19.

 

Peningafölsurum safnað saman

Þegar fangarnir sem voru sérvaldir komu til Sachsenhausen kynnti Krüger þeim væntanlegt verkefni þeirra: Þeir áttu að framleiða fölsuð skjöl og vegabréf – en umfram allt milljónir breskra punda. Hann lagði áherslu á að starfið væri háleynilegt. Enginn mátti hafa samband við neinn utan hópsins.

 

Þess vegna voru skálar 18 og 19 með sína eigin varðmenn og sinn eigin lækni. Krüger minnti fangana jafnframt á að hann hefði bjargað þeim öllum frá „vísum dauða“ í útrýmingarbúðunum:

 

„Ef þú vinnur vinnuna þína vel þarftu ekki að óttast neitt. Einn daginn mun stríðinu ljúka og þá muntu geta yfirgefið þetta herbergi. Þú munt líklega geta skilið að við getum ekki veitt þér fullkomið frelsi. Verk þitt verður að eilífu að vera leyndarmál. Skilaðu góðu starfi og sigur okkar mun verðlauna þig,“ lofaði Krüger.

 

Hann hafði komið upp fullkomnu fölsunarverkstæði – eða öllu heldur verksmiðju – með leturgerðarverkstæði, ljósmyndastofu, talningarstofu og sex nútíma prentvélum, þar af fjórum af nýjustu gerðinni, Monopol Type 4.

Aðrir fangar í Sachsenhausen höfðu ekki hugmynd um hvað fór fram í skálum 18 og 19.

Það var létt yfir föngunum að vera fjarri útrýmingarbúðunum – í Sachsenhausen var þeim meira að segja tekið tiltölulega vel. Þeir fengu stærri matarskammta, sitt eigið rúm, skáp fyrir persónulega muni og var leyft að klæðast borgaralegum fötum.

 

Hins vegar vissu fangarnir að þeir geymdu leyndarmál sem nasistar myndu gera allt til að vernda.

 

„Ég var sannfærður um að ég myndi ekki lifa af,“ útskýrði Burger í viðtali eftir stríðið.

 

„Þegar ég gekk í gegnum hliðið vissi ég að ég yrði drepinn fyrr eða síðar. Í mjúku rúminu mínu hugsaði ég aðeins eina hugsun: Ég er dáinn maður í leyfi“.

 

Mennirnir höfðu misst fjölskyldu og vini í útrýmingarbúðunum. Nú sáu sumir þeirra tækifæri til að hefna sín.

 

Prentari frá Berlín, Max Bober, reyndi að fá hina til að stunda skemmdarverk með því að vinna hægt og illa: „Við erum með vopn í höndunum sem við verðum að nota“, fullyrti hann.

 

Meirihluti fanganna hafnaði hugmyndinni og einbeitti sér að því að lifa af: „Hér höfum við þak yfir höfuðið, sagði Artur Tuppler, KZ-fangi. ,,Og þurfum ekki að sjá fólk frjósa í hel. Gerum það besta úr stöðunni“.

Fangar í Sachsenhausen strituðu í gæslu SS-hermanna.

Sachsenhausen var kz-skóli

SS byggði kz-deild Sachsenhausen fangabúðanna árið 1936. Búðirnar voru aðeins 30 km norður af Berlín og það, hve stutt var í höfuðstöðvar Gestapo gaf búðunum sérstaka stöðu í fangabúðakerfi nasista: Það var þar sem nýir herforingjar og varðmenn fengu þjálfun sína.

 

Alls voru um 200.000 fangar settir í búðirnar þar sem þeir þurftu m.a. að vinna fyrir flugvélaframleiðandann Heinkel og raftækjasamsteypuna AEG. Sumir fangar gengu sér til dauða þegar þeir voru að prófa herstígvél fyrir þýska herinn. Alls létust u.þ.b. 100.000 fangar í búðunum.

 

Meðal þekktustu fanga í búðunum voru elsti sonur Stalíns, Jakov Dzhugashvili, Georg Elser sem árið 1939 reyndi að drepa Hitler með sprengju og danski kommúnistaleiðtoginn Aksel Larsen sem síðar stofnaði SF flokkinn.

 

Eftir seinni heimsstyrjöldina notuðu Sovétmenn Sachsenhausen sem fangabúðir fyrir fyrrverandi nasista og andstæðinga nýrrar kommúnistastjórnar á sovéska hernámssvæðinu.

Í dag eru búðirnar safn um bæði nasista- og sovéttímann.

