Staðdeyfing dugar til að koma málmnetinu upp í kalkaða æðina.

Heilablóðfall er ein algengasta dánarorsök á Vesturlöndum. Í mörgum tilvikum er ástæðan kölkun í hálsslagæðinni og læknar hafa nú árum saman rætt ágæti tveggja lækningaaðferða.

Nú hafa læknar við Tækniháskólann í München fylgst með 1.214 sjúklingum í tvö ár og komist að þeirri niðurstöðu að líkurnar á öðru áfalli séu undir 1%, hvorri aðferðinni sem beitt er. Önnur aðferðin er hefðbundin skurðaðgerð, þar sem læknar fjarlægja harðnaða fitu sem þrengir æðina. Hin aðferðin krefst aðeins staðdeyfingar. Mjórri slöngu er smeygt inn í blóðrásina í náranum og þaðan alla leið upp í háls þar sem lítið málmnet er skilið eftir til að þenja út æðina.