Veiðihárin skrá form. Fræðimenn hafa skapað einskonar vélmennaveiðihár. Rétt eins og hjá köttum sýna þau að unnt er að fá þrívíða mynd af andliti með því að láta gerviveiðihárin snerta það.

Veiðihár eru sérhæfð hár sem virka eins og skynjarar til að finna fæðu og rata um í myrkri. Hárin eru einatt nærri gini og umhverfis nefið en þau geta einnig setið á öðrum stöðum og kettir hafa t.d. slík veiðihár um allan feldinn.

Hárin eru stíf og sterk en sveigjanleg og þau eru með hársekk umlukinn æðum og taugum er geta greint á milli smávægilegra hreyfinga. Kettir geta notað veiðihárin til að finna hvort hola er of lítil til að skríða í gegnum og veiðihár á líkamanum skynja minnstu breytingar í loftstraumum. Þannig getur kötturinn skynjað nálæga hluti. Mörg dýr hafa slík veiðihár. Það á við um sjávarspendýr eins og rostunga sem reiða sig algjörlega á slík veiðihár þegar þeir kafa niður í myrkrið í leit að kræklingum á botninum. Með þeim getur rostungurinn greint á milli hluta á stærð við strokleður.

Fræðimenn þekkja ekki enn alla virkni veiðiháranna, en út frá rotturannsóknum er vitað að mörg svæði verða fyrir áhrifum þegar veiðihárin eru klippt af. Geta dýrsins til að greina á milli yfirborða minnkar sem og rýmisskyn og sundhæfni. Aðrir fræðimenn hafa sýnt að selir með bundið fyrir augun geta fylgt smákafbáti eftir í margar mínútur. Talið er að veiðihárin greini „spor“ í sjónum sem selir nýta sér við veiðar.

Árið 2006 tókst bandarískum fræðimönnum að koma fyrir veiðihárum á vélmenni. Í tilraunum reyndust þau fær um að búa til nokkuð nákvæma mynd af fyrirbærum með því að greina sveigjuna við rót veiðihára við snertingu. Fræðimenn telja að aðferðir þessar megi einnig nýta á neðansjávarvélmenni.