Í miðri þokunni NGC 2440 hafa stjörnufræðingar fundið stjörnu með 200.000 stiga yfirborðshita.

Hitastig inni í kjarna stærstu stjarnanna getur orðið margir milljarðar stiga, en þegar talað er um hitastig stjarna er reyndar yfirleitt átt við yfirborðshitann. Og á yfirborðinu er hitametið um 200.000 gráður sem er um 35-faldur yfirborðshiti sólarinnar.

Hin heita stjarna HD62166 er hvítur dvergur sem vegna hás hitastigs skín 250-falt bjartar en sólin. Hvítur dvergur myndast þegar stjarna á borð við sólina er búin að nota öll létt frumefni í kjarnasamruna. Eftir að hafa um tíma þanist út sem rauð risastjarna fellur hún saman og endar sem ofurþétt og mjög heit hvít dvergstjarna sem ekki er stærri um sig en jörðin.