The Katzenjammer Kids er elsta teiknimyndasagan sem enn kemur út.

Elsta teiknimyndasagan sem enn birtist er „The Katzenjammer kids“ sem margir Íslendingar kannast við undir dönsku nöfnunum „Knold og Tot“. Þessi teiknimyndasaga birtist enn í dag í um 50 blöðum og tímaritum víðs vegar um heim, en var fyrst birt í Bandaríkjunum 1897. Teiknarinn var af þýskum uppruna, Rudolph Dirks, og varð fyrstur til þess á síðari tímum að nota talblöðrur.

Teiknimyndasöguformið á sér þó mun lengri sögu. Sumir telja að hana megi rekja allt aftur til hellamálverkanna. Öllu áreiðanlegra er þó að miða við myndskreytt rit á miðöldum, sem í var að finna þúsundir teikninga og höfundarnir nýttu sér bæði talblöðrur, innrammaðar myndaseríur og næstum allar aðferðir sem nú eru notaðar í teiknimyndasögum.

Flestir telja Svisslendinginn Rodolphe Töpffer frumkvöðul þess að endurvekja teiknimyndasöguformið. Hann hóf ferilinn um 1827 með „M Vieux Bois“, en betur þekkt varð sagan um „M. Cryptogame“ sem kom út um 1845.

Í Bandaríkjunum var „The Yellow Kid“ sem út kom 1895, ein af fyrstu og vinsælustu sögunum. Teiknarinn hét Richard Outcult og serían fjallaði um dreng í gulri skyrtu. Það sem hann sagði stóð á skyrtunni og stundum í talblöðrum.

Japanski manga-stíllinn, sem komist hefur í tísku á síðari árum, á ættir að rekja til listamannsins Hokusai, sem árið 1814 sendi frá sér allmargar teikningar og skopmyndir sem hann nefndi „Manga“ og þessar nýju teiknimyndaseríur heita eftir.