Fimm ástæður þess að Ríkharður ljónshjarta var misheppnaður

Ljónshjarta sigraði Saladin og var í miklum metum hjá hirðskáldum, en þegar kom að því að stjórna konungsríki var kóngurinn frekar misheppnaður.

BIRT: 16/01/2022

LESTÍMI:

4 mínútur

Enski konungurinn Ríkharður 1. er álitinn hafa verið mikil stríðshetja. Heiðurinn á hann ekki hvað síst því að þakka að hafa ítrekað borið sigur úr býtum gegn soldáninum Saladín í þriðju krossferð sinni á árunum 1189 til 1192. Viðurnefnið „ljónshjarta“ öðlaðist konungurinn vegna mikillar velgengni í styrjöldum.

 

Ríkharður raunveruleikans naut hins vegar ekki mikillar velgengni. Þrátt fyrir ofangreinda sigra tókst honum aldrei ætlunarverk krossferðanna, þ.e. að endurheimta heilögu borgina Jerúsalem frá Múhameðstrúarmönnum og ferill hans sem konungur er ekki næstum því eins glæstur og viðurnefnið gefur til kynna. Ríkharður áleit stríð og bardaga nefnilega æðra öllu öðru og þetta hafði skelfilegar afleiðingar fyrir bæði England og konunginn sjálfan.

 

Krossferðirnar og annar stríðsrekstur átu upp fjárhirslur ríkisins og ákefðin fyrir að hljóta sigra í framandi löndum hafði það í för með sér að Ríkharður vanrækti sitt eigið land.

 

Hann fórnaði meira að segja þeim eignum sem faðir hans, Hinrik 2., hafði arfleitt hann að. Ríkiskassinn var galtómur og England í upplausn þegar Ríkharður lést árið 1199 en stríðsákefðin varð honum að bana.

 

Hér eru fimm ástæður fyrir því að Ríkharður ljónshjarta var misheppnaður:

1. KROSSFERÐIN MISTÓKST

Krossfarakonungurinn gafst upp á að sigra Jerúsalem

Þegar Saladín, herforingi Múhameðstrúarmanna, hertók Jerúsalem árið 1187 og náði henni úr höndum kristnu krossfaranna lagði Ríkharður ljónshjarta upp í krossferð. Hann, ásamt öðrum kristnum konungum, hugðist leggja undir sig hina glötuðu höfuðborg krossfaranna.

Sigrar Ljónshjarta gegn Saladín var vinsælt umfjöllunarefni í hinum kristna heimi.

Herferðin mistókst, sökum þess að herforingjana greindi á um hvaða herkænskuaðferð skyldi beitt. Ríkharður áleit vænlegast að sigra Saladín með því að ráðast á Egyptaland, þar sem herforinginn hafði bækistöðvar sínar.

 

Leiðtogi franska hluta hersins var þessu alveg ósammála. Ríkharður neitaði að stýra sundruðum hernum og krossfararnir gáfust upp. Jerúsalem laut fyrir vikið áfram stjórn múslima.

 

2. EIGNAÐIST EKKI ERFINGJA

 

Barnleysi leiddi af sér ógurlegt stríð

Ríkharður ljónshjarta lifði mestöll hjúskaparár sín aðskilinn frá eiginkonu sinni, Berengaríu og hjónanna varð ekki barna auðið. Skorturinn á löglegum erfingja hafði afdrifaríkar afleiðingar fyrir bæði England og önnur ríki í Evrópu. Andlát konungsins leiddi nefnilega til mestu og lengstu deilna miðaldanna, þ.e. hundraðárastríðsins milli Englands og Frakklands.

 

Stríðið snerist um eignir Englendinga í Frakklandi. Ríkharður erfði landareignirnar sem náðu yfir helming Frakklands, eftir föður sinn, Henrik 2. Þessar eignir, ásamt gjörvöllu Englandi og hluta af Írlandi og Wales, mynduðu hið svonefnda angevínska ríki.

Angevíska ríkið (hér merkt með appelsínugulu) teygði sig frá Skotlandi yfir til Pýreneafjalla.

Frakkland leit á England sem keppinaut sinn því bæði veldin höfðu hug á að ríkja yfir Evrópu. Þegar Ríkharður lést árið 1199 hófu Frakkar fyrir vikið landvinningaherferðir gegn ensku svæðunum.

 

Stríðið leiddi af sér hundraðárastríðið sem hófst árið 1337 en í því báru Frakkar sigur úr býtum. Angevínska ríkið leystist upp og árið 1558 misstu Englendingar síðustu frönsku landareignina, Calais.