Bankinn samþykkir seðlana

Enginn þeirra hafði verið peningafalsari fyrir stríðið. Á meðan þeir prófuðu sig áfram lærðu þeir handverkið, kynntust leturgerð og prenttækni. Þeir áttu einnig að finna leynileg öryggismerki á bresku seðlunum.

 

Einkum gerði hin svokallaða „Britannia-medalía“ (mynd af konu í blaktandi kjól efst til vinstri á seðlunum) þá brjálaða með smásæjum smáatriðum og földum merkjum í myndinni.

 

Allt varð að vera fullkomið, hafði Krüger fyrirskipað. Við hverja tilraun urðu fangarnir betri og seðlarnir nákvæmari.

 

Þetta lýjandi starf var unnið á tvískiptum vöktum og vélarnar gengu linnulaust. Hrúgur af £5, £10, £20 og £50 seðlum streymdu út úr prentvélunum.

 

Allir seðlar voru skoðaðir vandlega og flokkaðir eftir gæðum. Þeir voru síðan skráðir og búntaðir saman eins og í alvöru banka. Peningalagerinn var kallaður „Bank of England“.

 

En Krüger var ekki sáttur fyrr en seðlarnir höfðu staðist prófið. Dag einn árið 1943 var fangi sendur undir eftirliti í Ríkisbankann í Berlín með fulla tösku af fölsuðum pundseðlum. Hann átti að skipta seðlunum til að kanna hvort gjaldkeri bankans mundi sjá í gegnum fölsunina. Allir seðlarnir voru samþykktir.

Skálarnir tveir sem hýstu „Bernhard-aðgerðina“ voru faldir á bak við þriggja metra háa girðingu.

Hin leynilega peningaverksmiðja nasistanna

Vinnustofa falsaranna var svo leynileg að ekki einu sinni vopnaðir verðir sem gættu girðinganna umhverfis búðirnar vissu hvað þar fór fram. Sem auka öryggisráðstöfun var oft skipt um gæslumenn og þeir sendir til austurvígstöðvanna.

 

Alls gátu 140 fangar hreyft sig frjálslega í herbergjum sínum og andað að sér fersku lofti í garðinum en þeir fengu ekki að sjá umheiminn.

 

Þannig tryggði yfirmaður fölsunarinnar, SS-foringinn Bernhard Krüger, að aðgerðin héldist sem leyndarmál allt til stríðsloka.

Þeir veiku teknir af lífi

Eitt af fyrstu skilyrðunum sem fangarnir þurftu að venjast var algjör einangrun í miðjum annars yfirfullum fangabúðunum. Dag einn kviknaði eldur í þaki eins herbergisins en verðir með vélbyssur komu í veg fyrir að fangarnir gætu forðað sér og að slökkviliðsmenn utan frá kæmust inn til aðstoðar.

 

Til þess að bjarga lífi sínu þurftu fangarnir því að skipuleggja í flýti sitt eigið slökkvistarf.

 

Á sama tíma hvíldi óvissa yfir þeim allan tímann. Veikindi og vinnuslys gætu þýtt dauða, því Krüger neitaði að senda nokkurn mann til aðhlynningar á sjúkrastofu Sachsenhausen.

 

Það gæti stefnt leynilegri aðgerðinni í hættu. Þess í stað voru sjúkir drepnir – eins og henti ungan kennara frá Póllandi sem reyndi að leyna því að hann væri með berkla. Þegar hann hóstaði upp blóði einn daginn gerði Krüger sér lítið fyrir og lét taka hann af lífi. Alls voru sjö veikir fangar sem störfuðu við „Bernhard-aðgerðina“ teknir af lífi.

 

Krüger gætti þess þó að ganga ekki of hrottalega fram. Halda þurfti góðu andrúmslofti meðal fanganna. Hann vissi af reynslu að óánægt verkafólk gæti dregið úr framleiðslunni.

 

Og fangarnir hans höfðu jú sterkan hvata til að tefja verkið, því svo lengi sem aðgerðin stóð yfir héldu þeir lífi.

 

Aðgerðin breytir um markmið

Krüger ákvað að sameina svipuna og gulrótina: Halda skyldi aga á föngunum með hótunum og jafnframt hvetja þá áfram af von.

 

Hann vildi vinna traust þeirra með bónusum fyrir gott starf: hvíld á sunnudögum, tóbaksskömmtum og betri mat. Hann lét meira að segja setja upp borðtennisborð í garðinum á milli skálanna tveggja og leyfði þeim að hlusta á þýska útvarpið.

