Herraklúbburinn Norden, tómstundaklúbburinn Trú, von og kærleikur, sparnaðarfélagið Centrum.
Við fyrstu sýn hljóma nöfnin á sumum af svokölluðum hringasamtökum í Berlín á Weimar-tímanum harla sakleysislega. Og ef litið var í stofnskrá þeirra mátti sjá að þessi samtök sinntu m.a. mikilvægu starfi við að koma fyrrum föngum út í samfélagið og aðstoða fjölskyldur ef fyrirvinnan var á bak við lás og slá.
En þetta var einungis skálkaskjól. Upp úr 1920 og allt fram að valdatöku nasista árið 1933 var Berlín miðstöð skipulagðrar glæpastarfsemi.
Meðan í New York voru mismunandi fjölskyldur sem stýrðu slíkri starfsemi voru það í þýsku höfuðborginni hringasamtök og leiðtogar þeirra sem stjórnuðu öllu.
Samtök þessi höfðu verið til allt frá lokum 19. aldar en efldust til muna á róstursömum þriðja áratugnum þegar eftirspurn eftir hvers konar ólöglegri afþreyingu var mikil og efnahagsaðstæður neyddu marga út í ólöglega starfsemi.
Eiturlyf, vændi af öllu tagi, veðmálasvik, verndargreiðslur og hótanir voru hversdagslegar og meðlimir slíkra samtaka gátu oft mútað lögreglunni, til að sleppa, að snúa blinda auganu að þessari starfsemi.
Hve mikið borgaði Þýskaland í stríðsskaðabætur?
Eftir síðari heimsstyrjöldina sendu sigurvegararnir Þýskalandi risavaxinn reikning fyrir stríðsbröltið.
Almenningur studdi einnig við bak þeirra enda hafði samtökunum tekist að stilla sér upp sem eins konar Hróa Hattar-týpum sem gáfu fátækum mæðrum og börnum peninga og höfðu það heiðurssamkomulag að beita almenna borgara aldrei ofbeldi.
Það var ekki fyrr en Hitler komst til valda og tók stjórn á öllu í þýsku samfélagi að hringasamtökin urðu að kasta handklæðinu í hringinn og margir leiðtogar enduðu í fangabúðum.
Það eru ýmsar skýringar á því af hverju þessi samtök voru nefnd hringasamtök. Sumir telja að það sé vegna þess að meðlimirnir hafi borið sérstaka hringa, aðrir telja að þetta heiti sé komið af hnefaleikahringjum enda voru miklir peningar í umferð í kringum þá íþrótt.
Eins hefur verið nefnt að samtök þessi höfðu hver sitt yfirráðasvæði sem lágu eins og hringur í kringum miðborg Berlínar.