Við teljum samhverfa andlitsdrætti vera meira aðlaðandi en ella. Þetta hefur löngum verið talin vera staðreynd en þegar hópur vísindamanna víðs vegar að úr heiminum gerði tilraun í janúar árið 2024 sem snerist um að láta þátttakendur velja fegurstu andlitin meðal þúsunda hvaðanæva úr heiminum kom svolítið annað í ljós.
Og þetta er í raun ekki eina nýja uppgötvunin.
Á undanförnum árum hafa verið gerðar mýmargar rannsóknir sem komu nákvæmlega upp um innbyggðar skekkjur líkamans og í ljós hefur komið að það er okkur til mikilla hagsbóta að hægri og vinstri hlutar okkar eru ekki nákvæmar spegilmyndir.
Mishverfan auðveldar nefnilega ekki einvörðungu að unnt sér að koma öllum líffærunum fyrir í líkamanum heldur skerpir hún jafnframt á nokkrum af allra mikilvægustu hlutverkum líkamans.
Líffærunum er pakkað líkt og í tösku
Flestöll dýr eru með líkama sem er samhverfur að mestu leyti og getur fyrir vikið skipst í hægri og vinstri hluta sem eru í raun spegilmyndir hvors annars. Þetta kallast einshliða samhverfa.
Ef við hugsum okkur sjávardýr í líkingu við ígulker og krossfiska verður samhverfan enn meiri. Dýr þessi hafa yfir að ráða svokallaðri geislóttri samhverfu, þar sem líkaminn er samhverfur allan hringinn og hverfist um miðlægan punkt.

Menn og flest dýr eru með samhverfar vinstri og hægri hliðar en þetta á hins vegar ekki við um efri og neðri hluta. Krossfiskar eru á hinn bóginn samhverfir að því leyti að þeir hverfast um miðlægan punkt.
Samhverfan auðveldar dýrinu að halda jafnvægi, þar sem þunginn dreifist jafnt til beggja hliða, auk þess sem dýrið kemst hraðar áfram því vöðvar og limir sitt hvoru megin geta samhæft hreyfingar sínar. Dýrunum myndi reynast langtum erfiðara að hreyfa sig ef þau t.d. væru útbúin einum aukalegum fæti öðru megin.
Þegar við hins vegar skyggnumst inn í búkinn gegnir allt öðru máli. Reyndar erum við útbúin nýrum og lungum með samhverfum hætti, sitt hvoru megin í bolnum en þau líffæri sem einungis fyrirfinnast í eintölu, svo sem eins og hjarta og lifur, eru staðsett í brjóstholinu og kviðarholinu, samkvæmt sömu mishverfu og þeim rýmissparandi aðferðum sem beitt er þegar við pökkum niður í ferðatösku.
Þó svo að heilinn í fljótu bragði virðist vera samhverfur, með heilahvelin tvö, er hann í raun mishverfur að öðru leyti. Vinstra heilahvel stjórnar nefnilega almennt hlutverkunum sem hægri hluti líkamans innir af hendi og öfugt. Hjá þeim sem eru rétthentir er það með öðrum orðum aðeins vinstra heilahvel sem eyðir orku í að stjórna fínhreyfingum í fingrum hægri handar. Sá hluti heilans sem stjórnar vinstri hönd þarf aðeins að inna af hendi grófari hreyfingar og getur fyrir bragðið varið meiri orku í önnur verkefni.
Líkami okkar er ósamhverfur
Ósamhverfa sem einnig nefnist mishverfa, ræður ríkjum í líkömum okkar. Líffærunum er raðað líkt og farangri í tösku og í heilahvelunum gætir mishverfunnar á annan hátt.
1. Hjartað einkennist af tvöfaldri ósamhverfu
Hjartað er að finna í vinstri hluta búksins og er auk þess með ósamhverfa lögun. Hægri hluti hjartans dælir súrefnissnauðu blóði stystu leið til lungnanna en vinstri hliðin sér um að dæla súrefnisríku blóði um allan líkamann og er fyrir vikið töluvert stærra.
2. Líffærin eru staðsett líkt og bitar í púsluspili
Það á við um mörg líffæri að við höfum einungis yfir að ráða einu eintaki af því, t.d. einni lifur og einum maga og eru þessi líffæri staðsett þar sem þau komast með bestu móti fyrir, líkt og þegar við röðum skóm í ferðatösku. Þó svo að við höfum yfir að ráða tveimur lungum er hið vinstra aðeins minna en hitt og skapar þar með rými fyrir hjartað.
