Mörg myndum við trúlega reyna ljónsöskur ef við værum beðin um að herma eftir risaeðlu.
Það virðist þó ekki rétta aðferðin ef ætlunin er að líkja eftir hljóðum ankylosauruseðlu sem var í hópi brynvarinna grasbíta en óskyld fuglum.
Rannsóknir japanskra vísindamanna á steingervingum benda nefnilega til að ankylosaurus hafi ekki aðeins tjáð sig með hávaða.
Steingert barkakýli
Niðurstaðan byggist á steingervingi sem grafinn var upp í Mongólíu árið 2005.
Vísindamennirnir álíta þarna vera fundið fyrsta barkakýli úr risaeðlu. Þetta þykir áhugavert þar eð raddböndin sitja í skjóli aftan við barkakýlið.
Þetta barkakýli hefur verið úr beinum en ekki brjóski og vísindamennirnir gátu borið það saman við ýmsar fuglategundir og skriðdýr, þar á meðal krókódíla, gekkóeðlur og skjaldbökur.
Niðurstaðan varð sú að neðsti hluti barkakýlisins hafi verið mun stærri en í öðrum dýrum.
Hinn hlutinn var mjög aflangur að lögun og minnir talsvert á þau bein sem fuglar nota til að breyta lögun barkans þegar þeir tísta eða kvaka í mismunandi tónhæð.
Hvorki öskur né píp
Uppgötvunin bendir til að eðlan hafi hljómað svipað og krókódíll en hins vegar kannski getað sett inn blæbrigði á sama hátt og fuglar sem ýmist kvaka eða kurra.