 

„Þetta var taugatrekkjandi tími,“ sagði norski fanginn og leturgerðarmaðurinn Moritz Nachtstern um dvölina.

 

„Ef þeir lokuðu verksmiðjunni verður leiðin að gasklefanum ekki löng fyrir okkur“.

Fölsuðu pundseðlarnir voru svo vel gerðir að eftir stríðið ákvað Englandsbanki að gefa út nýja seðla af öryggisástæðum.

Seðill með földum gildrum

Seðlabanki Englands óttaðist falsanir og útbjó seðlana með margs konar leynilegum öryggismerkjum.

 

Áður en hin mikla fölsun nasista gat hafist þurftu SS og kz-fangarnir frá Sachsenhausen að kortleggja öll öryggismerkin sem Englandsbanki hafði sett á seðlana. Fyrir utan vatnsmerki og eiginleika pappírsins voru flest öryggismerkin leynileg – aðeins starfsmenn National Bank of England vissu af þeim.

 

Eitt mikilvægasta merkið var raðnúmer seðilsins. Þýskir stærðfræðingar strituðu í marga mánuði áður en þeir komu fram með jöfnuna sem ásamt útgáfudegi myndaði „raunverulegt“ raðnúmer.

 

Önnur öryggismerki sáust varla með berum augum eða litu út eins og litlar prentvillur. Í raun og veru voru þau vandlega úthugsaðar gildrur. Til að finna þau voru ekta enskir ​​seðlar stækkaðir sex sinnum og rannsakaðir vandlega.

 

Kz-fangarnir komust til dæmis að því að hin svokallaða Britannia-medalía efst í vinstra horni seðilsins innihélt þrjú leynimerki: fimm punkta á hægri hendi gyðjunnar, sérstakan skugga við spjót hennar og rofna hárlínu. Fangarnir kölluðu hana „bannsettu Britanniu“.

 

Það voru líka þrír sakleysislegir punktar við hlið pundmerkisins og tveir punktar undir nafni seðlabankastjóra. Þegar búið var að kortleggja öryggismerkin gátu fangarnir loksins hafið fölsun.

Nasistar hættu ekki að falsa, þvert á móti. Þeir voru komnir með nýja hugmynd: Í stað þess að henda peningunum yfir England og skapa efnahagslegan glundroða ætti að nota þá til að veita Þýskalandi forskot í stríðinu.

 

Landið þurfti sárlega á gjaldeyri að halda til að kaupa vopn og hráefni – og til að greiða erlendum umboðsmönnum sínum. Með næstum fullkomnu fölsuðu seðlunum hafði landið fengið milljónir punda til umráða.

 

SS skipaði hinn þekkta svindlara, nasista, njósnara og vopnasala Friedrich Paul Schwend sem yfirmann þessa hluta aðgerðarinnar.

 

Í gegnum hjónaband sitt við barónessu hafði hann fengið aðgang að efstu lögum þjóðfélagsstigans og lifað lúxuslífi á Ítalíu í stríðinu. Nú byggði hann upp net u.þ.b. 50 manna sem skiptu fölsuðum peningum í grandalausum bönkum í Sviss og gerðu upp viðskiptin í hlutlausu löndunum.

 

„Við gátum fengið allt sem vantaði í stríðinu – frá amerískum jeppum til joðflaskna,“ hrósaði Schwend sér af eftir stríðið.

Pundseðillinn var martröð

Englandsbanki óttaðist falsanir og útbjó seðlana með ótal leynilegra öryggismerkja. En nasistar fundu leið.

Britannia-medalían

var full af illgreinanlegum gildrum.

Ójafn kantur

Það þurfti sérstaka lagni til að ná fram réttum ójöfnum á brún seðilsins.

Dagsetningin

Útgáfudagurinn staðfesti seríunúmer seðilsins. Þýskir stærðfræðingar fundu út hvernig átti að gera það rétt.

Undirritun

innihélt tvo mikilvæga punkta.

Vatnsmerki

Brot úr bókstaf átti að sanna að seríunúmer seðils væri rétt.

Pundseðillinn var martröð

Englandsbanki óttaðist falsanir og útbjó seðlana með ótal leynilegra öryggismerkja. En nasistar fundu leið.

Britannia-medalían

var full af illgreinanlegum gildrum.

Ójafn kantur

Það þurfti sérstaka lagni til að ná fram réttum ójöfnum á brún seðilsins.