3. Helmingar heilans eru sérhæfðir
Heilahvelin tvö vinna saman en bera meginábyrgð hvort á sínum hlutverkum. Vinstra heilahvel ræður ríkjum hvað snertir tungumál, rökfræði og rökgreiningu, á meðan það hægra stjórnar rýmiskennd okkar, hve fær við erum um að bera kennsl á andlit annarra, svo og skapandi hugsun.
4. Ríkjandi hönd léttir undir með heilanum
Hlutverkin sem við innum af hendi í öðrum hluta líkamans stjórnast af öndverðum heilahelmingi. Um níutíu af hundraði allra eru rétthentir, eins og það kallast og þegar hægri eða vinstri hönd sinnir fínhreyfingunum sparar það hinu heilahvelinu umtalsverða orku.
Líkami okkar er ósamhverfur
Ósamhverfa sem einnig nefnist mishverfa, ræður ríkjum í líkömum okkar. Líffærunum er raðað líkt og farangri í tösku og í heilahvelunum gætir mishverfunnar á annan hátt.
1. Hjartað einkennist af tvöfaldri ósamhverfu
Hjartað er að finna í vinstri hluta búksins og er auk þess með ósamhverfa lögun. Hægri hluti hjartans dælir súrefnissnauðu blóði stystu leið til lungnanna en vinstri hliðin sér um að dæla súrefnisríku blóði um allan líkamann og er fyrir vikið töluvert stærra.
2. Líffærin eru staðsett líkt og bitar í púsluspili
Það á við um mörg líffæri að við höfum einungis yfir að ráða einu eintaki af því, t.d. einni lifur og einum maga og eru þessi líffæri staðsett þar sem þau komast með bestu móti fyrir, líkt og þegar við röðum skóm í ferðatösku. Þó svo að við höfum yfir að ráða tveimur lungum er hið vinstra aðeins minna en hitt og skapar þar með rými fyrir hjartað.
3. Helmingar heilans eru sérhæfðir
Heilahvelin tvö vinna saman en bera meginábyrgð hvort á sínum hlutverkum. Vinstra heilahvel ræður ríkjum hvað snertir tungumál, rökfræði og rökgreiningu, á meðan það hægra stjórnar rýmiskennd okkar, hve fær við erum um að bera kennsl á andlit annarra, svo og skapandi hugsun.
4. Ríkjandi hönd léttir undir með heilanum
Hlutverkin sem við innum af hendi í öðrum hluta líkamans stjórnast af öndverðum heilahelmingi. Um níutíu af hundraði allra eru rétthentir, eins og það kallast og þegar hægri eða vinstri hönd sinnir fínhreyfingunum sparar það hinu heilahvelinu umtalsverða orku.
Líkt og sumir eru rétthentir og aðrir örvhentir erum við einnig útbúin ríkjandi auga, jafnvel þótt okkur óri ekki fyrir því.
Það reynir nefnilega mikið á heilann að greina öll sjónhrif í smáatriðum til þess að komast að raun um hvað það eiginlega er sem er þess virði að við tökum eftir því. Í raun réttri leggja sjónhrifin hald á allt að 40 prósent af afkastagetu heilans. Með því að annað augað er ríkjandi, t.d. þegar við lesum eða einblínum á tiltekinn hlut, fækkar heilinn um helming þeim skynhrifum sem við höfum þörf fyrir til að sjá í fullri skerpu.
Erfðavísar valda ágreiningi í heilanum
Rótin að virkri mishverfu heilans myndast strax á fósturstigi, þegar taugafrumurnar skiptast á ógnarhraða og senda frá sér langa taugaþræðina sem gera frumunum kleift að tengjast öðrum taugafrumum.
47 erfðavísar gera heilann ósamhverfan og fyrir vikið getur hvort heilahvel sinnt sínum sérstöku verkefnum.
Í því skyni að komast að raun um hvernig þessi umrædda þróun stjórnast hleyptu vísindamenn við Max Planck stofnunina í sálfræðilegum málvísindum í Hollandi af stokkunum viðamikilli rannsókn árið 2021 og fólst rannsóknin m.a. í að taka heilasneiðmyndir og greina erfðavísa úr rösklega 30.000 þátttakendum.
