Áletranir og litir hafa varðveist vel á 4 af alls 53 nýfundnum múmíum.

Í pýramídabænum al-Lahun, á vesturbakka Nílar og fyrir sunnan Kaíró, hafa egypskir fornleifafræðingar fundið grafreit með 53 vel varðveittum múmíum. Sumar eru allt að 4.000 ára gamlar og lágu í fagurlega skreyttum trékistum í gröfum sem höggnar voru í klöpp.

Auk múmíanna fundu fornleifafræðingarnir 15 málaðar andlitsgrímur, leirmuni, heillagripi og kapellu með fórnarborði. Af múmíunum hafa 4 verið lagðar til hvílu nálægt valdatíma 22. konungsættar, 931-725 f.Kr. Þær eru einkar vel varðveittar, sveipaðar líni, gullskreyttar og málaðar með túrkís- og leirlitum, eins og tíðkaðist á þessum tíma. Aðrar múmíur hafa aftur á móti legið óhreyfðar mun lengur, eða síðan á tímum Miðríkisins á tímabilinu 2061-1786 f.Kr.

Al-Lahun er í grennd við vinina al-Fayyum sem í fornöld var eitt af þremur meginsvæðum Egyptalands ásamt Nílardalnum og óshólmum Nílar.