Lyfið DPPE-PEG hefur reynst áhrifaríkt til að hamla gegn cýtókínframleiðslunni og hindra þannig astmaköst.

Læknisfræði

Vísindamenn við Barnasjúkrahúsið í Boston hafa nú náð mikilsverðum áfanga í baráttunni við astma. Á síðasta ári sýndu vísindamennirnir fram á að ákveðin gerð ónæmisfrumna í lungunum gegndu mikilvægu hlutverki þegar astmaköst eru annars vegar. Nú hefur þeim tekist að skapa lyf til að ráðast gegn þessum frumum.

Astmi stafar af því að ónæmisfrumurnar framleiða mikið magn af cýtókínum sem koma af stað bólguviðbrögðum. Bólgan þenur út lungnavefinn sem auk þess tekur að framleiða slím þannig að loftrásir lokast. Raunar hafa vísindamennirnir lengi vitað að þessar svonefndu NKT-frumur bera ábyrgð á cýtókínframleiðslunni hjá astmasjúklingum og að óvenju mikill fjöldi þeirra er í lungum þessa fólks. En nú hafa ónæmissérfræðingurinn Omid Akbari og samstarfsfólk hans sýnt fram á að lyfið DPPE-PEG getur dregið úr cýtókínframleiðslu NKT-frumnanna í astmasjúkum músum og þar með komið í veg fyrir astmaköst. Þetta lyf er þegar viðurkennt af heilbrigðisyfirvöldum til annarra nota og vísindamennirnir reikna þess vegna með að geta hafið klínískar rannsóknir á astmasjúklingum strax á þessu ári.

Enn sem komið er vita vísindamennirnir þó hvorki hvernig NKT-frumurnar í lungnavefnum fá þá örvun sem leiðir af sér astmakast, né heldur hvernig þetta lyf kemur í veg fyrir þetta óhæfuverk þeirra. Það eru sem sé aðeins andgen úr fitu eða kolvetnum sem virkja NKT-frumurnar, en ekki prótein – eins og gerist þegar frjókornaofnæmi veldur astmaköstum. En vísindamennirnir gera sér vonir um að finna svörin við þessum spurningum með þeim rannsóknum sem ráðgerðar eru á næstu árum.