Hundar eru komnir af úlfum og báðar tegundir dingla skottinu þegar þær heilsa.

Hreyfingar skottsins eru mikilvægur hluti í samskiptum hjá öllum meðlimum hundafjölskyldunnar – auk hunda má nefna úlfa, refi, sléttuúlfa og sjakala. Hundar eru komnir af úlfum og þessar tvær tegundir greindust að fyrir um 100.000 árum. Það er skammur tími þróunarlega séð og því ekki að furða að margt sé líkt með samskiptum beggja tegunda.

Auk þess að urra, gelta og góla eiga hundar og úlfar samskipti með lykt og líkamstjáningu. Líkamstjáningin getur t.d. auðsýnt yfirburði þegar dýrið stendur upp með skott og eyru sperrt, árásarhneigð þegar dýrið sýnir tennur og ýfir feldinn. Og undirgefni þegar dýrið leggst niður með eyrun aftur. Þegar ráðandi félaga, sem hefur verið burtu skamma hríð, er heilsað dinglar dýrið skottinu og hoppar um – atferli sem við menn túlkum svo að hundurinn sé svo „glaður að sjá okkur“.