Loðfílar voru til í Alaska a.m.k.þar til fyrir 10,500 árum og hafa því verið samtíða mönnum í nokkur þúsund ár.

Kafloðnir mammútar, eða loðfílar, höfðust við á sléttum Norður-Ameríku miklu lengur en talið hefur verið. Þetta sýna rannsóknir á DNA-sameindum sem varðveist hafa í sífreranum í Alaska.

Í meira en 100 ár hafa menn deilt um ástæður þess að loðfílar og fleiri stórvaxnar dýrategundir dóu út í lok ísaldar. Á tiltölulega skömmum tíma hurfu um tveir þriðju allra stórvaxinna spendýrategunda í Norður- og Suður-Ameríku, þar á meðal risaletidýr, sverðtígur og loðnir nashyrningar. Fram að þessu hafa flestir viljað kenna manninum um. Fyrstu ummerki manna (Clovis-menningin) eru um 14.000 ára gömul og elstu mammútabein eru aðeins um þúsund árum yngri. Þetta gætið komið heim og saman við að menn hafi útrýmt þessum stóru skepnum.

En nútíma DNA-tækni þarf ekki á beinum eða tönnum að halda. Erfðaefni má líka finna í saur og þvagi og þeirri aðferð beittu Eske Willerslev, prófessor við Kaupmannahafnarháskóla, og félagar hans, sem fundu erfðaefni mammúta í jarðvegssýnum frá Alaska. Þessi sýni sanna að loðfílarnir voru uppi a.m.k. 2.600 árum lengur en talið hefur verið. Þar með má líklega leggja til hliðar kenningar um veiðar manna eða aðrar mjög skyndilegar breytingar á tilvistarskilyrðum dýranna.

Þá standa loftslagsbreytingarnar einar eftir. Mammútar hafa einfaldlega ekki náð að aðlagast hinum hröðu loftslagsbreytingum sem urðu þegar ísöldinni lauk.