Þegar vindhraði er 10km/klst jafngildir það einni gráðu í mínus. Við 20km/klst er kælingin orðin 9 gráður í mínus og við 40km/klst er hún komin niður fyrir 15 gráður í mínus. Miðað er við 0 stiga lofthita.

Þótt hitamælirinn sýni hita yfir frostmarki, getur loftið virst ískalt þegar vindurinn blæs. Ástæðan er þó ekki sú að vindurinn kæli loftið, heldur verða loftskipti við húðina hraðari og hún nær því síður að verma upp loftlagið næst sér. Þetta fyrirbrigði kallast almennt vindkæling.

Þegar líkaminn framleiðir hita, flytur blóðið hann til allra líkamshluta. Sé vindstyrkur lítill verða loftskiptin hæg, en þegar hvessir verða loftskiptin við húðina mun hraðari og húðin tapar því meiri hita. Þess vegna finnst okkur loftið kaldara þegar vindurinn blæs. Og áhrifin á líkamann eru svo sannarlega raunveruleg, því hættan á kali eykst með vindhraðanum.

Vindkælingin er mælanleg. Kælingarkvarðinn var upphaflega reiknaður út frá tilraunum á áhrifum vinds á sívalninga með heitu vatni, en áhrifin eru nú reiknuð á grundvelli rauntilrauna á mönnum.