Ljósdíóða er lítill hálfleiðari sem sendir frá sér mikið af ljóseindum, sem við sjáum sem ljós.

Kjarninn í ljósdíóðu er lítill hálfleiðari, sem aðeins hleypir rafmagni í aðra áttina. Þegar straumur fer um hálfleiðarann losar hann mikið af ljóseindum og það eru þær sem við sjáum sem ljós. Plastkápa sér um að beina ljósinu, sem reyndar var rautt í fyrstu díóðunum. Síðar hefur tekist að þróa díóður úr efnum sem senda frá sér ljós á styttri bylgjulengdum. Nú er því unnt að fá díóður sem lýsa í ýmsum litum, m.a. díóður sem gefa frá sér ljós, mjög svipað dagsbirtu.

Ljósuppsprettan kallast LED, sem er skammstöfun fyrir ensku orðin „light emitting diode“. LED-ljós njóta síaukinna vinsælda og eru nú m.a. notuð í vasaljós, farsíma, skjái, bílljós og umferðarljós.

Í samanburði við hefðbundnar ljósaperur eru díóðurnar afar afkastamiklar. Í wöttum talið framleiða þær um fjórfalt ljósmagn á við glóðarperu. Í díóðunni er enginn glóðarþráður og hún er því sterk og endist lengi. Hingað til hefur verðið þótt hátt, en það er nú á hraðri niðurleið.