Niðurstöðurnar leiddu í ljós alls 47 erfðavísa sem eru virkir í fósturþróuninni og sem ráða því að heilinn verður mishverfur. Erfðavísarnir mynda nokkur vöðvaprótein sem sjá okkur fyrir eins konar innri beinagrind fyrir taugafrumurnar. Vísindamennirnir telja að þessi prótein séu ábyrg fyrir að togað er í taugafrumurnar og þar með stjórna þau vexti þeirra með þeim afleiðingum að heilinn verður ósamhverfur.
Áþekkt fyrirbæri er m.a. þekkt í sniglum þar sem samsetning erfðavísa og vöðvapróteins sér til þess að toga í frumur fóstursins og starfsemi þessi ræður því þannig hvort kuðungurinn vefst upp réttsælis eða rangsælis.
Hann berst með saur katta og ræðst til atlögu við heila okkar. Til allrar hamingju gerir hann okkur jafnframt ákaflega falleg. Nýjustu rannsóknir hafa leitt í ljós jákvæð áhrif sníkilsins bogfrymils (toxoplasma) á okkur mennina.
Þá skipta erfðavísar jafnframt sköpum fyrir það að andlit okkar verði ekki algerlega samhverf því þeir eiga m.a. þátt í að stjórna myndun beina, brjósks og bandvefs en allt þetta myndar burðargrindina fyrir andlitsdrættina.
Erfðafræðilegur munur á hægri og vinstri hlið kann að stafa af stökkbreytingum en kann jafnframt að eiga rætur að rekja til þess sem kallast formaukningarbreytingar sem verða til á fósturstigi eða síðar á ævinni. Hér er erfðatáknrófið óbreytt en þættir í umhverfi frumnanna, m.a. streita, sjúkdómur eða áhrif nágrannafrumna, gera það að verkum að erfðavísirinn verður meira eða minna virkur.
Andstætt við það sem við á um stökkbreytingar eru formaukningarbreytingar ekki arfgengar og fyrir bragðið er alls ekki víst að einstaklingur með skakkan kjálka eignist börn sem eru þannig útlítandi.

Leikarinn Bradley Cooper er með mishverfa andlitsdrætti. Á litlu andlitsmyndunum hefur annars vegar hægri og hins vegar vinstri andlitshelmingur verið speglaður til þess að gera andlitið samhverft.
Andlitið skekkist með árunum
Einstaklingar sem álitnir eru vera fallegir geta mæta vel verið með mishverf andlit að verulegu leyti. Sambland gena, umhverfis og tilviljana ræður því hvort augun verða í sömu hæð eða hvort e.t.v. hakan verður eilítið skökk.

1. Erfðavísar: Við erfum skakkt nef frá foreldrum okkar
Miðnesið milli nasanna bognar yfirleitt til annarrar hliðar með þeim afleiðingum að nefið verður eilítið skakkt. Þessi tiltekni andlitsdráttur er oftast nær arfgengur og orsakast af nokkrum ólíkum erfðavísum sem stjórna þróun og vexti beinanna og brjósksins.

2. Umhverfi: Höfuð barnsins mótast af leginu
Þegar frumurnar skiptast í fóstrinu getur sitthvað gerst sem hamlar vextinum. Ef höfuðið er óhagganlegt í leginu eða líknarbelgurinn myndar strengi umhverfis andlitið er hætt við að barnið fæðist með ósamhverfu sem kann að lagast eða þá verður varanleg.

3. Tilviljanir: Hraði frumnanna markar sín spor
Jafnvel þegar erfðavísar og umhverfi eru hvað ákjósanlegust á meðgöngunni geta tilviljanakennd tilbrigði í hraða frumuskiptinganna leitt til þess að fleiri eða færri frumur myndast öðru megin á andlitinu með þeim afleiðingum að t.d. kjálkinn skekkist.
Skakkur kjálki eða svokallað „blómkálseyra“ geta að sjálfsögðu einnig stafað af slagsmálum eða höggum á höfuðið. Sár sem sýking kemst í getur myndað örvef sem hefur áhrif á myndun andlitsdráttanna umhverfis sárið. Við getum með öðrum orðum þróað með okkur ósamhverfa andlitsdrætti þegar fram líða stundir en í bandarískri rannsókn frá árinu 2018 kom fram að líkurnar á mishverfu í andlitinu aukast um helming þegar aldurinn færist yfir okkur.