Dagsetningin

Útgáfudagurinn staðfesti seríunúmer seðilsins. Þýskir stærðfræðingar fundu út hvernig átti að gera það rétt.

Undirritun

innihélt tvo mikilvæga punkta.

Vatnsmerki

Brot úr bókstaf átti að sanna að seríunúmer seðils væri rétt.

Krüger opnar dollaraverkstæði

„Herrar mínir!“ Bernhard Krüger fór inn á fölsunarverkstæðið þar sem fangarnir unnu. Það var í september 1944 og fölsunin hafði staðið yfir í u.þ.b. tvö ár. „Frá og með deginum í dag munum við líka framleiða dollaraseðla!“

 

Ákvörðuninni bar saman við komu nýs fanga. Í ágúst 1944 var horaður og tötralegur 57 ára gamall Rússi með pókerandlit fluttur í búðirnar.

 

„Að starfsgrein er ég falsari og jafnvel meðal óvina minna er ég viðurkenndur sem listamaður í iðn minni,“ sagði Salomon Smoljanov.

 

„Nú höfum við sérfræðinginn okkar“, fagnaði Krüger ákaft en stríðsgæfan hafði snúist við fyrir Þýskaland.

Í Patina-deildinni áttu fangar að vera sæmilega óhreinar hendur.

Óhreint og götótt

Nýir og ónotaðir seðlar vekja grunsemdir. Því var sérstakur hópur fanga settur í að krumpa fölsuðu seðlana, gera þá óhreina og gata þá með nálum.

 

Þegar í prentunarferlinu bættu kz-fangarnir kemískum efnum í blekið, þannig að liturinn varð örlítið óskýr. Síðan voru arkirnar settar á þurrkgrind og síðan rifnar í fjóra einstaka seðla með stálreglustiku. Að lokum voru hliðarnar pússaðar með málmraspi til að líkja eftir ójöfnum brúnum. En að öðru leyti litu seðlarnir út sem nýir.

 

Fjöldi fanga með óhreinar hendur gaf því næst seðlunum notað yfirbragð með því að nudda, brjóta saman og krumpa. Seðlarnir voru líka stungnir með nálum því Þjóðverjar vissu að enskir ​​bankamenn notuðu nælur í stað gúmmíteygja þegar þeir búntuðu seðlana saman.

 

Fangarnir skrifuðu ensk orð með upprunalegu ensku bleki og stimpluðu nöfn enskra banka á bakhliðina – allt til að láta líta út fyrir að seðllinn ætti sér sögu.

 

Seðlarnir voru síðan sléttaðir og búnkaðir. Þeir voru fullkomnir – tilbúnir til notkunar í Evrópu.

 

Seðlarnir höfðu í raun aðeins einn lítinn galla: Til að vara við fölsuninni stungu fangarnir nælu í gegnum Britannia-medalíuna. Þeir reiknuðu ekki með að breskur bankastarfsmaður myndi nokkurn tíma gera það.

Strax 6. júní 1944 höfðu fangarnir heyrt fréttir útvarpsins í Berlín um „huglausa árás“ bandamanna – það sem síðar varð þekkt sem D-dagur. Fangarnir vissu að tíminn var að renna út. Í stað þess að leggja sig alla fram við vinnu sína hægðu þeir á sér og biðu eftir endalokunum.

 

Sprengjunum rigndi yfir Berlín. Kannski yrði Sachsenhausen líka útrýmt með miskunnsamri sprengjuárás, vonuðu fangarnir. Það væri betra en dauði í gasklefanum.

 

Dollarafölsunin fór aldrei af stað. Einungis 200 seðlar voru prentaðir.

Samuel Willenberg barðist gegn sovéskri innrás inn í Pólland. Hann tók þátt í Varsjáruppreisninni gegn þýsku hernámsliði – vel að merkja, eftir að hafa náð að flýja úr útrýmingarbúðum nasista í Treblinka

Dag einn í mars 1945 rann Mercedes bifreið Krügers inn í búðirnar.

 

„Yfirmenn mínir í Berlín hafa ákveðið að flytja verksmiðjuna á öruggari stað,“ sagði hann.

 

Fangarnir fengu 36 klukkustundir til að pakka allri fölsunarverksmiðjunni í kassa og hlaða þeim í lest. Fram á síðustu stundu óttuðust þeir að verða teknir af lífi en SS hafði skipulagt þægilegan flutning: upphitaðan nautgripavagn með heyhrúgum svo að fangarnir gætu hvílt sig á leiðinni suður til Redl-Zipf búðanna nálægt Salzburg.

