Uppfinningamaðurinn Samuel Young hafði þægindi og öryggi að leiðarljósi þegar hann hannaði sérstakan höfuðpúða fyrir flugfarþega árið 1970, því púðanum var unnt að breyta í öryggishjálm ef nauðsynlegt yrði að nauðlenda. Púðinn var brotinn saman líkt og poki og farþeginn átti að stinga höfðinu inn í pokann og binda hann fastan með tveimur böndum undir hökunni ef vélin þyrfti að nauðlenda. Þetta átti að tryggja að þessi mjúki „öryggishjálmur“ haggaðist ekki af höfðinu ef nauðlending yrði óumflýjanleg.