 

3. TÆMDI RÍKISSKASSANN

 

Konungurinn skattpíndi þegna sína

Ríkiskassinn var sneisafullur þegar Ríkharður tók við krúnunni eftir daga föður síns, Hinriks 2., árið 1189. Krossferðirnar gengu á peningaforðann og innan tíðar hækkaði Ríkarður skattana sem íbúunum bar að greiða.

Ríkharður lét ekki slá mikla mynt í eigin nafni. Mynt föður hans var álitin vera trúverðugri.

Þó keyrði fyrst um þverbak þegar Leópold, hertogi Austurríkis, tók Ríkharð sem gísl árið 1192 í deilum um herfangið úr þriðju krossferðinni. Hertoginn lofaði að leysa konunginn úr haldi gegn 150.000 þýskum mörkum í silfri sem samsvaraði 25,5 tonnum af hreinu silfri.

 

Til þess að unnt yrði að leggja fram þessa upphæð urðu þegnar Ríkharðs að greiða fjórðung tekna og eigna sinna í skatt. Klaustrin skyldu enn fremur sjá af heils árs framleiðslu ullar, samkvæmt upplýsingum sagnaritarans Ralphs af Diss.

 

4. LEYFÐI LÆVÍSUM BRÓÐUR AÐ STJÓRNA

 

Hann vanrækti föðurlandið

Ríkharður varði aðeins um sex mánuðum af tíu ára stjórnartíð sinni í Englandi. Bróðirinn Jóhann ríkti í fjarveru hans og fljótt fór að bera á löngun Jóhanns til að verða konungur sjálfur.

 

Metnaður þessi leysti úr læðingi ástand sem líktist borgarastríði þegar Jóhann með hersveitum sínum fór gegn trúföstum stuðningsmönnum bróður síns. Ríkharður fyrirgaf bróður sínum því hann taldi hann „lúta stjórn slæmra ráðgjafa“ en tók þó af honum margar landareignir.

 

5. TÓK ÁSTFÓSTRI VIÐ STRÍÐ

 

Bardagafýsnin kostaði konunginn lífið og Englendinga sigurinn

Stríð skipti öllu máli fyrir Ríkharð ljónshjarta og enginn málstaður var of aumur til að hægt væri að berjast um hann með vopnum. Stríðsfýsnin átti þó eftir að koma konunginum í koll þegar hann háði stríð gegn Frakkakónginum Filip 2. á síðustu æviárunum.

 

Hersveitir Ríkharðs komust að lítilli höll sem kallaðist Châlus-Chabrol árið 1199. Höllin skipti engu máli í hernaðarlegum skilningi en konungurinn reyndi engu að síður að ná henni og landareignum henni tilheyrandi undir sig. Hann hóf umsátur um höllina en varð fyrir skoti úr lásboga í öxl. Sýking komst í sárið og lést Ríkharður af hennar völdum 11 dögum síðar.

 

Ríkharður lést hinn 6. apríl 1199. Hann var jarðsettur í Fontevraud-l’Abbaye í Frakklandi.

Sennilegt þykir að lítill drengur hafi skotið úr lásboganum en Ríkharður mun hafa orðið föður hans að bana. Bardagafýsnin kostaði konunginn lífið og Englendinga sigurinn, því eftirmaður Ríkharðs, Jóhann, neyddist til að gera friðarsamkomulag við Filip skömmu síðar.

Hér er hægt að lesa meira um Ríkharð ljónshjarta

  • W.B. Bartlett: Richard the Lionheart, Amberley, 2019

 

  • James Reston: Warriors of God, Faber & Faber, 2001

BIRT: 16/01/2022

HÖFUNDARÉTTUR MYNDA: © Wikimedia/ Luttrell Psalter, © Print Collector/Getty Images, © CNG

vinsælustu greinarnar

Lifandi vísindi

Lyf

Lifandi saga

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Innskráning

Ertu með áskrifandi að blaðinu?

Áskrifendur geta fengið áskrift af vefnum hér

Viltu lesa greinina?

Fáðu aðgang að visindi.is

Ókeypis í 2 vikur!

Eftir það kostar eingöngu 1.390 kr. á mánuði og enginn uppsagnarfrestur.

Innifalið er aðgangur að öllum greinum á vefnum ásamt rafræna útgáfu af nýjustu tölublöðunum.

  • Fullur aðgangur að visindi.is
  • Frábærar myndir og myndbönd
  • Aðgengilegt í öllum snjalltækjum
  • Fullur aðgangur að gríðarlegu magni eldri greina
  • Nýjustu tölublöðin í rafrænu formi

Núverandi áskrifendur að tímaritinu fá að sjálfsögðu ókeypis aðgang að vefnum og þurfa bara að virkja aðgang sinn hér.

Ef þú ert þegar áskrifandi að visindi.is