 

Þar var stefnt að því að framleiðsla hæfist að nýju í gömlum námugöngum. Krüger heimsótti fanga sína í síðasta sinn. Hann virtist þreyttur.

 

„Í dag er ég enn í einkennisbúningi. Hver veit hvað gerist á næstu dögum“, sagði hann og lagði handlegg sinn vingjarnlega um öxl Smoljanovs.

 

„Ég hef gefið fyrirmæli um að flytja þig á öruggan stað þar til þú verður látinn laus“.

Frjálsir falsarar: 5. maí árið 1945 lauk martröðinni loks. Fangarnir gátu yfirgefið búðir sínar og farið aftur til heimalandanna.

Í raun og veru höfðu SS-sveitirnar ætlað að grafa fangana lifandi í námugöngunum en tókst ekki að framkvæma það áður en Bandaríkjamenn frelsuðu fangabúðirnar.

 

Max Groen sem hafði logið sig inn í „Bernhard-aðgerðina“ hitti bandarískan liðþjálfa. Bandaríkjamaðurinn byrjaði að tala um fjölskyldu sína og dró myndir upp úr vasa sínum. Groen leit snöggt á þær.

 

„Gefðu mér bara sígarettu,“sagði hann.

Árið 1959 tókst dagblaðinu Stern að fiska milljónir falsaðra pundseðla upp úr Toplitz vatni. Seðlarnir eru ættaðir úr „Bernhard-aðgerðinni“.

Milljónum punda var hent í fjallavatn

Á síðustu dögum stríðsins komu nokkrir flutningabílar að Toplitz-vatni. Heimamenn sáu þegar SS menn sigldu út og köstuðu þungum kössum í vatnið.

 

Sögusagnir fóru á kreik um austurríska vatnið Toplitzsee, 80 km austur af austurrísku borginni Salzburg. Í seinni heimsstyrjöldinni hafði þýski sjóherinn þar leynilega rannsóknardeild til að þróa nýjar tegundir vopna.

 

Á síðustu dögum stríðsins komu margir stórir vörubílar upp þrönga skógarveginn að Toplitz-vatni með þunga, vatnshelda kassa. Íbúum á staðnum var skipað að draga kassana niður að vatnsbakkanum þar sem þýskir hermenn stóðu tilbúnir til að sigla með þá út á vatnið og sökkva þeim á u.þ.b. 100 m dýpi.

 

Talið er að í kössunum hafi verið stolið gull og gimsteinar, reiðufé og mikilvæg skjöl sem nasistar vildu geyma til síðari nota.

 

Upp úr 1950 ákvað blaðamaðurinn Wolfgang Löhde hjá vikuritinu Stern að kanna málið frekar. Hann leitaði til sjónarvotta, fanga úr fangabúðum og stríðsglæpamanna og komst að því að margir nasistar höfðu sloppið eftir stríðið með því að nota fölsuð vegabréf sem fangar fangabúðanna frá Sachsenhausen höfðu framleitt.

 

Sumarið 1959 fékk Löhde leyfi austurrískra yfirvalda til að senda kafara í Toplitz-vatn. Þeir fundu fljótt sjö kassa sem innihéldu samtals 73 milljónir falsaðra breskra punda og nasistaskjala – þar á meðal lýsingar á „Bernhard-aðgerðinni“.

 

Málið svæft

Wolfgang Löhde náði ekki lengra áður en yfirmaður hans kallaði hann heim frá rannsókninni í Austurríki. Hvers vegna hann gerði það er óvitað.

 

Hugsanlega var málið orðið of umdeilt fyrir hið unga vestur-þýska ríki, því skjölin í vatninu hefðu getað leitt í ljós þann mikla stuðning sem framleiðsla fölsuðu peninganna sem framleiddir voru í Sachsenhausen hafði fengið.

 

Á næstu áratugum hefur Toplitz verið kannað nokkrum sinnum af köfurum. Í hvert sinn hafa þeir fundið falsaða pundseðla en öðrum meintum fjársjóðum hefur vatnið ekki enn sleppt takinu á.

 

Þess vegna er Toplitz vatn enn vinsælt skotmark vísindamanna og fjársjóðsveiðimanna sem vonast til að finna þar falin leyndarmál nasista.

