Meðal 83 verkfæra úr tinnu voru hnífar, axir og ýmsar mismunandi sköfur.

Kameldýr, hestar, kindur og birnir. Öll þessi dýr voru á matseðli Clovis-þjóðarinnar sem uppi var í Norður-Ameríku fyrir 13.000 – 13.500 árum. Þessi nýja þekking á matarvenjum hinnar fornu þjóðar fékkst með greiningum á 83 steináhöldum sem fundust fyrir tilviljun á býli skammt frá Boulder í Colorado. Á tæplega hálfs metra dýpi kom venjuleg skófla niður á merkilegustu leifar sem fundist hafa frá Clovis-tímanum.

Steináhöldin hafa öll verið lífefnagreind og á þeim fundust prótínleifar úr ofannefndum dýrategundum. Það er þó ekki gerlegt að útkljá hvaða undirtegundir dýranna kunna að hafa verið hér á ferð.

Þetta er í fyrsta sinn sem leifar af kamelprótíni finnast frá dögum Clovis-menningarinnar, en hestaprótín hefur aðeins fundist einu sinni áður. Að öllu samanlögðu hefur aðeins fundist lítið eitt af áhöldum frá tíma Clovis-þjóðarinnar.

Meðal þessara 83 verkfæra er að finna hnífa, axir og sköfur. Einn hnífurinn er tvíeggja, ávalur, afar vel gerður og svo líkur öðrum hníf sem fannst í Yellowstone-þjóðgarðinum, að Douglas Bamforth, prófessor í mannfræði við Colorado-háskóla, þykist viss um að sami maður hafi smíðað þá báða.

Bamforth segir verkfærin 83 ekki hafa verið snert í mörg þúsund ár og er jafnframt viss um að þau hafi verið falin töluvert síðar en þau voru smíðuð. Sá eða þeir sem földu verkfærin, hafa trúlega reiknað með að geta sótt þau síðar, en af því hefur ekki orðið. Hugsanlega hefur eigandinn látið lífið áður en hann komst til að sækja „verkfærakassann“ sinn.