50 metra há rannsóknastofa, í lögun eins og bauja, verður látin reka og rannsaka um leið heimshöfin án afláts allan sólarhringinn. Þetta er hugarfóstur franska flotaarkitektsins Jacques Rougerie og farartækið kallar hann SeaOrbiter.

Af alls 50 metra hæð verða 30 metrar alltaf neðansjávar og þannig skapast miklir möguleikar til rannsókna á dýralífinu í sjónum. Auk fjölda útsýnisglugga eru þrýstijöfnunarklefar þannig að vísindamenn geta farið í kafarabúning og synt út og sömu leið má senda fjarstýrða dvergkafbáta niður á mikið dýpi. Um borð eru vélar þannig að hægt er að hafa stjórn á farkostinum, en ekki er gert ráð fyrir að vélarnar séu notaðar nema í neyð, enda geta þær truflað dýralíf sem menn vilja komast sem allra næst.

Hönnunin var prófuð í bylgjutanki á síðasta ári og þá notað 3,5 metra líkan af SeaOrbiter. Eftir að nokkrar lagfæringar höfðu verið gerðar á kilinum, sýndu prófanirnar að farartækið þyldi allt að 15 metra ölduhæð. Jacques Rougerie gerir sér nú vonir um að þessi fljótandi rannsóknastofa verði tilbúin á næsta ári, en þar á að verða rými fyrir 18 vísindamenn.

"