EFTIRMÁLI

Eftir frelsun sína ákvað Adolf Burger að helga líf sitt baráttunni gegn nasisma. Bók hans „The Devil’s Workshop“ frá 1997 hefur verið gerð að kvikmynd („Falsararnir“ (e. The Counterfeighters)) og hlaut hún Óskarsverðlaun árið 2008.

 

Leiðtogi aðgerðanna, SS liðsforingi Bernhard Krüger, var í haldi bandamanna í stuttan tíma en tókst að sleppa og fara huldu höfði.

 

Í nokkur ár faldi hann sig hjá sínum gamla pappírsbirgi, verksmiðjustjóra Hahnemühle pappírsverksmiðjunnar. Honum tókst að sleppa við ákæru fyrir stærstu peningafölsun sögunnar og fyrir aftöku á sjö veikum föngum í kz-fangabúðunum.

LESTU MEIRA

Adolf Burger: The Devil’s Workshop – A Memoir of the Nazi Counterfeiting Operation, Frontline Books, 2009  

 

Lawrence Malkin: Krüger’s Men, Little, Brown & Co., 2008.

 

HÖFUNDUR: HAKON MOSBECH

© Polfoto/DPA & Scala/BPK,© Getty images,© British National Archives,© Archives of the Former Soviet Union & Scala/BPK,© Shawshots/Imageselect,© Getty Images,© Shutterstock,© Elisabeth Sandmann Verlag,© Polfoto/Ria Novosti

Náttúran

Bakteríur örva ilminn af sumarregni

Heilsa

Vísindamenn finna sjálfsmorðshnapp krabbans

Alheimurinn

Ný gerð geimhylkis snýr lendingu alveg á haus

Maðurinn

Er hægt að verða sólbrúnn í skugga?

Maðurinn

Gerið það sama og þúsundir gera á samfélagsmiðlum: Verið þakklát og lifið lengur

Maðurinn

Þannig getum við nýtt drauma okkar

Heilsa

Kostir þess að vera nátthrafn

Jörðin

Jörðin eftir manninn

Maðurinn

Bakteríur leysa vind í munni okkar

Lifandi Saga

Hvað átti sér stað við Wounded Knee árið 1973?

Maðurinn

Geta matvörur varið húðina gegn útfjólubláum geislum sólar?

Spurningar og svör

Hvað á eiginlega að gera við kjarnorkuverið í Tjernobyl?

ÁSKRIFT AÐ VÍSINDI.IS

Prófaðu í 14 daga ókeypis!

  • Fullur aðgangur að vefnum okkar með rúmlega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Lifandi vísindi/Lifandi saga í rafrænni útgáfu á vefnum,
  • Aðeins 1.790 krónur á mánuði.
  • Engin skuldbinding – Þú getur hætt hvenær sem er.

ÁSKRIFT AÐ TÍMARITINU

Þrjú tölublöð + gjöf: Skemmtilegur sjónauki
  • Þrjú næstu tölublöð Lifandi vísinda/Lifandi sögu – sent heim til þín – eins færðu lítinn og vandaðan sjónauka að gjöf.
  • Fullur aðgangur að vefnum okkar – visindi.is – með tæplega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Spennandi greinar og flottar myndir sem svala forvitni þinni.
  • Þú getur hætt eftir tilboðið en ef þú heldur áfram skuldbindur þú þig aðeins þrjú tölublöð í einu og þú getur sagt upp hvenær sem sem og klárar þá tímabilið sem er hafið.
  • Venjuleg áskrift – þrjú tölublöð – kostar aðeins 7.590 kr

Sjónauki og þriggja blaða áskrift – Alls 3.800 kr.

Lifandi vísindi

Lyf

Lifandi saga

Search

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Innskráning

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Viltu lesa greinina?

Fáðu aðgang að visindi.is

Ókeypis í 2 vikur!

Eftir það kostar eingöngu 1.790 kr. á mánuði og enginn uppsagnarfrestur.

Innifalið er aðgangur að öllum greinum á vefnum ásamt rafræna útgáfu af nýjustu tölublöðunum.

  • Fullur aðgangur að visindi.is
  • Frábærar myndir og myndbönd
  • Aðgengilegt í öllum snjalltækjum
  • Fullur aðgangur að gríðarlegu magni eldri greina
  • Nýjustu tölublöðin í rafrænu formi

Núverandi áskrifendur að tímaritinu fá að sjálfsögðu ókeypis aðgang að vefnum og þurfa bara að virkja aðgang sinn hér.

Ef þú ert þegar áskrifandi að visindi.is