Gult sýnir ferðaleiðir í sól- eða tunglskyni, en blátt þegar engin kennileiti voru.

Fyrirbrigðið er þekkt úr frásögnum, bókum og kvikmyndum: Þegar maður villist endar maður oft á að ganga í hring og fara yfir sína eigin slóð. Tilraunir á vegum þýsku Max-Planck-stofnunarinnar í Tübingen sýna nú að þetta er ekkert bull.

Vísindamennirnir sendu sjálfboðaliða bæði í Bienwald-skóginn í Þýskalandi og eyðimörkina í Túnis til að athuga hæfni þeirra til að ganga sem beinasta leið um nokkurra klukkustunda skeið. Meðan sól eða tungl voru á lofti átti fólkið ekki í neinum vandræðum með að halda stefnunni, samkvæmt GPS-mælingum vísindamannanna. En áttaskynið brást illilega þegar mjög þungskýjað var eða ekki sást til tunglsins á nóttunni. Í þessum tilvikum leið ekki á löngu áður en fólk var tekið að ganga í hringi án þess að gera sér nokkra grein fyrir því sjálft. Niðurstaða vísindamannanna er sú að heilinn þurfi einhvers konar kennileiti til að skynja áttir.