Það kviknar ekki í lofti, jafnvel þótt súrefnismagnið sé aukið. Súrefni brennur ekki, heldur nærir brunann og þess vegna er hættulegra að hafa opinn eld í nágrenni við mikið súrefni.
Ef t.d. er kveikt á kerti þar sem súrefni í loftinu er meira en það er að jafnaði, brennur kertið hraðar og bruninn getur orðið hættulegur.
Til að bruni geti orðið þarf þrennt að vera til staðar; eldfimt efni, súrefni og hiti.
Þegar efni brennur myndar það efnasamband við súrefni og við það myndast meiri hiti en bruninn þarf til að hefjast. Af þessu leiðir að bruninn getur haldið áfram þangað til annað hvort gerist; að eldfima efnið er allt brunnið eða súrefnið þrýtur. Að auki getur eldur slokknað með kælingu, t.d. af völdum vatns.
Loftið í gufuhvolfinu er að jafnaði gert úr 78% af köfnunarefni og 21% af súrefni auk lítils magns annarra lofttegunda.
Köfnunarefni brennur ekki þar eð það myndar ekki samband við súrefni nema fyrir tilverknað meiri orku en bruninn myndi framleiða og af gastegundum er allt of lítið í loftinu til að þær geti valdið bruna í loftinu.