Atómklukka er óþægilega fyrirferðamikil en nákvæmni hennar má nýta með útvarpsbylgjum.

Útvarpsbylgjustýrt úr virkar í meginatriðum alveg eins og hver önnur kvartsklukka. Kvartsklukkum er stýrt af kvartskristal og þær eru svo nákvæmar að ekki skeikar nema í mesta lagi 10 sekúndum á mánuði. En í samanburði við atómklukkur telst það þó gríðarleg ónákvæmni. Atómklukku skeikar nefnilega ekki nema í allra mesta lagi um eina sekúndu á milljón árum.

Tilgangurinn með útvarpsstýringunni er að nýta nákvæmni atómklukkunnar í daglegu lífi. Á stofnuninni „Physikalish-Technische Bundesanstalt“ í Braunschweig í Þýskalandi er atómklukka sem tengd er við útvarpssendi í grennd við Frankfurt, en þaðan eru tímaboð send stafrænt á einnar mínútu fresti. Boðin eru send á tíðninni 77,5 kHz, sem tilheyrir langbylgjusviðinu og því fylgja ýmsir kostir. Merkið næst í allt að 2.000 km fjarlægð, auk þess sem langbylgjusendingar ná inn í byggingar og til að taka við þeim þarf ekki stærra loftnet en svo að það kemst fyrir í venjulegu armbandsúri.

Í merkinu eru upplýsingar um ár, mánuð, dag og að sjálfsögðu tíma. Ekkert er því til fyrirstöðu að armbandsúr geti uppfært sig á hverri mínútu, en þar eð til þess þarf rafmagn eru flest úr þannig gerð að þau taka aðeins við merkinu einu sinni á sólarhring og leiðrétta sig ef þörf er á. Þetta gerist að nóttu til, þar eð útvarpsbylgjur berast best á þeim tíma.