Konur eru með skökk eyru
Aðrir vísindamenn hafa rannsakað hvaða andlitsdrættir séu að öllu jöfnu ósamhverfastir, ef þannig má að orði komast. Í tyrkneskri rannsókn var mæld afstaða milli 42 ólíkra punkta, hægra og vinstra megin á andlitinu.
Niðurstöður frá rösklega 300 mönnum og konum leiddi í ljós að ósamhverfan var mest á þeim þriðjungi andlitsins sem liggur næst miðju, einkum í beini efri kjálkans, kinnbeinunum og neðri hluta augntóttanna. Þegar um var að ræða mun á afstöðu milli tveggja punkta sitt hvoru megin í andlitinu var munurinn mestur vinstra megin hjá 80 af hundraði þátttakenda.
Rannsóknin leiddi jafnframt í ljós að ósamhverf andlit eru tíðari meðal kvenna en karla. Misstór eyru eru t.d. algengari á konum, auk þess sem fjarlægð augnanna frá nefbakinu er oft á tíðum mismikil þegar konur eiga í hlut.

Vísindamenn hafa mælt afstöðuna milli 42 ólíkra punkta sitt hvoru megin á andliti alls 1.550 manns. Mælingarnar leiddu í ljós að konur eru oftar með ósamhverf andlit en við á um karla.
Til þessa hefur almennt verið álitið að samhverf andlit séu snotrari en þau mishverfu. Þetta væri óheppilegt fyrir margar konur en raunin er ekki sú sem talið hefur verið.
Alþjóðlegt vísindamannateymi, frá m.a. Tékklandi og Brasilíu, kannaði í janúar árið 2024 hverjum augum þátttakendur litu andlit alls 1.550 ólíkra karla og kvenna. Bæði þátttakendurnir og andlitin áttu rætur að rekja til margra ólíkra landa frá mestöllum heiminum.
Vísindamennirnir greindu jafnframt samhverfu allra andlitanna á sama hátt og gert hafði verið í tyrknesku tilrauninni og reiknuðu að sama skapi út í hve miklum mæli hvert andlit aðgreindi sig frá meðaltali allra andlitanna.
Finnið ósamhverfan maka
Niðurstöðurnar sýndu fram á að samhverf og mishverf andlit eru álitin vera jafn falleg. Engu máli skipti hvort annað eyrað var ögn stærra en hitt eða hvort augun voru eilítið skökk á höfðinu, svo fremi andlitsdrættirnir væru ekki mjög frábrugðnir meðaltalinu.
1.550 andlit voru metin af þátttakendum tilraunar. Í ljós kom að samhverfir drættir gerðu andlitin ekki meira aðlaðandi.
Gamla kenningin um að við hrífumst frekar af samhverfu gerði ráð fyrir að samhverfir andlitsdrættir bæru vott um sterkt ónæmiskerfi. Vísindamennirnir álitu sem svo að þeir sem væru með ósamhverft útlit hefðu megnað að vinna bug á streitu og sjúkdómum sem að öðrum kosti hefðu haft í för með sér fleiri mishverfa drætti en þessum hluta kenningarinnar hefur verið varpað fyrir róða.
Pólskir vísindamenn hafa rannsakað margar hliðar á viðbrögðum ónæmiskerfisins við inflúensu í tæplega 200 körlum og konum og borið niðurstöðurnar saman við að hve miklu leyti einstaklingarnir voru með samhverfa drætti.
Vísindamennirnir komust að þeirri niðurstöðu að engin tengsl væru milli samhverfra drátta einstaklinganna annars vegar og styrks ónæmiskerfisins hins vegar. Ef þessar niðurstöður reynast réttar aukum við ekki líkurnar á að eignast heilbrigð börn með því að velja maka með mjög svo samhverft útlit.
Ef nefið er eilítið skakkt eða þá annað brjóstið er stærra en hitt, þá er engin ástæða til að örvænta. Þið getið sem best haldið áfram að dást að eigin ósamhverfu, svo og ósamhverfu annarra.